Nýlega varð ég ástfanginn af sósu. Við kynntumst á American Style fyrir nokkrum mánuðum og urðum strax vinir. Hún heitir Bernaisesósa og er óþolandi bragðgóð.
Í Bónus í dag rakst ég svo á Bernaisesósu í dollu. Við spjölluðum saman og ég endaði á því að setja hana í innkaupakörfuna.
Ég vildi samt ekki vera feita ógeðið sem þambar Bernaisesósu í kvöldmat, svo ég keypti franskar kartöflur líka, til að hafa afsökun fyrir Bernaisesósuþambinu. Það borðar enginn franskar eingöngu, svo ég keypti mér frosna pizzu með.
Við nánari athugun sá ég að pizzan var með alltof litlum osti og nánast engu áleggi. Svo ég keypti rifinn mozarella. Ein tegund af osti er ekki nóg, svo ég keypti aðra gerð af rifnum osti og soyaálegg sem ég hyggst steikja áður en ég set á pizzuna.
Svo í kvöld mun ég borða pizzu hlaðna áleggjum og osti með frönskum, bara til að geta átt fallega stund með Bernaisesósunni. Sambandið er strax orðið mér dýrkeypt.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.