Hér er nákvæm tölfræði varðandi svefnvenjur mínar frá miðjum júlí, haldið saman af símanum mínum.
Hér má sjá vikulegt hreyft meðaltal yfir fjölda tíma sem ég sef á nóttunni, á daginn og samtals á sólarhring. Já, ég sef hátt í tvo tíma yfir daginn sumar vikurnar. Og hvað með það?
En í hvaða mánuði sef ég mest? Súlurit!
Þarna sést að ég svaf mest í júlí, sem gæti verið vegna þess að úrtakið í júlí innihélt þrjá sunnudaga en tvo af öðrum dögum. Annars er þetta býsna jafnt. Ég er að sofa um átta tíma á sólarhring, eins og eðlilegt fólk á að gera. Sem gerir þetta frekar einkennilegt.
Hvenær í vikunni sef ég mest? Ha?
Ég held að allir geti verið sammála um að þetta sé áhugaverðasta myndin. Hér sést að ég sef lang mest á sunnudögum eða um 9,7 tíma. Minnst sef ég á mánudögum eða um 6,6 tíma. Svefninn eykst svo jafnt og þétt út vikuna, þar til kemur að svefnsprengju helgarinnar.
Líkurnar á því að ég sé sofandi eftir vinnu á föstudegi eru yfirgnæfandi, þar sem ég legg mig að meðaltali í 1,4 tíma á föstudögum, eins og yfirmaður.
Ég veit ekki með ykkur en mér líður betur eftir þetta Excelgrafagreiningarklám.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.