fimmtudagur, 14. september 2006

Ég geri ekki svona venjulega en nýlega heyrði ég lag sem hefur fullkomlega náð að festa sig í hausnum á mér. Svo sá ég myndbandið og mér fannst ég verða að deila því með einhverjum. Þetta er lagið The one með íslensku sveitinni Trabant, með Rassa Prump fremstan í flokki. Gjörið svo vel:

miðvikudagur, 13. september 2006

Ég var að taka eftir því að ég borða ekki Intake Gain frá Sylvester Stallone. Ég er að borða Intake GAIN! með upphrópunarmerki og í hástöfum. Ég gerði mér vonir um að þykjast þyngjast áður en ég vissi þetta en núna hækka kröfurnar til próteinsins margfalt! Rétt eins og ykkar krafa til síðustu setningar hækkar við upphrópunarmerkið í endann.

þriðjudagur, 12. september 2006

Í gær uppgötvaði ég nýjan mat; sojakjöt. Um daginn eldaði ég sojahamborgara og í gær prófaði ég sojapylsur. Báðir réttir bragðast fáránlega vel án fitunnar og holdsins sem fylgir venjulegu borgurunum og pylsunum.

Það er aðeins eitt slæmt við þetta, ég hef heyrt að í sojapyslunum sé aðeins notað afgangsafurðir; nef, eyru og rassgöt af sojabaunum.

mánudagur, 11. september 2006

Gaman að segja frá því að ég er í jakkafötum þegar þetta er ritað.

Þess vegna skrifa ég sem minnst af orðum sem hafa stafinn ö í sér, það er svo erfitt að teygja sig í hann í þessum helvítis jakka.

sunnudagur, 10. september 2006

Æ já. Ég er með blogg.

Allavega, ég fór í mitt fyrsta partí í yfir ár í gær. Það var haldið heima hjá Björgvini og spúsu hans, Svetlönu og var að því tilefni að þau eru byrjuð að leigja saman. Teitið varð merkilegt fyrir þær sakir að í því voru grænmetisætur í meirihluta eða um 70%.

Partíið var mjög skemmtilegt og fær það 10 í einkunn af 10 mögulegum.

Það gera 0,04 í einkunn fyrir hvert kíló af osti sem ég borðaði í teitinu.

fimmtudagur, 7. september 2006

Ég steingleymdi að segja frá því hér að um daginn, þegar ég ætlaði að fara yfir uppáhalds hossuna mína á Bjarna Fel (Peugeot bifreið mín), að útsendari mömmu.is svínaði fyrir mig svo ég snarhemlaði og flaug tugi metra.

Allavega, mamma.is svínaði á mig.

Þegar ca 50 cm voru í að ég klessti á mömmu.is hugsaði ég á nýjum hraða. Ég náði að hugsa um að hringja á lögregluna, skýrslutökuna, kostnað við viðgerð á Bjarna Fel, að tala við mömmu.is og vera fúll og að síðustu hvernig leigubíl ég ætti að fá mér á þessari einu sekúndu sem leið þangað til það kom í ljós að ég var kominn úr hættu.

Mér reiknast að það sé um 263 km hugsanahraði á klukkustund.

miðvikudagur, 6. september 2006

Í Melrose Place í vikunni réðist nýjasti karakterinn, Rikki (sem er kvenmaður) á bar Jakes, sem heitir Shooters og rústaði honum í skjóli nætur. Sydney, vinkona hennar, var ásökuð um að hafa gert þetta.

Mér leikur forvitni á að vita eitt; hvernig stendur á því að svona klikkaður einstaklingur er ráðinn í þennan þátt? Er bakgrunnur hvers og eins ekki athugaður áður en viðkomandi leikari er ráðinn?

Og síðast en ekki síst; af hverju í ósköpunum er Sydney ásökuð um þennan glæp þegar myndatökumennirnir geta vitnað um að þetta var Rikki!

Þessir þættir gera mig svo reiðan!!

þriðjudagur, 5. september 2006

Mér finnst alltaf svo...

...jæja ég má ekki vera að þessu. Verð að skreppa í sturtu og raka mig. Ég er nefnilega að fara í mikilvægt starfsviðtal á morgun.

Þessi setning felur næstum þá staðreynd að ég er atvinnulaus aumingi og dragbítur samfélagsins þessa dagana.

Næstum.

mánudagur, 4. september 2006

Ég var að koma úr starfsviðtali þar sem ég byrjaði sallarólegur og afslappaður. Þegar leið á viðtalið varð ég alltaf meira og meira taugaspenntur þar til undir lokin að ég var orðinn löðrandi sveittur og stamandi.

Ástæðan var sú að á bakvið manninn sem tók viðtalið við mig var stærðarinnar geitungur að sveima um. Ég hata geitunga!

Ég fæ annars sennilega starfið.

p.s. útlitið á síðunni er eitthvað brenglað. Ástæðan er upprið hjá brinkster.com sem hýsir flest á síðunni. Þetta lagast innan tveggja daga. Góð þjónusta.
Í dag fór ég í sjoppu, spurði hvort sunnudagsmogginn væri enn til og þegar hann var ekki til þakkaði ég fyrir mig og fór út.

Þetta er sennilega eitt stærsta skref sem ég hef tekið í átt að heilsusamlegu líferni. Ég fór í sjoppu og keypti mér ekkert nammi!

Að hugsa með sér. Fyrir mánuði síðan hefði ég aðeins getað látið mig dreyma um svona sjoppuferð.

laugardagur, 2. september 2006

Ég skrapp örstutt í kringluna í dag. Í fyrsta sinn tók ég eftir því að hver einasta kvenkyns manneskja þar var elgmáluð frá toppi til táar, fyrir utan Soffíu mína og systir hennar.

Hvenær varð sjálfstraust kvenna svona lítið?

Ef sjálfstraust kvenna mælist á bilinu 0-10; málningarlaus kona mælist í 10 og hvert kg af farða framan í þeim lækkar sjálfstraustið um 1 stig þá mælist meðal sjálfstraust kvenna sem hanga í kringlunni í 1,2 stigum.

Kvenfólk utan kringlunnar mælist í 9,97, samkvæmt nýlegum mælingum sænskra vísindamanna.

föstudagur, 1. september 2006

Æ já. Ég er kominn með netið og er staddur í Reykjavík, úti í rassgati nánar tiltekið.

Ég blogga fljótlega eitthvað stórsnjallt og risafyndið (mínus "stór" og "risa".

Og "fyndið".

Og "snjallt".