mánudagur, 11. janúar 2010

Nýlega var mér gefið það ráð að mála yfir bólu sem hafði tekið bólfestu í andlitinu á mér með andlitsfarða eða einhverju sambærilegu. Mér fannst hugmyndin ömurleg en ákvað samt að prófa. Og viti menn; hugmyndin svínvirkaði. Bólan hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Mér er sama þó fólki finnist það skrítið eða hommalegt, ég mun nota farða hér eftir til að hylja bólur.

Hér er mynd frá fyrstu tilrauninni:


Takk Helgi fyrir aðstoðina og fyrir að taka myndina.

laugardagur, 9. janúar 2010

Á körfuboltaæfingu morgunsins áttu leikmenn að skiptast á að skjóta vítaskot þar til hver og einn hitti sjö skotum í röð.

Ég náði því í fyrstu tilraun en prófaði að halda áfram að skjóta. Ég náði að hitta 28 vítaskotum í röð, sem er líklega hápunktur körfuboltaferils míns.

Svo spiluðum við og þar gat ég ekkert, eins og venjulega.

Hér hefst opinbert bréf til KKÍ:


Til þess er málið varðar.

Ég legg til eftirfarandi breytingar á reglum körfuboltans, amk þegar ég spila. Ekki þegar ég horfi á hann:

* Bannað að drippla boltanum.
* Bannað að skjóta nema frá vítalínunni.
* Bannað að trufla skot andstæðinganna.
* Bannað að segja eitthvað niðrandi um þann sem er að skjóta. Orð særa.

Ég treysti mér ekki í að gefa upp ástæðuna fyrir breytingunum. En ástæðan er góð. Ég lofa.

Kv.
Finnur
Ég hef bætt við myndum úr jólafríinu á Facebook. Hér, nánar tiltekið.

föstudagur, 8. janúar 2010

Mig grunar að ég leigi íbúð með bilaðasta salerni landsins. Hér er listi yfir það sem hefur bilað frá því ég flutti inn í byrjun ágúst 2009 (fyrir 5 mánuðum):

* Sturtuhausinn sprakk af í einhverri sturtuferðinni. Nýr sturtuhaus var keyptur.
* Sturtan lak svo veggurinn í anddyrinu bóglnaði út. Það var lagað.
* Snagi er að hruni kominn. Ekki er stefnt á viðgerð.
* Salernistankurinn hleður sig illa. Ekki hægt að gera við. Nýtt salerni á leiðinni.
* Vaskurinn tæmist illa. Viðgerð á næstunni.
* Gólfflísarnar er rosalega forljótar. Reyni að líta ekki á þær.
* Spegillinn sýnir ósmekklegan mann þegar ég lít í hann. Skipti um spegil á næstunni.
* Pera sprakk í gærkvöldi. Ég stefni á gera við hana í kvöld.

Veggirnir hafa amk ekki bilað. Það er eitthvað.

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Nýlega hófust netheimar á loft þegar nokkrir gamalkunnir bloggarar tóku upp á því að byrja aftur að skrifa. Hér eru nokkrir þeirra:

Esther Ösp
Var aldrei almennilega hætt en farin að láta námið í of mikinn forgang. Vel máli farin og hnyttin.

Kiddi Trommtromm
Hress kappi sem trommar í þriðju hverri hljómsveit á landinu með annarri hendi og bloggar með hinni.

NBA Bloggið
Þessi síða hætti aldrei. Byrjaði samt nýlega. Ég hef mælt með henni áður en hún er bara svo góð að ég verð að mæla með henni aftur. Ótrúlega góð síða fyrir NBA áhugamenn (og konur, ef þær eru til)

Þóra Elísabet
Stuttar, hnitmiðaðar og skondnar bloggfærslur.
Fyrir tveimur árum kynntist ég tónlistarmanninn Sebastien Tellier. Fór meira að segja á tónleika með honum. Hann varð því fatt ársins 2008 hjá mér.

Tónlistarfatt ársins 2009 var hinsvegar rafpoppsveitin La Roux. Dæmi:

La Roux - Quicksand



Í öðru sæti var raftónlistarmaðurinn Vitalic. Dæmi:

Vitalic - Vooo



Uppáhaldsmyndbandið mitt á árinu 2009 var með Sebastien Tellier. Við lagið Kilometer, nánar tiltekið (sem er eitt af mínum uppáhaldslögum).


Myndbandið fjallar um gullfallegan og sjarmerandi mann sem býður nokkrum hefðardömum í partí með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Mjög sannfærandi myndband. Tellier bregst aldrei bogalistin.

miðvikudagur, 6. janúar 2010

Það er komið að því. Áramótaheiti mín fyrir árið 2010 (í stafrófsröð)!

Eldast meira
Bæði ætla ég að elda meira heima og eldast um amk 3,18% á árinu.

Flytja minna
Í fyrra flutti ég einu sinni. Árið 2010 ætla ég að reyna að flytja núll sinnum, sem væri þá 100% fækkun flutninga milli ára.

Kynnast fleira fólki
Árangurinn mælist í Facebook vinum. Núna á ég 293 vini, sem er frekar slappur árangur. Ég stefni á 322 vini fyrir lok árs. Það er um 10% aukning. Með fyrirvara um stórkostlegar náttúruhamfarir. [Facebooksíðan mín]

Minni innivera
Ég vinn inni. Spila körfubolta inni. Fer í ræktina inni. Fer út að hlaupa inni. Nóg komið! Á árinu ætla ég að gera meira úti. Helst allt.

Sofa meira
Ég sef um 6 tíma á virkum nóttum. Það er um 50% af því sem ég þarf. Ég hyggst auka svefninn um 33% á milli ára. Ég vona að yfirmaðurinn taki vel í að ég mæti ekki fyrr en á hádegi í vinnuna.

Spara meira
Sótsvartur almúginn er blankur í dag, skilst mér. Ég vil ekki falla í þann viðbjóðslega hóp. Ég hef því ákveðið að koma í veg fyrir það með því að eignast pening á árinu, jafnvel marga.

Vinna minna
Ég vinn of mikið. Ég hyggst vinna minna. Hljómar einfalt. Ætti að verða auðvelt.

Þéra fólk
Ætla að þéra fólk meira á árinu. Stefni á að auka þéranirnar um 15%.

Þyngjast meira
Helst af vöðvum. Ekki fitu. Eða beinum. Stefni á 15 kg þyngingu.

Þetta var auðveldara en ég hélt.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Ég er að velta fyrir mér að gera smávægilega breytingu á síðunni.

Breytinguna má sjá hér. Ekki mikil breyting svosem. En vonandi vinnunnar virði.
Eins og áður hefur komið fram gekk erfiðlega að fara austur í jólafrí í kringum 21. des síðastliðinn. Bíll sem ég ætlaði að ferja tók upp á því að opna húddið á miðri Hellisheiði, í brjáluðu roki og á miklum hraða.

Þegar það versta var afstaðið og ég beið í bílnum eftir að verða sóttur tók ég mynd:


Í kjölfarið fór ég að hugsa; hvar hef ég séð þetta áður?

Þegar ég fór skyndilega í nostalgíuflogakast uppgötvaði ég að svarið var komið. Ég upplifði þetta oft á dag í æsku minni þegar ég spilaði uppáhaldsleikinn minn, Test Drive 1:


Við þetta fattaði ég smá galla í Test Drive; baksýnisspegillinn á að detta af þegar rúðan verður fyrir höggi. Og bílstjórinn á að öskra eins og smástelpa.

Ég hef skrifað framleiðendum leiksins harðort bréf.

mánudagur, 4. janúar 2010

Ég tilnefni þennan mann sem leikmann (ens.: player) Íslands.

Og nei, ég hef ekki lesið fréttina. Ég þarf þess ekki. Fyrirsögnin segir allt sem ég þarf að vita.

sunnudagur, 3. janúar 2010

Ég er kominn aftur "heim" til Reykjavíkur með hjálp Flugfélags Íslands.

Bíllinn minn, sem beið mín á flugvellinum ískaldur eins og hugur minn til hans, tók upp á því, eftir aðeins 10 mínútna akstur, að biðja mig vinsamlegast um að stöðva "bifreiðina" þar sem eitthvað amaði að vélinni, að sögn.

Þá hefur bíllinn bilað 18 sinnum síðan ég keypti hann árið 2005. En bara einu sinni á þessu ári, sem verður að teljast gott.

laugardagur, 2. janúar 2010


Sá stórbrotni atburður átti sér stað í gær að ég kláraði bók sem ég hef verið að lesa síðustu tvo mánuði. Bókin er Deception Point eftir Dan Brown. Þetta er fyrsta bókin sem ég klára á árinu.

Bókin er um konu sem er sérfræðingur í öryggismálum Bandaríkjanna eða eitthvað. Hún er kölluð til af forseta Bandaríkjanna og send á norðurpólinn. Upphefjast exótísk ævintýri.

Þetta er fjórða bókin eftir Dan Brown sem ég hef lokið. Hér er listinn, besta bókin efst og sú versta neðst:

1. The Da Vinci Code (Ísl.: Kóði Kjarvals)
Æsispennandi bók með skemmtilegum samsæriskenningum. 3,5 stjörnur af 4.

2. Deception Point (Ísl.: NASA fer á kostum)
Grunsamlega spennandi bók. 3 stjörnur af 4.

3. Angels & Demons (Ísl.: Englar og sjálfstæðismenn)
Ekki ósvipuð The Da Vinci Code, nema verri. 3 stjörnur af 4.

4. Digital Fortress (Ísl.: Stafrænt Virki)
Fín bók, bara pínu vitlaus. 2 stjörnur af 4.

Ef einhver á nýjustu bók Dan Brown, The Lost Symbol (Ísl.: Hringur Tankados.) og vill lána mér hana þá er hinn sami beðinn um að senda mér hana á e-mailið finnurtg@gmail.com.