Ef svo vill til að einhver googli „Svefnvenjur Finns Torfa Gunnarssonar frá miðjum júlí til lok nóvember 2011“ þá vil ég að þessi síða finnist. Maður veit aldrei.
Hér er nákvæm tölfræði varðandi svefnvenjur mínar frá miðjum júlí, haldið saman af símanum mínum.
Hér má sjá vikulegt hreyft meðaltal yfir fjölda tíma sem ég sef á nóttunni, á daginn og samtals á sólarhring. Já, ég sef hátt í tvo tíma yfir daginn sumar vikurnar. Og hvað með það?
En í hvaða mánuði sef ég mest? Súlurit!
Þarna sést að ég svaf mest í júlí, sem gæti verið vegna þess að úrtakið í júlí innihélt þrjá sunnudaga en tvo af öðrum dögum. Annars er þetta býsna jafnt. Ég er að sofa um átta tíma á sólarhring, eins og eðlilegt fólk á að gera. Sem gerir þetta frekar einkennilegt.
Hvenær í vikunni sef ég mest? Ha?
Ég held að allir geti verið sammála um að þetta sé áhugaverðasta myndin. Hér sést að ég sef lang mest á sunnudögum eða um 9,7 tíma. Minnst sef ég á mánudögum eða um 6,6 tíma. Svefninn eykst svo jafnt og þétt út vikuna, þar til kemur að svefnsprengju helgarinnar.
Líkurnar á því að ég sé sofandi eftir vinnu á föstudegi eru yfirgnæfandi, þar sem ég legg mig að meðaltali í 1,4 tíma á föstudögum, eins og yfirmaður.
Ég veit ekki með ykkur en mér líður betur eftir þetta Excelgrafagreiningarklám.
Gærdagurinn átti að verða algjör andstæða við daginn þar á undan, þegar ekkert gerðist (enda veikur).
Ég byrjaði gærdaginn á að mæta næstum á réttum tíma í vinnuna eða um hálftíma of seinn. Því næst vann ég hér um bil öll verkefni heimsins, áður en ég fór í bíó með vini klukkan 17:40.
[Innskot. Myndin Ides of March (Ísl. Miður mars) er fullkomin bíóferðarmynd, sérstaklega klukkan 17:40. Nógu góð til að horfa á og nógu fáar sprengjur svo að krakkafífl fari ekki á hana. Og ekki í þrívídd. Þrjár stjörnur af fjórum.]
Eftir bíóferðina ætlaði ég að borða áður en ég færi í ræktina og fá þannig fullt hús stiga fyrir að hafa lokið öllu sem hugurinn girntist þann daginn.
En þar stoppaði fjörið. Eftir bíóferðina sló mér niður af veikindunum, svo heiftarlega að ég rétt náði heim áður en ég brast í grát beinverki og eymd. Þegar heim var komið drakk ég saltblandað gos og tuggði Risahraun af óvenju mikilli hörku, enda reiður yfir örlögum mínum.
Ef þið viljið grafísku útgáfuna af gærdeginum: Í gær var ég eins og belja sem er hleypt út að vori, ekki vitandi að hún er fótbrotin.
Í morgun vaknaði ég veikur klukkan níu, eftir sjö tíma svefn. Ég tilkynnti veikindi og ákvað að fá mér smá blund.
Sjö tímum síðar vaknaði ég aftur og fór á fætur enda dagur að kveldi kominn.
Kvöldið notaði ég í að horfa á Simpsons kvikmyndina, sem ég fór reyndar á í bíó á sínum tíma. Þau mistök gerði ég þó áður en ég fór í umrædda bíóferð, að taka inn svefntöflu í misgripum fyrir aðra töflu (löng saga sem ég fer ekki nánar út í núna), svo ég svaf myndina af mér, vini mínum til kátínu eða gremju (ég er ekki viss, ég var sofandi).
Allavega, ég sá myndina í kvöld, fimm árum síðar. Hún er ekkert sérstök. 2,5 stjörnur af fjórum. Það gerist eiginlega of mikið í henni.
Dagurinn í heild sinni fær eina stjörnu af fjórum. Gerðist alltof lítið í honum.
Hér er listi yfir topp þrjár verstu ræktarferðir mínar frá upphafi:
3. Allar ferðir í janúar, hvert ár
Í janúar ætla allir að gera skurk í sínum málum og mæta því saman í ræktina. Það endist þó aldrei lengur en nokkrar vikur eða þar til ég er við það að beita ofbeldi til að ná æfingahjóli.
2. Biluðu heyrnartólin
Fyrir næstum tveimur árum biluðu heyrnartólin mín í miðri rækt. Ég eyddi um 15 mínútum í að reyna að koma þeim í lag aftur, án árangurs. Það er fátt ömurlegra en að þurfa að hlusta á stunurnar í fólkinu í kringum sig. Næstum jafn ömurlegt og að hlusta á mínar eigin stunur.
1. Ferðin í kvöld
Ég lagði of seint af stað, rann næstum á hausinn í nýlagðri hálku, reyndi að skafa bílinn með ónýtri sköfu áður en ég sagði "fuck it (ísl.: mök)", drap á bílnum og fór aftur inn og undir teppi, þar sem ég fitnaði um 30 kg.
Í kvöld rakst ég á tilgangslausustu hugmynd allra tíma þegar mér fannst ryksugan mín vera óvenju máttlaus við ryksugun ársfjórðungsins vikunnar; þennan hnapp:
Hnappurinn í miðjunni stillir styrk ryksugunnar. Þeas af hversu mikilli áfergju hún sýgur upp í sig ryk.
Náunginn sem kom með þessa hugmynd hefur líklega spurt „Hvað ef ég vil ryksuga en samt ekki ryksuga, þarf ekki einhverja stillingu fyrir það?“ og til varð þessi hnappur, andskotinn hafi það.
Allavega, ég ryksugaði íbúðina mína tvisvar í kvöld, en samt bara einu sinni.
Aðeins einn maður kemst með hælana þar sem Dexter Morgan hefur tærnar, þegar kemur að aðdáun minni, og það er Derren Brown. Ekki aðeins er sá maður góður skemmtikraftur, fyndinn og kemur vel fyrir heldur er hann stórsnjall í þokkabót. Fyrir einhverja tilviljun gerir hann þætti sem krefjast alls þessa, þó aðallega stórsnillinnar.
Um helgina horfði ég á nýjustu afurð hans, fjögurra þátta seríu sem ber nafnið The Experiments (Ísl. Tilraunirnar) þar sem hann gerir tilraunir á fólki, þ.e. hvernig hægt er að hafa áhrif á fólk án þess að það átti sig á því.
Hér er kynningarbútur fyrir þættina:
Hér er mín gagnrýni á þættina:
Fyrsti þáttur: The Assassin (Ísl.: Aftökumaðurinn)
Athugað er hvort hægt sé að dáleiða mann til að fremja morð á frægum einstaklingi fyrir allra augum, án þess að viðkomandi viti af því, eins og haldið hefur verið fram að CIA hafi gert í nokkrum tilvikum.
Einhver ótrúlegasti þáttur sem ég hef séð.
Einn aðili er síaður úr hópi fólks til að gera nokkrar dáleiðslutrikk á. Hann veit það ekki en Derren Brown er að dáleiða hann til að myrða frægan einstakling. Mun það takast?
Tekið er fram að þetta sé gert til að sjá hvort eitthvað gæti verið til í þeim sögum að CIA hafi dáleitt fólk til að fremja morð á pólitíkusum í gegnum tíðina.
Einn magnaðasti þáttur sem ég hef séð. Fjórar stjörnur af fjórum.
Annar þáttur: Remote Control (Ísl.: Fjarstýring)
Þátturinn er settur upp sem skemmtiþáttur þar sem áhorfendur í sjónvarpssal kjósa örlög ungs manns sem er úti að skemmta sér með vinum sínum, óafvitandi að það eru myndavélar á honum.
Þátturinn sýnir hvernig fólk getur hagað sér undir nafnleynd.
Fínn þáttur. Þrjár stjörnur af fjórum.
Þriðji þáttur: The Guilt Trip" (Ísl.: Samviskubitið)
Einum hugljúfasta manni Bretlands er boðið á ráðstefnu upp í sveit yfir helgi. Hann veit ekki að Derren Brown hafði skipulagt allt sem fram fer í húsinu með það að markmikið að láta manninn játa á sig morð sem hann framdi ekki.
Þrjár og hálf stjarna af fjórum.
Fjórði þáttur: The Secret of Luck" (Ísl.: Leyndardómar heppninnar)
Derren Brown kemur af stað orðrómi í litlum bæ í Bretlandi að stytta af hundi valdi heppni hjá þeim sem snerta hana. Þremur mánuðum síðar mætir hann svo í þáttinn, útskýrir allt saman og heldur smá sýningu.
Þátturinn sýnir fram á að heppni er að mestu leyti, kjaftæði.
Þrjár stjörnur af fjórum.
Ég mæli með því að fólk kynni sér allt sem Derren Brown hefur gert. ALLT!
Þennan bol fékk ég nýlega frá erkivini mínum, Baldri Beck sem rekur eina skemmtilegustu síðu landsins, NBA Ísland.
Ekki nóg með að þeir séu smekklegir í útliti heldur er hönnun bolanna með þeim betri og sniðið eins og best verður á kosið. Smellið hér til að fá ykkur einn slíkan.
Með þessari viðbót í bolasafn mitt hafa meðalgæði bola minna aukist um 12%, fegurð um 13,4% og fjöldi um 0,0023%.
Er ég allt í einu ekki jafn þokkafullur og glæsilegur og Nadía? Mamma segir mig vera það, svo hér eru mín uppáhöld!
Tölva: PC.
Ég skil þessa spurningu reyndar ekki alveg. Ég á bara eina tölvu. Og hún er í uppáhaldi hjá mér.
Bifreið: Rauðir Peugeot 206.
Ég er haldinn kvalalosta.
Sími: Síminn minn?
Því einfaldari sem síminn er, því betra.
Bók: Pass.
Því einfaldari sem bókin er, því betra.
Bíómynd: Hangover.
Mínar uppáhaldsmyndir eru Seven og Memento. Nýleg mynd sem ég mæli með er Drive. Mögnuð mynd.
Hreyfing: Ræktin.
Verð pínu geðveikari við að komast ekki í ræktina amk annan hvern dag.
Fatamerki: Allt frá Dressman.
Því einfaldara sem sniðið er, því betra.
Veitingastaður: American Style.
Því einfaldari sem maturinn er, því betra. Svo er þægileg stemning og góð þjónusta á American Style.
Drykkur: Mjólk.
Er í mjólkurstuði þessa vikuna. Það gæti tengst því að ég er í skúffukökustuði þessa vikuna. Sem gæti tengst því að ég er feitur og ógeðslegur (ótengt).
Skemmtistaður: reddit.com.
Því þar kippir sér enginn upp við að ég mæti ber að ofan.
Ég vona að þetta sé síðasta viðtalið sem er ekki tekið við mig á netinu, svo ég geti farið að einbeita mér að öðru á þessari síðu.
Ég er ekki stoltur af mörgu sem ég hef gert í lífinu. Hér er listinn:
Pínulítið málverk sem ég gerði 2006.
Síðustu vikur hef ég verið að vinna í Excel skjali sem er orðið nógu gott til að ég þori að deila því með fólki. Það er kannski ekki mjög nytsamlegt eða skemmtilegt. Eða jafnvel áhugavert. En það tók mikinn tíma að plana, reikna, stilla og setja upp.
Skjalið tekur allar deildir enska boltans og simulate-ar þær, leik fyrir leik, svo úr koma nokkuð raunveruleg úrslit. Hægt er að stilla styrkleika hvers liðs í skjalinu og leika eins mörg tímabil og maður vill. Þegar tímabil er endurræst koma ný úrslit þegar umferðirnar eru leiknar. Núverandi stillingar liðanna í skjalinu eru reiknaðar út frá stöðu deildarinnar um síðustu helgi.
Þar með hefur listinn yfir hluti sem ég hef gert og er stoltur af lengst um 100%.
Það gefur mér afsökun til að lengja listann yfir hluti sem ég skammast mín fyrir um sama prósentustig. Vinsamlegast klæðið mig í föt ef þið sjáið mig afvelta einhversstaðar niðri í bæ næstu daga.
Í fylgiriti Fréttablaðsins í dag, Föstudagur, hjó ég eftir viðtali sem kallast "Yfirheyrslan". Ég hjó sérstaklega eftir viðmælandanum. Hann er ekki ég. Listinn yfir blöð og tímarit sem sniðganga mig í viðtölum lengist.
Ég held því áfram að svara spurningum þeirra sem sniðganga mig hér:
Ertu A eða B manneskja?
Ég er mögulega C manneskja, svo seint fer ég að sofa. Draumurinn er að verða D manneskja og ná þannig að snúa sólarhringnum við.
Hvaða bók ertu að lesa um þessar mundir?
Ég er með þrjár bækur sem ég hef ætlað að byrja á síðustu sex mánuði.
Ef ég byggi ekki í Kópavogi, byggi ég í:
Reykjavík líklega.
Hver eru nýjustu kaupin?
Ég keypti mér ís vorið 2006.
Þessi orð birtust óvænt á Facebook síðunni minni í gærkvöldi (smellið á mynd fyrir stærra eintak...núna):
Ég þekki þessa konu ekkert og hef aldrei séð hana áður. Ég er ennfremur hvorki þessi kona né nokkur önnur kona. Ég skrifaði þennan status ekki því ég spjallaði ekki við neitt kvenkyns í gær og það er alls ekki heimilislegt hjá mér. Mér datt reyndar í hug að gera kindabókhald en hætti við þar sem ég á engar kindur.
Svona getur lífið á internetinu verið uppfullt af óvæntum uppákomum. Þessi kona hvarf svo nokkrum mínútum síðar og hefur ekki komið aftur.