föstudagur, 10. október 2008

Ef syfja væru úttektir peninga, líkamleg þreyta væri skurður á erlendar lánalínur og ég væri banki þá væri ég líklega farinn á hausinn og yfirtekinn af rúminu mínu, að því gefnu að rúmið mitt væri Íslenska ríkið.

En samt ætla ég í ræktina eftir vinnu í dag. Sumir segja óábyrg líkamsmálastefna, ég segi áframhaldandi útrás.

fimmtudagur, 9. október 2008

Gærdagurinn gat ekki liðið nógu hratt. Ég reyndi að láta hann líða hraðar með ýmsu móti, m.a. með því að ýta jörðinni réttsælis og hlaupa undan sólinni, en allt kom fyrir ekki.

Ástæðan er mjög slæmur hárdagur (ens.: bad hairday). Eftirfarandi háratburðir gerðust:

* Ég gleymdi að setja gel í hárið. Það hlýddi mér ekki það sem eftir lifði dags.
* Í vinnunni spurði samstarfsmaður minn mig hvort ekki væri allt í lagi í einkalífinu í kjölfar hárgreiðslunnar, eða skorti þar á.
* Ég gleymdi svitabandi fyrir körfuboltaæfingu sem heldur hárinu í skefjum. Ekki falleg æfing.
* Hárið var með rætið grín í garð minnihlutahóps á einum tímapunkti, enda gjörsamlega stjórnlaust.

Fleira tengt hárinu á mér gerðist ekki þann daginn. En í dag er risinn nýr dagur með nýjum hárævintýrum. Ég hlakka til að takast á við þau.

miðvikudagur, 8. október 2008

Andleysi = Kvikmyndagagnrýni.
Mikið andleysi = Kvikmyndagagnrýni síðasta mánuðinn.

Hér er listi yfir myndir bíóhúsanna og umsögn:

Babylon A.D.
Hef ekki séð hana. Vísindamenn, byssur, sprengjur og morð. Mig langar að sjá hana.

Burn After Reading
Nýja Cohen myndin. Fjallar um vesen hjá CIA sem tengist mútum, framhjáhaldi, lítaaðgerðum, ævisögu og Barða Hamar. Vel leikin, þó Frances McDormand sé orðin þreytt. Það vantar þó talsvert upp á hjá Cohen að þessu sinni (hint: kynlífssenu).
2 stjörnur af 4.

Charlie Bartlett
Ungur, ríkur og úrræðagóður drengur fer í nýjan skóla, þar sem hann er alltaf rekinn fyrir að afla sér vinsælda með ólöglegum hætti. Mjög öðruvísi mynd. Anton Yelchin, sem leikur Charlie Bartlett mun líklega verða næsti Bob Hope, eða einhver.
Ágætis afþreying í mesta lagi.
2 stjörnur af 4.

Death Race
Kreppan er skollin á í Bandaríkjunum og fangelsin afla sér fjár með raunveruleikakappakstri þar sem keppendur geta dáið. Sirka myndin Running man + bílar. Mjög raunveruleg mynd, eftir að kreppan braust út öskrandi.
12 sprengjur í myndinni, sem gera 2,5 stjörnur af 4.

Journey to the Center of the Earth
Hef ekki séð hana.

Mamma Mia
Karlmenn mega ekki sjá hana. Samtök gagnkynhneigðra banna það.

Mirrors
Hef ekki séð hana og mun líklega aldrei fara á hana. Á erfitt með að finna einhvern sem vill fara með mér pissublautum úr bíósalnum.

Pathology
Hef ekki séð hana. Ég mun líklega ekki sjá hana. Viðbjóður, að sögn. En ég veit ekki. Mér finnst Milo Ventimiglia ekki það ógeðslegur. Svo er ég ekki rasisti.

Pineapple Express
Dóphaus í vinnu(!!) verður vitni að morði. Upp hefst æsilegur eltingaleikur. Fyndin mynd en eins og alltaf frá þessum handritshöfundi finnst mér eitthvað vanta (t.d. kynlífssenu). Trailerinn fyrir myndina er eiginlega betri en myndin.
Allavega, fín afþreying.
2 stjörnur af 4.

Reykjavík - Rotterdam
Skuldum vafinn fyrrum glæpamaður og fjölskyldufaðir ákveður að smygla áfengi (af öllu sem hægt er að smygla) frá Hollandi til að borga íbúð og bjarga bróður konu sinnar frá því að vera settur í pappírstætara af handrukkurum.
Vel gerð og leikin mynd, spennandi og skemmtileg, þó sagan sé ótrúverðug á köflum. Það er ekki oft sem maður heldur með einhverjum í íslenskri mynd, en það gerðist þarna við mikinn pirring viðstaddra bíógesta.
3,5 stjörnur af 4.

Step brothers
Will Ferrell mynd. Hann á stjúpbróðir í þessari mynd. Afþreying, ekkert meira.
1,5 stjarna af 4.

Sveitabrúðkaup
Fólk ætlar að gifta sig í sveit. Taka rútur þangað og villast. Ef einhver hefði bara spurt út í nafnið á sveitabænum þar sem brúðkaupið átti að fara fram þá hefði þessi mynd ekki þurft að verða til.
Rosalega vond mynd. Bæði leiðinleg og uppfull af drama, sem er ekki fyndið.
4 stjörnur af 250.000.

Tropic Thunder
Prímadonnuhollywoodleikarar eru fluttir til Víetnam til að ná raunverulegri senum. Mjög fyndnir leikarar, sérstaklega Jack Black, í skondnum söguþræði. Tom Cruise stelur senunni í aukahlutverki. Eitthvað vantar þó, eins og alltaf. Í þessu tilviki bæði dans- og söngvasenu ásamt væmnu ástaratriði.
2,5 stjörnur af 4.

Wild Child
Hef ekki séð þessa virðulegu mynd en OMG mig langar gegt ekkva að sjá hana, skiluru. P.s. not.

þriðjudagur, 7. október 2008

Í gærkvöldi benti ég öllum vinum mínum á að, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, væri bensínið að hækka í dag um allt að 20 krónur/líterinn vegna gengishruns krónunnar.

Ég sagði fólki að hætta því sem það var að gera, hlaupa á næstu bensínstöð (helst nakið) og taka allt það bensín sem það gæti, eins og ég gerði.

Í morgun lækkaði bensínið um 11 krónur/líterinn.

Ef við gerum ráð fyrir að hver vina minna hafi tekið 40 lítra af bensíni í gær í stað þess að bíða með það til dagsins í dag þá fáum við að hver vina minna hafi eytt 440 krónum vegna mín (40 lítrar * 11 krónur).

Ef við margföldum þessa tölu svo með fjölda vina minna þá fáum við út að ég hef valdið 0 króna skaða alls (440 krónur * 0 vinir). Fjúkk að ég á enga vini.

mánudagur, 6. október 2008

Þetta er síðasta færslan í bili um kreppuna, ég lofa.

Nýlega spurði vinur mig, háttvirtan Viðskiptafræðinginn, hvaða langtímaáhrif atburðir dagsins gætu haft á íslenskt efnahagslíf og umhverfi.

Til að höfða betur til vinar míns, sem er ekki virðulegur Viðskiptafræðingur eins og ég, þá klæddi ég mig úr að ofan og makaði drullu yfir andlitið á mér. Svo dansaði ég um eins og simpansi áður en ég pissaði á hann.

Þá sagði hann mig hálfvita og lét sig hverfa. Mér gafst því ekki tækifæri á að ausa úr Viðskiptafræðiviskubrunni mínum. Þetta fær maður fyrir að reyna að útskýra ástandið fyrir þeim sem ekki eru mikils metnir Viðskiptafræðingar, eins og ég.

Allavega, ef fólk er að velta þessu fyrir sér þá er svarið hér: Hafiði séð bíómyndina Apocalypto eftir Mel Gibson? Þannig munu Íslendingar búa, í grófum dráttum, eftir nokkrar vikur. Það er mitt Viðskiptafræðiálit.
Ég man mjög vel hvað ég hef verið að gera á meðan helstu atburðir í lífi mínu áttu sér stað. Hér eru tæmandi listi:

* 11. september 2001: Árás á tvíburaturnana. Ég var sofandi eftir næturvakt. Vaknaði ca 7 tímum eftir árásina í góðum gír.

* 11. september 2002: Anna Lindh myrt. Ég lagði mig eftir vinnu og svaf þetta af mér.

* 17. janúar 2003: Ég sló svefnmet með því að sofa 24 klukkutíma samfleytt. Ég var sofandi.

* 19. júní 2003: Styrmir bróðir eignast fyrsta barn okkar systkina; Kristján Frey. Ég var steinsofandi, einhverra hluta vegna.

* 5. janúar 2008: Missti sveindóminn. Náði að sofa það af mér. Tilkynnti lögreglu þegar ég vaknaði.

Og nú það nýjasta:

* 6. október 2008: Geir H. Haarde tilkynnir að sá síðasti til að yfirgefa Ísland eigi að slökkva á eftir sér. Ég var að blogga. Þessa færslu.

laugardagur, 4. október 2008

Hér er skákgetraun dagsins:


Svartur gefur í einum leik.

Fyrir rétt svar fæst píanó í verðlaun að verðmæti kr. 500.000.

Tekið úr skák gærkvöldsins.
Í vikunni sem leið einbeitti ég mér að því að vera svalur. Ég byrjaði á að ganga með linsur hvert sem ég fer svo fólk hætti að benda, hlæja og kasta hlutum í mig fyrir að vera með gleraugu.

Svo fór allt niður á við. Ég fór á námskeiðið Excel III á fimmtudaginn þar sem kennt er forritun í Excel. Tvennt nördalegt gerir ekki eitt svalt, því miður.

Seinna sama dag hjálpaði ég ungri dömu með bókfærsluverkefni og annarri dömu við að koma netinu í tölvunni sinni í lag.

Til að fullkomna svo ósvalheitin eyddi nýtti ég gærkvöldið í að tefla 1. umferð með Skáksveit Austurlands á Íslandsmótinu í Sveitaskák. Umferðin fór illa (3,5-2,5 fyrir Víkingahópnum).

Hér er hægt að sjá skákina mína. Ég var með hvítt. Því miður vann ég skákina, til að undirstrika að ég verð aldrei svalur.

föstudagur, 3. október 2008

Í dag, þegar ég var um það bil að fá heilablóðfall úr stressi yfir þessari kreppu og slöku gengi íslensku krónunnar, uppgötvaði ég að allt þetta stress er óþarfi. Ég á nefnilega um 50 dollara á pókerreikningi á netinu sem gera um 250.000.000 króna.

Frekar súrt að átta sig á því svona seint að það hefði verið sniðugra að fjárfesta í erlendri mynt síðustu 10 ár en ekki Risa hrauni.

fimmtudagur, 2. október 2008

Þessi færsla átti að vera ca svona:

„Kreppan er skollin á og Íslendingar súpa hveljur og lepja dauðann úr skel. En hlutirnir gætu verið verri. Það gæti allt verið á kaf í snjó og ég stofnandi öllum í lífshættu með því að vera með fullkomlega sléttar túttur undir bílnum mínum.

Engin önnur leið að því að hlutirnir verði verri er möguleg.“

Í kvöld reið svo enn eitt áfallið yfir þjóðina; ég er með stórkostlega sléttar túttur undir bílnum mínum í staðinn fyrir dekk. Og svo fennti Reykjavík og nágrenni í kaf.

Nú væri gott að vera reipisframleiðandi og græða á tá og fingri, hvort sem er á fólki sem er að festa sig út um allt á bílunum eða myntkörfulánafólki.

miðvikudagur, 1. október 2008

Þessi vika byrjar ekki vel:

* Krónan hrynur í verði.
* Bankar eru yfirtekinn af Davíð Oddssyni sem mun líklega valda gjaldþroti víðsvegar.
* Paul Newmanar eru deyjandi út um allt.
* Hjólabátar eru bilandi um allar Víkur.

En ekki eru allar fréttir slæmar. Vísir horfir á björtu hliðarnar og birtir eina bestu frétta sem ég hef lesið séð á ævi minni (hér). Áfram Vísir!
Ég hef gefist upp á krónunni. Hún fellur næstum jafn hratt og íslenska fótboltalandsliðið niður alþjóðlega styrkleikastigann.

Ég hef því ákveðið að selja allar mínar krónur. Þær er hægt að kaupa með kynlífi, eina alvöru gjaldmiðlinum.

Ef einhver veit um áhættusækinn viðskiptasnilling sem er til í að skipta kynlífi fyrir verðlausar krónur, látið mig vita.