þriðjudagur, 28. febrúar 2012

Bætt líðan

Í upphafi árs ákvað ég að endurskipuleggja mig og finna leiðir til að stuðla að betri almennri líðan hjá mér.

Mér datt í hug að stunda meiri útiveru, borða hollari mat, greiða hárið mitt daglega fyrir framan spegil og að klæða mig eins og maður, ekki eins og 500 króna karlhóra.

En fyrst ákvað ég að prófa eitt:



Með því að hætta að lesa dv.is komst ég hjá því að sjá athugasemdirnar á síðunni. Og það var allt sem þurfti. Nú er ég nánast alveg hættur að gnísta tönnum og hef ekki frussað blóði úr reiði í nokkra daga. Þar utan get ég hætt við að borða hollt og klæða mig vel. Allir græða. Amk ég.

föstudagur, 24. febrúar 2012

Muj




Flestir stæra sig af því að hafa tekið U beygjur, skiljanlega þar sem sú beygjutækni er nálægt hápunkti allrar aksturskunnáttu. Ég gerði þó enn betur í gærkvöldi!

Ég var að beygja inn í bílastæðin við blokkina sem ég bý í og sá þá að öll stæðin voru full. Ég snögghemlaði og sá stæði laust á vinstri hönd, bakkaði og tók glæsilega beygju í lausa stæðið. Hér má sjá mynd af athæfinu, unna úr loftmynd af umræddu bílastæði og verkun framkvæmda af sérfræðingi í Photoshop CS5 HDR Pro og Adobe's Creative Suite 4 Master Collection, gegn háu gjaldi.




Þetta er, hvorki meira né minna, en μbeygja (borið fram 'Muj-beygja).

Ég efast um að þetta verði endurtekið í bráð. Af neinum.

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Ást í sturtu

Eftir rækt í World Class í gærkvöldi fór ég í sturtu, eins og vaninn er. Ég var svo heppinn að enginn var í sturtuherberginu sem ég valdi mér.

Sturtuherbergin eru tvö og í hvoru eru tíu sturtur. Þarna voru því níu lausar sturtur og þar sem ég var nálægt miðju herbergisins að sturtast þá voru sjö sturtur lausar sem ekki voru við hliðina á mér.

Það vakti því furðu mína þegar náungi kom inn og valdi sturtuna við hliðina á mér. Líkurnar á því eru 2/9 eða 22%. Það eru þá um 78% líkur á því að ég hef rétt fyrir mér þegar ég segist hafa orðið fyrir minni fyrstu viðreynslu í ræktinni í gær. Og það kviknakinn. Ekki slæmur árangur.

Mér fannst því skiljanlega enn undarlegra þegar hann brást illa við þegar ég reyndi að kyssa hann.

Hér er útskýringamynd fyrir þá sem nenna ekki að nota hugmyndaflugið:






Græna örin táknar hvert viðkomandi aðili fór til að sturta sig. Ég hefði birt ljósmynd ef hann hefði ekki verið farinn þegar ég kom aftur með gsm síma/myndavélina.

þriðjudagur, 21. febrúar 2012

Uppbót

Í gær náði ég þeim merka áfanga að brenna yfir þúsund kalóríum í ræktinni. Þar af brenndi ég um 600 kalóríum á því að hjóla og restinni með skokki og öskurælum.

Þar með hef ég bætt upp fyrir sjö þúsund kalóríu bolluát sem fram fór í gær. Aldrei aftur.

laugardagur, 18. febrúar 2012

Nýtt útsýni



Þetta er nýja útsýnið mitt í vinnunni. Finnst rétt að vara fólk við sem býr á þessu svæði. Ég fylgist með ykkur.

föstudagur, 17. febrúar 2012

Ráð fyrir kvennærbuxnablætismenn

Í ræktinni í kvöld náði ég að fullkomna tækni sem mun kollvarpa heimi feiminna manna með kvennærbuxnablæti. Hér er aðferðin:

1. Farðu í ræktina.
2. Vertu í boxernærbuxum innan undir stuttbuxum.
3. Sestu á þrekhjól og byrjaðu að hjóla.
4. Farðu á erfiðasta level sem þú treystir þér til að hjóla á og ekki gefast upp.
5. Hjólaðu í klukkutíma án þess að stoppa, hjóla standandi eða lagfæra stuttbuxur/nærbuxur.

Að þessum klukkutíma loknum ertu kominn í minnsta g-streng sem þú getur hugsað þér, sem er mjög gott fyrir menn sem vilja ganga í þannig örnærbuxum en eru of feimnir til að versla sér.

Það er hinsvegar afskaplega slæmt fyrir mig, sem var korter að reyna að klæða mig úr þeim fyrir sturtu.

miðvikudagur, 15. febrúar 2012

Morgunumferðin

Í morgun tókst mér að mæta á réttum tíma í vinnuna í fyrsta sinn í langan tíma. Á leiðinni í vinnuna klukkan 8:50 mundi ég af hverju ég geri að leik mínum að mæta of seint í vinnuna daglega. Ég fyrirlít umferðaröngþveiti af svo mikilli hörku að ég mætti hálf rámur í vinnuna nokkrum mínútum síðar.

Þessi dubstep útgáfa af slagaranum Sleep with one eye open (ísl.: Sofðu unga ástin mín) með hjartaknúsurunum í Bring me the horizon (ísl: Á móti sól) lýsir vel líðan minni í áðurnefndu umferðaröngþveiti á meðan hver fáráðurinn með bílpróf á fætum öðrum gaf ekki stefnuljós og/eða svínaði á mig.



Ég mæli með því að fólk fái sér kefli til að bíta í áður en ýtt er á play.

Þess ber að geta að þó ég mæti aldrei á réttum tíma í vinnuna þá fer ég alltaf seint heim, svo ég fylli upp í átta tíma vinnudaginn og vel það. Ekki að þér komi það neitt við.

föstudagur, 10. febrúar 2012

Ást við kassann II

Í gær varð ég ástfanginn í verslun, annan daginn í röð. Í fyrradag var það stelpa í matvöruverslun og í gær afgreiðslustelpa í apóteki.

Ég hélt að ég hefði lært af mistökunum daginn áður svo ég skipulagði mig betur í þetta skiptið.

Áætlunin var að spyrja hvort ekki væru til stærri smokkar en þeir stærstu sem ég gæti fundið. Þegar hún myndi svara neitandi ætlaði ég að biðja um svarta rusapoka í staðinn. Við það átti hún að krefjast þess að hitta mig aftur við kertaljósakvöldverð.

Þegar loksins kom að mér í röðinni bað ég um verkjatöflur og hrökklaðist svo út sótsvartur í framan af skömm.

Viðreynsla mín hefði reyndar getað farið verr. Ég hefði getað keypt það sem ég ætlaði mér upphaflega að kaupa, extra stóra verkjastillandi stíla.

Með þessari atburðarás legg ég viðreynsluskónna mína á hilluna það sem eftir lifir árs. Nokkuð góður árangur miðað við síðustu ár.

miðvikudagur, 8. febrúar 2012

Ást við kassann

Á leið heim úr vinnu í kvöld ákvað ég að stoppa í 10-11 til að versla mér brauð. Ég hjó eftir afar huggulegri stúlku við afgreiðslukassann og fór að plana leiðir til að heilla hana upp úr skónum.

Ég gat ekki heillað hana með úlitinu þar sem ég er náfölur tölunörd í úr sér gengnum fötum og ekki gat ég notast við persónuleika minn, þar sem ég bý ekki yfir einum. Ég notaði því einu leiðina sem var eftir; ríkidæmi.

Ég fann dýrustu vöru verslunarinnar af mörgum og vippaði á afgreiðsluborðið þannig að hún sæi og leit svo í augu hennar. Húp gapti þegar hún sá að ég var með 1.300 króna örlitla ísdollu frá Ben&Jerrys, hristi hausinn og lét sig hverfa, mumblandi eitthvað.

Og nú drekki ég ástarsorginni í Chocolate Fudge Brownie (Ísl.: Súkkulaði súkkulaði súkkulaðikaka) ís frá Ben&Jerrys.

Þetta er amk ástæðan sem ég mun gefa barnabörnum mínum þegar þau spyrja mig af hverju ég hafi keypt Ben&Jerrys ís af öllum ísum í 10-11 af öllum verslunum árið 2012.

mánudagur, 6. febrúar 2012

Tvær flugur

Í kvöld sló ég tvær flugur í einu höggi þegar ég borðaði sjö frostpinna í röð:

1. flugan: Næringaskortur. Ég hef lítið borðað í dag vegna lystarleysis vegna veikinda vegna ömurlegs ónæmiskerfis.
2. flugan: Ég uppfyllti loks loforðið um að borða eins marga frostpinna og ég vildi þegar ég yrði fullorðinn sem ég gaf sjálfum mér 10 ára gamall þegar ég fékk bara einn frostpinna á nammidegi.

Það sem eftir lifir nætur mun ég svo bursta tennurnar með stálull. Ég sé ekki eftir neinu!

laugardagur, 4. febrúar 2012

Ónæmiskerfi mitt

Tvennt er að frétta.

Í fyrsta lagi er ég að verða veikur í fjórða skiptið á tveimur mánuðum. Það sem hryggir mig mest er ekki það að ég muni líklega eyða þessari helgi í að liggja og vorkenna sjálfum mér, þar sem ég hugðist liggja og sofa hvort eð er, heldur sú staðreynd að ónæmiskerfi mitt er álíka vel smíðað og Peugeot bifreið.

Það eru kannski ýkjur. Ef það væri alveg eins og Peugeot þá væri ég sennilega staddur á Hlemmi með andlitsmálningu rennandi niður andlitið, bjóðandi munnmök fyrir smámynt.

Hin stórfréttin er að eitt af tæplega tvö hundruð áramótaheitum mínum í ár, sem áttu að gera mig að betri manni, er kolfallið en það fól í sér að hætta að tryllast við að lesa athugasemdir við fréttir á dv.is. Ég er meira að segja farinn að byggja upp þol gagnvart þessum athugasemdum. Í gær tókst mér að lesa þrjár fréttir og athugasemdir við þær áður en ég lokaði síðunni öskrandi. Það er rúmri frétt meira en metið var.