laugardagur, 1. ágúst 2009

Nákvæmlega þetta upplifði ég í dag:


Nema í Reykjavík eru engin börn, sem betur fer. Þeirra í stað eru túristar.

Mér fannst sérstaklega gaman að liggja í heita pottinum í kvöld umkringdur bandarískum túristum af því mér líður eins og ég sé staddur í Hollywoodmynd. Sérstaklega þegar ein konan velti því fyrir sér af mikilli alvöru hvort potturinn væri við suðumark.

Ekki slæmt að vera hluti af klipptum senum úr Dumb and Dumber.

föstudagur, 31. júlí 2009

Ég hef lokið flutningum að mestu frá Hafnarfirði yfir í Skipholtið. Lífið í nýju íbúðinni byrjar ekki vel.

Um klukkan 23:30 var ég loksins búinn að flytja allt dótið í nýju íbúðina. Þá tók eftirfarandi atburðarás við:

1. Ég ætlaði að setja upp sjónvarpið og liggja yfir einhverju afslappandi, þar sem ég fann ekki fyrir fótunum á mér vegna þreytu.
- Samverkamaður í flutningum hafði tekið myndlykilinn og DVD spilarann ásamt öllum fjarstýringum í misgripum. Ég gat því bara horft á snjókomu.

2. Ætlaði að lesa bók í rúminu mínu inni í herbergi.
- Þar vantaði peru.

3. Ætlaði að skipta um peru inni í herbergi.
- Ljósakrónan brotnaði ofan á rúmið. Hún var úr gleri. Ryksugan fjarverandi.

4. Ætlaði leggjast í sófann í stofunni og lesa.
- Þá fór rafmagnið af allri blokkinni.

5. Ætlaði að fara að sofa í sófanum í stofunni.
- Þá byrjaði partí í blokkinni.

6. Þá ætlaði ég að liggja og stara upp í loftið í myrkrinu.
- Það tókst!

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Hér er plan dagsins og næstu daga:

29.07.09: Vinna fullan vinnudag. Pakka öllu mínu dóti.
30.07.09: Vinna hálfan vinnudag. Flytja allt draslið yfir í nýja íbúð.
31.07.09: Þrífa íbúð sem ég er að flytja úr.
01.08.09: Gubba úr spennufalli. Hætta að skjálfa úr stressi. Borða.

þriðjudagur, 28. júlí 2009

Í dag fagna ég því að jörðin hefur snúist 11.323 sinnum og ferðast um 29.136.570.445 kílómetra síðan ég fæddist.

Sumir myndu segja mig gamlan og einkennilegan. Ég myndi segja mig víðförulan.

mánudagur, 27. júlí 2009

Nýlega kláraði ég bæði bók og geisladisk samtímis. Bókin var The Da Vinci Code og diskurinn La Roux með La Roux. Hér kemur gagnrýni:

1. La Roux - La Roux

Fyrsti diskur þessa dúós frá Bretlandi sem sérhæfir sig í technopoppi ættað frá 1985 og stórkostlegum hárgreiðslum.



In for the kill 3/4
Tigerlily 2/4
Quicksand 4/4
Bulletproof 4/4
Colourless colour 1,5/4
I'm not your toy 4/4
Cover my eyes 4/4
As if by magic 2,5/4
Fascination 2,5/4
Reflections are protections 2,5/4
Armour love 2,5/4
Growing pains 1,5/4
____________________
Alls: 34/48
= 71/100 = 71%

Mjög fínn diskur. Mæli með honum.

2. The Da Vinci Code
Skemmtileg bók. 90%.

sunnudagur, 26. júlí 2009

Þetta er að frétta:

Nýr nágranni
Í gærnótt ætlaði ég að skjótast úr húsi til að versla mér heróín (eða nammi) í Hagkaup. Þegar ég opnaði útidyrahurðina var kónguló búin að smíða stærðarinnar vef í dyragættinni. Þetta samtal átti sér þá stað:

Kónguló: "Góða kvöl...."
*Ég sló hana í andlitið með hnefanum svo hún flaug fram af 2. hæð*
Ég: "GÓÐA KVÖLDIÐ!"
*Munnvatn frussast í allar áttir, slík var bræðin*

Bíóferð
Í kvöld fór ég í bíó á sænsku myndina Män som hatar kvinnor (Ísl.: "Karlmenni sem hata kellingatussur") í lúxussal, hvorki meira né minna. Löng saga stutt: Góð mynd!

Lengi útgáfan: Með betri myndum sem ég hef séð á árinu (af ca 100 myndum). 3,85 stjörnur af 4.

Klækir
Með hjálp klækja og einbeittum brotavilja komst ég yfir nokkur lög með hinum stórkostlega tónlistarmanni Siriusmo, sem er ungur piltur frá Þýskalandi. Hér eru tvö lög sem ég get ekki hætt að hlusta á:

Uppáhaldslagið mitt í dag; Nights/Nights off.



Lizi.

föstudagur, 24. júlí 2009

Ég hef komið með helst til of margar alhæfingar um muninn á kynjunum sem ég hef svo brennt mig illa á stuttu síðar. Síðast talaði ég um að allar konur pissuðu í kopp á meðan allir karla borðuðu popp.

Sú kenning var fljótlega afsönnuð af Sænsku vísindaakademíunni með rannsókn sem spannaði 6 ár af þrotlausum prófunum.

Í dag uppgötvaði ég þó það eina sem aðgreinir kynin. Munurinn á kynjunum er í hnotskurn:

Allir karlmenn elska yfirvaraskegg.
Allar konur hata yfirvaraskegg.


Allt annað er nákvæmlega eins. Rannsóknin er byggð á athugasemdum kynjanna við öllu yfirvaraskeggtengdu á Facebook.

fimmtudagur, 23. júlí 2009

Ég upplifði kvikmyndasenu úr mjög ódýrri gamanmynd í morgun þegar ég vaknaði. Svona var handritið ca:

ÖNNUR HÆÐ Í LAUFVANGI 1. 85 FM ÍBÚÐ.

Finnur gengur fram úr herberginu sínu á nærbuxum einum fata klukkan 8:30 eftir að hafa verið vakinn af hávaðasömum verktökum sem hafa verið að ditta að húsinu síðustu daga. Hann fer í eldhúsið og opnar ísskápinn. Í eldhúsinu er verktaki, búinn að fjarlægja stærðarinnar rúðu úr eina glugga eldhússins.

Finnur lítur á verktakann og aftur í ískápinn.

Finnur (syfjaður)
Góðan dag

Verktaki (undrandi)
Góðan daginn

Finnur lítur mjög snökkt aftur á verktakann, glaðvaknaður.

Finnur (glaðvakandi)
HUH!

Verktaki blikkar skælbrosandi. Finnur yppir öxlum og linsan verður að hring í kringum andlitið á honum. Finnur blikkar. Hringurinn lokast. Klúðurslegur trompet hljómar.

SENA

Standandi lófatak.

Spoiler alert: Verktakinn var með lykla að íbúðinni og datt ekki í hug að fólk væri sofandi út til kl 8 að morgni.

þriðjudagur, 21. júlí 2009

Ég hef orðið var við aukna tilætlunarsemi í minn garð. Tvö símtöl í gær lýsa þessu best. Ath. nöfnum hefur verið breytt.

Fyrra símtalið:
*Síminn minn hringir í smá stund áður en ég næ að svara*
Ég: Sæll
Engilbert: Þrjár hringingar? Heldurðu að ég hafi allan daginn?
Ég: Það var maður að tala við mig í vinnunni.
Engilbert: Mér er sama. Nennirðu að hringja í mig?
Ég: ok.
*Hringi til baka. Ekkert svar*

Seinna símtalið:
Ég: Sæll
Ástþór: Áttu sexkantasett?
Ég: Nei.
Ástþór: Helvítis fífl.
*Símtal fjarar út*

Betra að taka fram að þessi símtöl áttu sér stað en voru sögð í gríni, vonandi.

mánudagur, 20. júlí 2009

Fyrir stuttu síðan missti ég þvag af hrifningu á Vodafone auglýsingunni fyrir Risafrelsi. Blandan af tæknibrellum, gríðarfögrum dömum og stórkostlegu lagi, sem gert var af Don Pedro, fangaði skilningarvit mín.

Don Pedro hafði bara snarað fram þessum 50 sekúndna tónbút eins og ekkert væri. Hér er auglýsingin:



Vegna áskoranna frá áhorfendum ákvað Don Pedro að lengja lagið og nú er það tilbúið; lagið Big með Suzy Thunder:


Hvers vegna Don Pedro ákvað að gera frekar slappt hommapopp úr þessu góða techno lagi mun ég aldrei skilja.

[Hér er hægt að niðurhala laginu í góðum gæðum]
[Hér er textinn. Hann er eftir Halldór Laxness]

Viðbót:
Hér er Louis CK að tala um bloggfærslu mína að ofan. Allt er stórkostlegt og enginn er hamingjusamur.


Mér þykir leitt að vera hluti af þessari vanþakklátu kynslóð. Ég þakka hérmeð fyrir lagið, sem er fríkeypis og ég get ekki hætt að hlusta á.

föstudagur, 17. júlí 2009

Í ágúst 1985, þegar Michael Jackson var upp á sitt besta, var þetta ritað í tímarit:

Michael Jackson: At 40, he will have aged gracefully and will have a handsome, more mature look. In number, his fans will have grown tenfold by the year 2000.

[Lausleg íslensk þýðing: Baldni Folinn Michael Jackson mun hafa elst vel um fertugt og mun hafa huggulegt, þroskaðra útlit. Í tölum mun aðdáendum hans hafa fjölgað tífalt árið 2000.]

Þar að auki var þessi spá um útlit Michael Jackson birt:

Nokkuð góð spá. Sami augnlitur.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Í dag drakk ég einn vítamínríkasta orkudrykk sem ég hef séð. Hann innihélt m.a.:

B12 vítamín: 7567% af ráðlögðum dagskammti.
B6 vítamín: 2200% af ráðlögðum dagskammti.
Niacin sýra: 190% af ráðlögðum dagskammti.

Ég þarf semsagt ekki að neyða ofan í mig B12 vítamín aftur fyrr en í lok september. Ljúft!

Það er ekki það merkilegasta við þennan drykk heldur nafnið á honum. Hann ber það virðulega nafn Extreme energy 6-hour shot, með sloganið "World's most extreme energy shot". TO THE MAX!

Þessi færsla var barin inn með hnefahöggum og lesin upp öskrandi til að tékka innsláttarvillur, skömmu eftir að drykkurinn var drukkinn. Radical orka!