mánudagur, 29. október 2012

Helgarævintýri

Hér eru smásögur helgarinnar.

Draumfarir
Veikindi mín í síðustu viku færðust yfir í draumaheimanna aðfararnótt föstudags þegar mig dreymdi að Sylvester Stallone væri að leigja með mér. Einn morguninn mætti hann ber að ofan til morgunverðarborðs, sem virtist ekki vera óvenjulegt, og tók eftir að ég hafði klárað jógúrtina hans. Ég lofaði að skjótast snöggvast í verslun og kaupa meira. Um leið og hann svaraði "Cool" fattaði ég að ég átti ekki krónu. Sem betur fer vaknaði ég þá með andlitið fullt af hori og eymd.

Hnerrmet
Á laugardagsmorgunn vaknaði ég nokkuð hress og hélt að veikindi mín væru loksins að hverfa. Ég settist upp og byrjaði að plana ræktarferðir, ferðalög og jafnvel allskonar ástarævintýri, í ljósi góðrar heilsu. Þá tók líkaminn við sér og lét mig hnerra átta sinnum í röð. Svo ég lagðist aftur í rekkju og svaf í sex tíma í viðbót.

Æðri máttarvöld
Í gærkvöldi, þegar ég ætlaði loksins að drulla mér í ræktina, var Peugeot bifreið mín rafmagnslaus. Vinur minn sagði að þetta væru sennilega æðri máttarvöld að láta mig vita að ég væri enn of veikur til að fara í ræktina, sem reyndist vera rétt.

Þetta gaf mér þá hugmynd að selja þennan fjandans bíl, þar sem enginn hefur orðið fyrir jafnmikilli afskiptasemi frá æðri máttarvöldum og ég, síðan ég keypti þennan bíl. Áhugasamir hafi samband við mig í finnurtg@gmail.com.

1 ummæli:

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.