miðvikudagur, 16. janúar 2013

Memento og Griðastaður

Í dag átti ég Memento upplifun* í vinnunni þegar ég fór inn á salerni hæðarinnar að sækja pappírsþurrkur, þar sem ég var að borða hádegismatinn við silkimjúka birtu frá Excel á tölvuskjánum.

Þegar ég kom inn á salernið stoppaði ég og sagði "Hmm... ég þarf ekki á klósetið. Hvað er ég að gera hérna?"

Eftir nokkrar sekúndur ákvað ég að þvo mér vel um hendurnar og fara aftur að vinna.

Þegar ég kom svo til baka og mundi hvað ég ætlaði að gera, risti skipunina á handarbakið á mér með ryðguðum nagla sem ég fann og sótti þurrkur.

Annars er það að frétta að í gær sá ég myndina La Clé des Champs (Ísl.: Griðastaður) á frönsku kvikmyndahátíðinni í Háskólabíó. Myndin fjallar um dreng sem gengur í kringum tjörn og fylgist með (skor)dýraríkinu. Einhver furðulegasta afsökun fyrir bíómynd sem ég hef séð. Spoiler: Hann gefur stelpunni stækkunargler og hún fer úr bænum.

Sérfræðingar (ég í fleirtölu) telja myndina einn af lágpunktum kvikmyndasögunnar.

Hálf stjarna af fjórum. Hálfa stjarnan er fyrir Sylvester Stallone í feluhlutverki sem bóndi á hjóli í bakgrunni.

*Memento fjallar um mann sem hefur ekkert langtímaminni. Sjá dæmi hér.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.