miðvikudagur, 27. september 2006

Hvað myndi ykkur finnast um að hver og einn væri skráður í ráðandi stjórnmálaflokk hvers tíma þegar hann fæddist? Eða í aðdáendaklúbb vinsælasta poppstyrnis hvers tíma (það væri þá Magni fyrir börn sem fæðast þessa dagana)? Eða jafnvel bara í skákklúbb íslands?

Hvað ef þessi klúbbur myndi fá umtalsvert fé frá ríkinu? Peninga sem þú værir búinn að vinna fyrir ríkið og greiða í skatta.

Segjum svo að þessi umræddi klúbbur eða stjórnmálaflokkur snérist ekki um neitt nema heilaþvott á ungbarnaárunum? Að hann snérist um að halda einhverju fram sem er rangt? Að heilaþvotturinn væri svo rosalegur að jafnvel á fullorðinsárum trúir fólk þessu ennþá og viðheldur þessu fyrirkomulagi?

Ég væri allavega ósáttur.

Sem betur fer er ég löngu búinn að skrá mig úr þjóðkirkjuruglinu. Þið getið það líka. Hér fyrir eldri en 16 ára. Hér fyrir yngri en 16 ára.

þriðjudagur, 26. september 2006

Af ótta við að hræða fólk frá því að lesa þessa færslu þá ætla ég ekki að taka fram að í henni felist tölfræði.

Fyrstu 27 ár ævi minnar fór ég í 4 matarboð. Það var aldrei auðvelt fyrir fólk að bjóða mömmu og pabba í matarboð með 5 krakka með sér. Því fór sem fór; 4 matarboð. Mér finnst það nokkuð góður árangur.

Síðan ég byrjaði með Soffíu fyrir 14 mánuðum síðan hefur mér verið boðið í 12 matarboð.

Fyrir tíð Soffíu fór ég í 4 matarboð á 27 árum sem gera tæplega 0,15 matarboð á ári.
Eftir að ég byrjaði með Soffíu hef ég farið í 12 matarboð á 14 mánuðum sem gera ca 10,29 matarboð á ári.

Þetta gerir aukningu á matarboðum um hvorki meira né minna en 6843% síðan ég byrjaði með Soffíu.

Þetta eitt og sér er stórmerkilegt. Það sem mér finnst hinsvegar merkilegra er að ef ég hefði farið í 10 matarboð á ári fyrir tíð Soffíu hefði mér, með þessari prósentuaukningu, verið boðið í 694 matarboð á ári eftir að hafa hafið samband með henni. Það gera 1,9 matarboð á dag.
Þessi nýji vinnustaður er skemmtilegur. Hér er fullt af fólki sem er alltaf hlæjandi. Og bendandi á mig.

mánudagur, 25. september 2006

Ég hef hafið nýtt heilsuátak. Mér er það algjörlega ómögulegt að heilsa fólki á morgnanna og ætla ég að breyta því. Vonir eru bundnar við að ég nái að bæta á mig 10 kg með þessu átaki þar sem ég hætti vonandi að svitna við tilhugsunina um að heilsa ókunnugu fólki.

laugardagur, 23. september 2006

Mér finnst rétt að benda á að þessi frétt kemur því ekkert við að ég hóf störf hjá 365 sama dag og krafðist launa 20 meðalstarfsmanna. Ég hef orðið fyrir talsverðu aðkasti vegna þessarar fréttar.

föstudagur, 22. september 2006

Ég er svo þreyttur að ég veit ekkert hvað ég er að gera lengur. Einnig slefa ég úr þreytu. "Af hverju ertu þá að blogga?" kunnið þið að spyrja. Ástæðan er hér að ofan, ég veit ekkert hvað ég er að gera lengur.

Fyrsti vinnudagurinn hjá 365 á morgun og ég á eftir að raka mig. Það má búast við því að ég verði alblóðugur í vinnunni á morgun. Flott fyrstu áhrif það.

fimmtudagur, 21. september 2006

Í gærkvöldi spilaði ég póker í annað sinn á einni viku. Í gærkvöldi vann ég póker í annað sinn á einni viku.

Þá hef ég grætt kr. 8.000 á einni viku. Einnig hef ég grætt 6 karlmenn.

Ég vildi nú samt að ég hefði tapað í bæði skiptin þar sem þessi bloggfærsla er býsna óáhugaverð svona.

miðvikudagur, 20. september 2006

Í nótt sagði Helgi bróðir mér svo góðan brandara í einum af ca 25.000 draumum mínum að ég hló upphátt. Svo hátt að Soffía vakti mig, haldandi að ég væri grátandi.

Takk Helgi fyrir að valda því að við Soffía vöknuðum bæði. Takk kærlega!

þriðjudagur, 19. september 2006

Í fréttum er þetta helst:

* Ég er kominn með vinnu hjá 365 við tölfræðilega úrvinnslu á gögnum. Starfið smellpassar svo við áhugasvið mitt að ég er á mörkum þess að fá heilablóðfall af spennu í hvert skipti sem ég man að ég er kominn með vinnu. Ég byrja á föstudaginn.

* Ég fór út á lífið í fyrsta sinn í amk 13 mánuði á föstudaginn þegar ég mætti á skemmtistaðinn Sportkaffi, nágranna mínum. Þar var stórskemmtileg hljómsveit að spila og ömurlega fínt fólk að hlusta. Ég spilaði pool við Kristján Orra og sigraði mjög óöruggt.

* Ég mætti í partí á laugardagskvöldið til Gylfa, stórkunningja, þar sem samankomnir voru fullt af Fellbæskum strákum að kveðja Garðar Eyjólfs sem fór utan daginn eftir. Allavega, við enduðum á því að spila póker upp á peninga og ég stóð uppi sem sigurvegari. Ef lögreglan les þetta; peningar = epli.

* Ég spilaði veggtennis tvisvar um helgina. Í fyrra skiptið við Björgvin bróðir. Ég sigraði. Í seinna skiptið við Daníel fyrrum skólafélaga. Ég sigraði þar líka.

Ástæðan fyrir þessum sigursögum er einföld. Ég hef tapað nógu oft í einhverju sem skiptir máli. Löngu kominn tími á sigursögur.

mánudagur, 18. september 2006

Þessi færsla er bara fyrir kjötæturnar þarna úti. Segið svo að ég geri aldrei neitt fyrir ykkur.

Gjörið svo vel.

sunnudagur, 17. september 2006

Ég fór í bíó um daginn á Clerks II. Ég nenni ekki að skrifa meira um það núna.

Ég hef verið að spila veggtennis af grunsamlega sjúkum áhuga. Ég nenni ekki heldur að skrifa um það.

Ég er kominn með atvinnutilboð hérna, loksins og sennilega tvö. Ég nenni ekki ræða það nánar.

Ég er orðinn mjög þreyttur og þarf að fara að sofa. Ég er á mörkum þess að nenna því en ég læt mig hafa það í þetta sinn.

föstudagur, 15. september 2006

Þá ætla ég að bregða á það ráð að herma eftir NFS og fletta í gegnum fréttirnar hérna:

* Ef einhverntíman er ástæða til að míga yfir símaskránna og hætta að stunda viðskipti við þetta mjög illa nefnda fyrirtæki (já.is), þá er það núna. Þvílík siðspilling. Þvílík peningagræðgi. Þvílíkir hálfvitar.

* Ég get ekki lesið þessa frétt. Ég las fyrsti tvö orðin og gafst upp. Gangi ykkur vel. Ég held að öllum sé nákvæmlega sama um þetta.

* Í heimi þar sem allt er að fara til helvítis er gott að lesa góðar fréttir annað slagið. Hér er ein slík.

Ég nenni þessu ekki. Fréttir sökks.