mánudagur, 3. nóvember 2008

Í kvöld hef ég ekkert að bjóða. Fyrir utan nýja fjórfara. Og von mína og líf mitt.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Helstu fréttir helgarinnar:

* UMFÁ sigraði HK á laugardaginn, 67-52 í andstyggilegum leik. Hér er tölfræðin.

* Vegna kreppunnar hefur gestaleikara Veftímaritsins Við Rætur Hugans, Jónasi Reyni, verið sagt upp störfum. Hann flytur aftur austur á land í fyrramálið. Veftímaritið þakkar vel unnin störf síðustu 3 mánuði, sem orsakað hefur 23% aukningu í aðsókn á síðuna.

* Ég náði ekki að versla hálft kíló af nammi í nammilandi á laugardaginn. Ég skalf því og svitnaði þann daginn, mestmegnis í óminni. Gott ef ég rændi ekki gamla konu síðar um kvöldið.

* Mig dreymdi að Beyoncé Knowles væri kærasta mín í nótt. Hún var mjög vergjörn en ég hafði engan tíma fyrir syndina, þar sem ég þurfti að drepa drauga sem ásóttu okkur.

* Mér tókst næstum að sannfæra stelpu um að ég væri 17 ára í partíi um helgina. Hún trúi bara seinni hlutanum, að ég væri í partíi.

laugardagur, 1. nóvember 2008

Í dag fer fram annar leikur liðs míns, UMFÁ, í körfubolta. Að þessu sinni mætir liði HK í Digranesi (heimavelli HK).

Leikurinn hefst kl 16:30 og er ókeypis inn. Ég mun verma áhorfendabekkinn og hvetja mína menn áfram með tárin í augunum (af stolti).

Áfram UMFÁ!!!

föstudagur, 31. október 2008

Nýlega opnaði þessi síða, þar sem Íslendingar mótmæla því að einhver Gordon Brown hafi notað hryðjuverkalög á landið. Það er bæði hægt að skrifa nafn sitt á lista og senda inn mynd, sýnandi að við erum ekki hryðjuverkamenn.

Ca 95% af myndunum láta mig hríðskjálfa úr aulahrolli. Ég get samt ekki verið minni maður en sótsvartur almúginn. Ég sendi inn eftirfarandi myndir:




Smellið á myndirnar fyrir stærri eintök.

Módel: Björgvin Gunnarsson (bróðir minn) og Bergvin Jóhann Sveinsson (frændi minn).
Myndataka: Finnur Torfi Gunnarsson (elskhugi minn og ég).
Ár: 2006.
Þá er komið að sparnaðarráðum Finns.

Ég fékk talsvert af kvörunum frá síðustu sparnaðarráðum, m.a. að ef slökkt er á öllum ofnum í húsinu þá frjósi fólk í hel, sérstaklega í 70 gráðu frostinu sem gengið hefur yfir landið. Hér er því lagfæring á ráðinu:

* Slökkvið á öllum ofnum í húsinu.
Þegar kuldinn er alveg að verða óbærilegur, kveikið á laginu hér að neðan og æfið dansinn í myndbandinu. Hann heldur á ykkur hita. Passið bara að springa ekki úr stuði.




* Sparið ykkur nauðungaráskriftargjald RÚV.
Það eina sem þið þurfið að gera er að henda öllum sjónvarpstækjum, útvarpstækjum, nettengdum tölvum og rífa útvarpið úr bílnum og viti menn; maður sleppur við að borga af þessari hrútleiðinlegu stöð.

fimmtudagur, 30. október 2008

Launin hjá starfsmönnum 365 munu lækka eftir mánaðarmótin. Ég vinn þar.

Mötuneytið hjá 365 er glórulaust í verðlagningu. Þannig hækkaði t.d. súkkulaðið Malta úr 70 krónum í 145 krónur einn daginn.

Stýrivextir snarhækkuðu nýlega upp í 18% og voru þó háir fyrir.

Til að taka þetta saman; neysluvörur snarhækka í verði, laun lækka og vextir af lánum (sem maður tekur til að eiga fyrir einhverju) hækka. Góðir tímar.

Ég vil gjarnan hitta manneskjuna sem sagði að peningar kaupi ekki hamingju og stinga hana í augun.

miðvikudagur, 29. október 2008

Upphaflega auglýsingin:



Framhaldið, 8 árum síðar:



Munið svo að kjósa Obama.

mánudagur, 27. október 2008

Getraun dagsins; hver er munurinn á myndunum fyrir neðan?





Svar: Það eru fimm börn og fóstra á efri myndinni.

sunnudagur, 26. október 2008

Eftirfarandi aðgerðir teljast hættulega nördalegar:

* Að tefla.
* Að hanga á internetinu.
* Að vera einn heima á laugardagskvöldi.

Ég sprengdi alla skala í gærkvöldi (laugardagskvöld) þegar ég sameinaði þessi þrjú atriði og tefldi á internetinu til 3:30 um nóttina. Ekki nóg með það heldur vann ég skákina og hló mjög asnalegum hlátri þegar andstæðingurinn gaf.

laugardagur, 25. október 2008

Klukkan 2 í nótt datt mér í hug að framkvæma rannsókn. Hér er skýrslan:

Rannsóknarefni:
Áhrif skúffukökuáts á körfuboltagetu.

Rannsóknaraðferð:
Ég borðaði hálfa skúffuköku kl 2:30 um nótt, 8 tímum fyrir körfuboltaæfingu. Með henni drakk ég 2 glös af léttmjólk. Skömmu síðar fór ég að sofa.

Framkvæmd:
Æfingin byrjaði ágætlega en fljótlega hætti ég að geta andað. Eftir 90 mínútur var ég kominn að því að kasta upp.

Niðurstaða:
Þol minnkar um 60%.
Geta minnkar um 2%.
Blót og öskur yfir slæmu gengi eykst um 450%.
Löngun til að deyja eykst um ∞.

Þannig að ég mæli ekki með því að borða skúffuköku svona skömmu fyrir körfuboltaæfingu.

Næst ætla ég að kanna áhrif Risahraunáts á körfuboltagetu.

fimmtudagur, 23. október 2008

Í gærmorgun vaknaði ég við ófagra sjón. Hvorki fleiri né færri en níu bólur voru mættar í annars frekar ófrítt andlit mitt. Þetta kom mér í opna skjöldu.

Svo fór ég að hugsa; hvernig hefur nammineysla mín verið í október? Og í framhaldinu; hvernig er fylgnin milli andlitsbóla og nammineyslu?

Ég skoðaði eitt af fjölmörgum Excelskjölum sem ég held til haga um neyslu mína, atgervi og hegðanaferli og sá strax munstur.

Smellið á myndina fyrir stærra eintak.



Svo virðist sem neikvæð fylgni sé á milli þess að borða nammi og fá bólur í framan, þeas því meira nammi sem ég borða, því færri bólur eru framan í mér.

Nýlegt heilsuátak mitt í nammiáti er því að fara mjög illa í líkamann, með áður nefndum mótmælum hans.

Hér er því komin enn ein ástæðan fyrir að borða nammi í nánast hvert mál.

miðvikudagur, 22. október 2008

Hrezz


Hrezz
Originally uploaded by finnurtg
Ef einhver spyr, hér eftir, þegar ég mæti í vinnuna á morgnanna hvernig líðanin sé þá ætla ég á að sýna þessa mynd. Svona líður mér alla morgna.

Módelið er Jón Ólason, 4ra mánaða sonur Óla Rúnars gítarsólóleikara með meiru.