fimmtudagur, 31. desember 2009

Í tilefni síðasta dags ársins fer ég yfir áramótaheiti ársins 2009:

1. Drekka meira áfengi.
Á árinu 2008 drakk ég áfengi tvisvar. 2009 drakk ég áfengi fimm sinnum. Tókst.

2. Fara á fleiri viðburði.
Ég fór aðallega í bíó, matarboð og á körfuboltaleiki. Fór ekki á neina tónleika né dansiböll. Lélegur árangur.

3. Þyngjast meira.
Náði 96 kílóum í maí sem er persónulegt met. Tókst.

4. Sofa meira.
Svaf um sex tíma að meðaltali á nóttu. Alls ekki nógu gott. Hræðilegur árangur.

5. Verða ákveðnari.
Ég held að ég hafi lítið breyst hvað ákveðni varðar. Áframhaldandi verkefni á árinu 2010. Lélegur árangur.

6. Verða óhjálpsamari.
Ég held ég hafi ekki verið svo hjálpsamur fyrir. Ógilt áramótaheiti.

7. Verða sjálfhverfari.
Ég held að það sé ekki hægt að verða mikið sjálfhverfari en að reka bloggsíðu um daglegt líf mitt. Góður árangur.

8. Verða almennt verri maður.
Ég held ég geti ekki orðið verri maður en ég var á árinu 2008. Hræðilegur árangur.

Áramótaheitin 2010, yfirlit ársins 2009 og myndayfirlit, svo eitthvað sé nefnt, kemur næstu daga.

Gleðilegt ár og takk fyrir lesturinn og samverustundirnar á árinu sem er að líða. Sjáumst á því nýja.

miðvikudagur, 30. desember 2009

Ef þú, lesandi góður, ert að koma inn á þessa síðu í fyrsta sinn í desember, örvæntu ekki. Þú þarft ekki að lesa allar færslurnar. Hér eru algengustu orðin sem skrifuð hafa verið:


Annað merkilegt hefur ekki gerst.

þriðjudagur, 29. desember 2009

Í gær fór ég nánast kviknakinn í sundlaug Egilsstaða í mínus 16 gráðu hita. Hárið á mér og annar handleggurinn náði að frjósa í gegn áður en ég komst í laugina.

Þetta hef ég gert daglega frá því ég kom hingað, ef undan eru taldir stærstu hátíðardagarnir en þá hef ég farið út að labba þar til ég finn ekki lengur fyrir andlitinu á mér.

Þegar ég leit svo í spegil í morgun brá mér í brún. Svo kulnaður er ég í andlitinu að ég gubbaði. Það er Kodak augnablik:


Annars hef ég skipt um athugasemdakerfi í fyrsta sinn frá upphafi síðunnar. Það byrjar eitthvað erfiðlega, en svo virðist sem það ljúgi til um fjölda athugasemda.

Ég laga það á næstu dögum og bæti fídusum við það. Tillögur eru vel þegnar. Í athugasemdakerfinu.

mánudagur, 28. desember 2009

Í kvöld ákvað ég að bregða undir mig betri fætinum og bjóða Helga bróður út að borða í tilefni afmælis hans. Fyrir valinu varð Söluskálinn á Egilsstöðum.

Ég á það til að stressast upp í afgreiðslum og taka frekar vondar ákvarðanir. Þessi afgreiðsla var engin undantekning því ég pantaði mér grísasamloku.

Ef einhver veit ekki hvað grísasamloka er þá má sjá hana hér að neðan:

Í samlokunni voru:
* Hálf harðnað hamborgarabrauð.
* Ca sentimetra lag af remúlaði.
* Einhver klessa sem var laus í sér, sennilega hálfdauður grís.
* Tvær tómatsneiðar.
* Dass af káli.
* Meira remúlaði.

Þetta er án efa versta afsökun fyrir máltíð sem ég hef látið inn fyrir mínar varir (that's what she said), enda lét ég staðar numið eftir tvo bita, annar hverra var bara hvítt hamborgarabrauð og remúlaði.

Betra er að taka fram að ég snæði oft í Söluskálanum og hef alltaf fengið góða máltíð og þjónustu. Þetta var því sennilega skyndiákvörðuninni hjá mér að kenna. Aldrei aftur mun ég velja grísasamloku.

Ég ákvað því að kvarta ekki. Aðallega þó vegna þess að ég hafði svo gaman af þessari styttu sem horfði á mig reyna að borða:

Stærsta gyllinæð sem ég hef séð á styttu.

sunnudagur, 27. desember 2009

Það sem af er jólafríi á Egilsstöðum (fjórum dögum lokið) hafa keppnir farið svona:

Ég hef...
...unnið spilið Heilaspuni tvisvar af sjö skiptum.
...4,5 vinninga úr 8 skákum.
...unnið Quality Street nammið 73-0.
...tapað sundkeppnum í sundlaug Egilsstaða 5-0.

Á morgun stefni ég á ræktarkeppni og uppkastkeppni við hvern sem þorir.

föstudagur, 25. desember 2009

Á Egilsstöðum (og Fellabæ) hefur snjóað látlaust frá því ég man eftir mér, eða í amk þrjá daga. Í fannfergi er gott að fara í göngutúra um bæinn og taka myndir.

Myndin hér að ofan var tekin í dag í Fellabæ, þegar ég var nývaknaður um klukkan 17:00. Á henni hefur bróðir minn Helgi tekið stefnuna á skíðabrekku Fellbæinga.

fimmtudagur, 24. desember 2009


Ég óska öllum fyrrverandi, núverandi og framtíðarlesendum síðunnar gleðilegra jóla. Jólagjöfin mín til ykkar er þessi mynd hér að ofan sem ég teiknaði nýlega. Ég gleymdi reyndar að skreyta tréið. Þið getið kannski gert það á meðan ég pakka inn gjöfum? Takk.

Hér er svo stórkostlega niðurdrepandi lag sem ber nafnið Ef nú væru jól og er með hljómsveitinni Teinar. Það er ekki annað hægt en að elska það.

Lagið er af disknum Svarthvít Jól sem hægt er að niðurhala hér.

Allavega, hafið það gott um jólin.

mánudagur, 21. desember 2009

Það tók fjórar tilraunir að komast austur þessi jólin:

4. tilraun: Ég lenti á Egilsstöðum í dag klukkan 14:00 fyrir tilstilli Flugfélags Íslands. Hér mun ég eyða jólum og áramótum. Sný aftur til Reykjavíkur 3. janúar næstkomandi.

3. tilraun: Ég flaug 75% af leiðinni til Egilsstaða í morgun. Flugvélin þurfti að snúa við vegna bilunnar þegar ég var rétt að byrja að verða flugveikur. Sennilega illa lokað húdd á flugvélinni. 90 mínútna flug til einskis.

2. tilraun: Ég reyndi að keyra bíl pabba vinar míns austur í gær. Á Hellisheiðinni opnaðist húddið* þegar ég var á 120 km hraða og lenti á framrúðunni sem brotnaði í tætlur (sennilega vegna öskra minna). Ég þurfti frá að hverfa og fór á körfuboltaæfingu og bíó í staðinn.

1. tilraun: Ég ætlaði að keyra bíl pabba vinar míns austur í fyrradag. En ég vaknaði mun verri af baktognun en ég var haldinn daginn áður, svo ég ákvað að fresta för þar til ég væri orðinn skárri.

Ég hlakka til að sjá hvernig ferðin til baka endar.

* Mögulega sök bensíntitts sem skipti tékkaði á olíunni fyrir för. Mögulega hönnunargalli. Mögulega Al-Qaeda.
Ég hef reynt að komast í bíó síðan á föstudaginn á myndina Avatar, án árangurs. Ég viðurkenni reyndar að ég hef ekki lagt mig mjög fram við miðakaupin, þar sem ég hata mannmergð meira en syndina.

Allavega, myndin er sýnd í þrívídd. Til að sjá þessa umræddu þrívídd þarf þrívíddargleraugu. Við það vakna tvær spurningar:

1. Af hverju eru ekki til þrívíddarlinsur? Gleraugun eru svo stór og þung að mig verkjar í andlitið við að þurfa að hlunkast um með þau.

2. Af hverju eru ekki til tvívíddargleraugu/linsur fyrir allt sem gerist utan bíóhúsanna? Ég væri til í að einfalda líf mitt um þriðjung með því að fækka víddum um eina.

föstudagur, 18. desember 2009

Nokkur örblogg í Facebookstatusastíl:

* Er kominn í jólafrí til 4. janúar á næsta ári. Ég kann ekki að vera í fríi, svo ef þið sjáið mig ráfa fáklæddur um höfnina í Reykjavík, leitandi að Excel, vísið mér í rétta átt.

* Fór í ræktina í kvöld. Sá skó fyrir neðan skápinn minn sem mér fannst ógeðslegir. Fattaði skömmu síðar að þetta voru mínir skór.

* Átti stórkostlega innkomu í ræktina. Lagðist í bekkpressuna og lyfti stönginni, með einhverjum lóðum á. Þá brakaði í öllu bakinu og hálsrígurinn, sem ég fékk fyrir tveimur dögum, kom aftur margfaldur. Ég var tvær mínútur að setjast upp og hjólaði svo í hálftíma til að bjarga andlitinu.

* Komst að því nýlega að í tveimur tonnum af poppi eru 11 milljónir af kalóríum. Held ég forðist það hér eftir.

* Ég virðist hafa fengið jólakort í ár. Eitthvað vanhugsað hjá þeim sem sendu kortin, þar sem nú þurfa þau að fá kort frá mér. Þau læra kannski af reynslunni.

fimmtudagur, 17. desember 2009

Húsvörður vinnustaðar míns kom á næsta borð með hillusamsetningu einhverskonar í morgun. Þar sem það vantar eitt hjólið undir skúffueininguna mína fannst mér tilvalið að ræða við hann um það og mögulega sannfæra hann um ágæti þess að láta mig fá aukahjól. Samtalið hófst þegar hann var í ca 2ja metra fjarlægð:

Ég: "Heyrðu, hefurðu tíma til að kíkja hingað örstutt?"
*Húsvörðurinn snýr sér við*
Ég: "Hey, ekki áttu aukahjól undir..."
*Húsvörðurinn gerir sig tilbúinn að fara*
Ég: "Hey! Áttu auka..."
*Húsvörðurinn byrjar að ganga í burtu*
Ég: "HEY! Halló! HALLÓ!"
*Húsvörðurinn er kominn talsvert langt í burtu*
Ég: "HEY! ÁTTU....hjól....undir... fuck"
Næsta borð: "Af hverju segirðu ekki bara nafnið hans?"
Ég: "Ég man ekki hvað hann heitir"

Lærdómurinn sem draga má af þessu er tvennskonar:

1. Það getur borgað sig að læra nöfn samstarfsfólksins.
2. Að vera með þrjú hjól undir skúffueiningu er líklega upphaf að einhverju vandræðalegu.

miðvikudagur, 16. desember 2009

Ég hlakka til þegar Excel 2010 kemur til landsins. Ég vona að fyrstu eintökin verði flogin til landsins, frekar en send rafrænt eða með skipi. Þegar það gerist, kíkið aftur hingað.

Þá mun bíða ykkar glóðvolg bloggfærsla sem hljómar svona: "Excel lent! Excellent!". Það verður biðarinnar virði.

Ég rétt missti af því að fremja þessa bloggfærslu þegar Excel 2007 lenti á sínum tíma og brenn enn daglega innra með mér af skömm og fortíðarþrá.