fimmtudagur, 30. desember 2010

Yfirferð áramótaheita

Til að byrja með, afsakið fá og léleg skrif í jólafríinu. Ég hef verið önnum kafinn við að sofa. Það breytist allt þegar ég fer aftur suður, 2. janúar næstkomandi.

En þá að efni færslunnar: það er kominn tími á að fara yfir áramótaheiti síðasta árs [sjá hér].

1. Eldast meira
Ég eltist um eitt ár og stóð því við þetta.

2. Flytja minna
Ég flutti einu sinni á árinu, sem er jafn oft og árið áður. Stóð ekki við þetta.

3. Kynnast fleira fólki
Ég stefndi á að vera kominn með 322 vini á Facebook fyrir lok árs. Svo illa tókst mér til í þessu að jafnvel mínir nánustu vinir eyddu mér af Facebook-inu sínu. Nú á ég 302 vini, sem er eiginlega kraftaverk, þar sem það er aukning um 9 vini milli ára. Stóð ekki við þetta.

4. Minni innivera
Ég fór reglulega í göngutúra á árinu og einu sinni upp á fjall. Það er þó frekar dæmigert ár fyrir mig og lítil aukning. Ég stóð því ekkert sérstaklega við þetta.

5. Sofa meira
Ég hef sjaldan sofið jafn lítið og á árinu sem er að líða. Ég sofna sjaldnast fyrir klukkan 2 og vakna um 8:30 á virkum dögum. Ömurlegur árangur.

6. Spara meira
Ég endurskipulagði alla mína neyslu, hætti að versla í 10-11 að mestu og hóf innreið mína í Bónus. Sparaði gríðarlega á þessari breytingu. Stóð við þetta!

7. Minni vinna
Nei.

8. Þéra fólk
Þéraði ekki eina manneskju allt árið, fyrir utan einn prest, en það gæti tengst því að ég þóttist vera smámæltur.

9. Þyngjast meira
Ég tók mér pásu frá lyftingum á árinu og léttist eitthvað í framhaldinu. Verulega lélegur árangur.

Niðurstaða: Ég náði að standa við tvö áramótaheiti af níu. Það er ömurlegur árangur, vægast sagt. Í ár ætla ég því að reyna við 41 áramótaheiti. Með sama hlutfall og í ár ætti ég að ná að standa við níu þeirra.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.