sunnudagur, 6. mars 2005

Af hverju er skammstöfunin fyrr 'Og svo framvegis' skrifuð 'o.s.frv.' þegar 'o.s.f.' er allt sem þarf?

Mér reiknast það til að ef við breytum þessu, þ.e.a.s. styttum um tvo stafi náist samtals árlegur sparnaður upp á 250 milljónir króna sem annars færu í að greiða (yfirvinnu)laun ritara og annarra ritandi starfsmanna. Ég myndi glaður aðeins taka 10% af þeirri upphæð fyrir að hafa fengið þessa snilldarsparnaðarhugmynd.

laugardagur, 5. mars 2005

Ég nenni ekki að skrifa neitt í dag, frekar en síðustu daga. Þess í stað, lesið versta dægurlagatexta allra tíma hérna, á heimasíðu Óla eða hér.
Ég fékk mér að drekka í gær eins og sjá má hér.

Ekkert sérstakt djamm eins og öll djömm í Reykjavík. Rakst þó á athyglisverða karaktera.

föstudagur, 4. mars 2005

Ég og Óli Rúnar áttum eitt skrautlegasta samtal sem ég man eftir í morgun þegar lag með Stone Temple Pilot hljómaði í útvarpinu. Samtalið var einhvernveginn svona:

Finnur.tk: Bíddu, er hljómsveitin í stone temple pilots ekki í velvet revolver?
Óli Rúnar: Þú meinar er söngvarinn.
Finnur.tk: Ha?
Óli Rúnar: Þú meinar 'var söngvarinn í stone temple pilots ekki í velvet revolver?'
Finnur.tk: Hvað sagði ég?
Óli Rúnar: Þú spurðir hvort hljómsveitin velvet revolver hafi verið í stone temple pilots.
Finnur.tk: Já, auðvitað. Var semsagt söngvarinn í stone temple pilots ekki í velvet revolver?
Óli Rúnar: Þú meinar hljómsveitin í stone temple pilots ekki í velvet revolver!
Finnur.tk: Já, einmitt. Er þetta semsagt hann?
Óli Rúnar: Já.
Finnur.tk: Hljómar ekki eins og hann.

Hið rétta er að söngvarinn í velvet revolver söng áður fyrir stone temple pilots.
Íslendingar eru lokuðustu einstaklingar í heimi. Það þarf ekki nema eitt dæmi til að sanna það fullkomlega:

Í strætó stendur fólk frekar en að setjast við hliðina á einhverjum sem það þekkir ekki og þeir sem setjast við hliðina á ókunnugum eru ýmist álitnir fullir, skrítnir í hausnum, ribbaldar eða allt af þessu.

Ég prófaði í dag að setjast á milli fólks á biðstofu banka og að sjálfsögðu varð fólkið hvumsa. Ég stóð því upp mjög stuttu síðar og þóttist fara að pissa, þegar ég í raun grét á salerninu.

fimmtudagur, 3. mars 2005

Þá hef ég samið pistil fyrir næsta Austurglugga. Mæli með því að þið kaupið hann eftir nákvæmlega viku og jafnvel lesið.

Annars biðst ég velvirðingar á því hvað ég er stuttorður þessa dagana. Ég kippi því í liðinn á næstunni.


Eða hér. Takk, ef myndin hleðst ekki.
Vangaveltur dagsins eru tvær og einfaldar eins og vel flest sem ég læt út úr mér:

* Af hverju eru bílaleigubílar kallaðir bílaleigubílar? Af hverju ekki bara leigubílar? Ekki köllum við myndbandsspólu myndbandaleigumyndband eða hús sem við leigjum húsaleiguhús.

* Í frímínútum hérna í Háskóla Reykjavíkur tala kennararnir oft við nemendur á persónulegu nótunum. Ætli það sé tilviljun að í, gróft áætlað, 90% tilvika karlkynskennarar tali við kvenkynsnemendur og kvenkynskennarar tala ekki við neinn?

Ekki að þetta skipti neinu máli.

miðvikudagur, 2. mars 2005

Hérna er mjög góð grein um slæma stöðu NBA deildarinnar í dag. Mæli með því að þið lesið hvern staf, myndið ykkur skoðun og skráið hana niður fyrir neðan greinina. Höfundurinn er enginn annar en Baldur Beck, einn fyndnasti maður landsins og tvífari Steins Ármanns.

Þess ber að geta að þeir sem ekki hlýða munu brenna í helvíti um alla eilífð.

Ég minni fólk einnig á að taka könnunina. Endilega nennið því, ég mun nota niðurstöðurnar til að bæta þessa síðu.



Í gærkvöldi fór ég í keilu með Bergvini, Garðari, Ringu og Hirti. Fleiri myndir hér.

þriðjudagur, 1. mars 2005

Fyrir ca ári henti ég af stað lesendakönnun þar sem einhver slatti af fólki tók þátt (niðurstöðurnar). Nú er svo komið að ég er orðinn forvitinn aftur og bið ykkur því um að taka þessa könnun. Þetta væru þá einu laun mín fyrir að standa í þessu bloggrugli endalaust og fáið þið mínar bestu þakkir að auki fyrir að taka könnunina. Örvæntið ekki, það er ekki hægt að rekja svörin svo verið alveg hreinskilin. Þið særið mig ekki né heldur látið mig fá stórt höfuð.

Fyrir ykkur sem nennið ekki að lesa þetta að ofan; smellið bara hérna.
Núna, rúmlega 150 mínútum eftir að ég vaknaði í morgun, hef ég geispað jafnmikið og lítil þjóð í Afríku geispar á heilum degi. Slíkar eru geispurnar að hálfur skólinn er orðinn syfjaður með mér, annað lungað á mér fer að gefa sig og kjálkinn brákaður.

Þar sem ég get ekki smitað lesendur af geispa með geispanum einum saman kemur hér þreytandi moli:

Vissuð þið að Kodak þýðir hvorki neitt né er skammstöfun fyrir eitthvað? Kodak nafnið var fundið upp til að hljóma vel.