föstudagur, 9. apríl 2004

Nokkur furðuleg atriði varðandi mannslíkamann sem ég hef tekið eftir frá æsku minni:

1. Það vaxa hár úr andliti karlmanna. Fáránlegt.
2. Konur mála á sér andlitið. Merkilegt en um leið hlægilegt.
3. Svitalykt. Er ekki löngu tímabært að við þróumst frá henni?
4. Rasskinnarnar. Tveir púðar til að sitja á. Fyndið.
5. Eyru. Bjánalega útlítandi líkamspartur.

Fyndinn þessi mannslíkami sem allir eru að tala um.
Frekar fyndið að verða orðinn gráskeggjaður áður en að ná almennilegri skeggrót en það lítur út fyrir að þannig verði hlutskipti mitt í nánustu framtíð þar sem ég fann eitthvað magn af gráum hárum á höfði mínu í gærkvöldi (ekki spyrja hvað ég var að gera).
Sniðugt. Það gengur enginn strætó í dag. Ég lærði það á frekar leiðinlegan og tímafrekan máta sem ég held að allir átti sig á hvernig hafi verið.

fimmtudagur, 8. apríl 2004

Síðustu tvo daga hef ég aðeins borðað gríðarlega óhollustu. Máli mínu til stuðnings birt ég tölfræðina:

Í gær át ég eftirfarandi:

Hálf skúffukaka + 2 glös af mjólk.
1 stk. snickers + 0,33l kók.
2 stk. fjólublátt extra jórturleður.

Í dag hef ég borðað nákvæmlega sama magn af öllu nema jórturleðri þar sem ég skar niður neysluna um helming á því sviði, til að koma til móts við bíóferð sem plönuð er í kvöld.

Það má því segja að það sé mikil gúrkutíð í matar og bloggmálum hjá mér.


The Butterfly Effect.


Í gærkvöldi sá ég myndina The Butterfly Effect með Ashton Kutcher og Amy Smart í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um piltung sem missir minnið annað slagið á yngri árum. Þegar á fullorðinsárum er náð uppgötvar hann að með upprifjun á þessum tímabilum getur hann breytt fortíðinni og þarmeð framtíðinni. Hljómar eins og algjört kjaftæði en kemur á óvart hvað þetta er áhugavert og skemmtilegt. Álit mitt á Ashton Kutcher hefur hækkað gríðarlega þar sem hann stendur sig með stakri prýði.

Í myndinni kom líka athyglisvert atriði. Þegar hann var yngri fór hann á bíómyndina Seven, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og ekki nóg með það heldur skrifar aðalkarakterinn dagbækur um allt sem gerist í nákvæmlega eins bók og John Doe skrifaði í í Seven. Mögnuð tilviljun það.

Allavega, myndin er spennandi, áhugaverð, grípandi og stórkostlega skemmtileg. Ég mæli sterklega með henni þegar hún kemur í bíóhús landsins. Þrjár og hálfa stjörnu af fjórum. Jafnvel fjórar.
Fjórfarar vikunnar:



Styrmir bróðir.




Chris Carmack - vondi kærstinn í The OC.




Eric Montross.





Ivan Drago.


Styrmir, þetta færðu fyrir að rífa og henda límmiðunum sem mig langaði að eiga þegar ég var 11 ára.

miðvikudagur, 7. apríl 2004

Yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda í örlítilli könnun minni í vikunni vildi gjarnan taka aðra könnun þar sem hin klúðraðist algjörlega eftir að 48 manns höfðu kosið. Hér er þá komin önnur könnun fyrir ykkur að taka. Ég er óendanlega þakklátur þeim sem hana taka með glöðu geði.

Fyrir ykkur sem misstuð af hlekknum hér að ofan þá getið þið tekið hana hér. Hún er mun betri en sú síðasta þó að útlitið á henni sé frekar slæmt.
Í strætóskýli í gær varð ég vitni að því þegar gömul kona tapaði strætómiðanum sínum. Hún leitaði út um allt í skýlinu, hátt og lágt og snéri öllu á hvolf í leitinni. Ég hjálpaði henni og skimaði eftir miðanum sem henni var svo dýrmætur.
Eftir nokkra mínútna leit og talsvert mikil vandræði dró hún upp veskið sitt og reif annan miða, af ca tuttugu.
Ég hefði skallað nísku kellinguna ef hún hefði náð mér ofar en mitti.

þriðjudagur, 6. apríl 2004

Á morgun, miðvikudaginn 07. apríl 2004, mun hin stórkostlega söngkona og falski karakter (eða var það öfugt) Leoncie skemmta sótölvuðum mannskap Nellys við væntanlega mikinn fögnuð viðstaddra. Nánari upplýsingar hér. Góða skemmtun.
Á meðan ég er í prófi getið þið skemmt ykkur yfir eftirfarandi bandaríkjaáróðursmyndum sem ég gerði um daginn:

Mynd 1
Mynd 2
Þá er fyrsta prófið að byrja eftir rúmlega tvo tíma og það er í þjóðhagfræði. Ég ákvað að bregða út af vana mínum og sofa fyrir þetta próf sem veldur því að ég er ekki að kasta upp blóði þessa stundina. Ég hinsvegar finn ekki fyrir tungunni á mér fyrir stressi en það er önnur saga.

mánudagur, 5. apríl 2004

Fyrsta prófið á morgun. Tilhlökkunin er gríðarleg og stressið í algjöru lágmarki. Þó það sé gaman að fara í prófið sjálft þá er próflesturinn það skemmtilegasta við allt námið.

Þessi færsla var í boði prestasamtaka íslands (sjáið þessi ummæli ef þið eruð að klóra ykkur í hausnum núna).