föstudagur, 31. október 2003

Á laugardagskvöldið síðastliðið tók ég þátt í leik sem Guggur og vinir hans ákváðu að spila á meðan þeir helltu í sig áfengi. Hann gengur út á að skrifa reiðinnar býsn af öllu sem viðkomandi dettur í hug á einni mínútu. Það sem þú mátt skrifa niður er þó skilyrðum háð og sem dæmi má taka skilyrðin að skrifa bíómyndanöfn sem byrja á I en það voru akkúrat skilyrðin sem voru uppsett þegar þessi saga hefst. Einhver ritstífla átti sér stað og ritaði ég þrjár setningar sem mig minnti að væri nöfn á myndum. Fyrst ber að nefna Imodium en það er víst þarmalyf og var ég einhverra hluta vegna stimplaður hommi í kjölfarið. Næst ritaði ég in & out en það er mynd um homma og hlógu strákarnir mikið við þessa tilviljun. Síðast en ekki síst skráði ég Into deep og þarmeð sprakk allt, ég varð vægast sagt vandræðalegur og ákvað að horfa bara á heilbrigða gagnkynhneigða mynd í herberginu mínu, fjarri hlátrasköllunum.
Skrítið hvernig hægt er að vera með ritstíflu einn klukkutímann (sjá síðustu 2 daga) en fá svo andlegan niðurgang þann næsta (sjá kvöldið í kvöld). Ég ætla að finna hvaða efni virkar best sem andleg laxerolía, selja hana, verða ríkur og horfa svo hlæjandi á þegar allur heimurinn byrjar að blogga.
Í kvöld fór ég í göngutúr út í sjoppu, bónus video nánar tiltekið. Ég klæddi mig skemmtilega upp með hanska og húfu vegna þess að nýlega snjóaði, fór svo í nýlegu skónna mína sem munu taka við af hinum þriggja ára sem ég geng ennþá í að staðaldri. Við þetta bætti ég svo ferðageislaspilara sem ég setti í úlpuvasann, stakk Nick Cave disknum The good son í og setti höfuðtólin í eyrun á mér. Ég rölti svo af stað, kem við í Bónus Videó, kaupi mjólk og passa að vera búinn að taka höfuðtólin úr eyrunum á mér áður en inn í verslunina er komið. Ég rölti svo í makindum mínum til baka með höfuðtólin í eyrunum, lúkur fullar af mjólkurfernum og stærðarinnar bros á vör. Þegar ég svo kom að horni Tunguvegs fer ég aðeins að hugsa og átta mig á því að ég hafði steingleymt að ýta á play þegar ég lagði af stað frá Tunguvegi ca 20 mínútum áður. Ég snarstoppaði því, setti diskinn af stað og hlustaði á fimm sekúndur af Foi Na Cruiz áður en ég kom heim, sár og bitur yfir eigin heimsku.

fimmtudagur, 30. október 2003

Sá fátíði atburður átti sér stað í kvöld að dýr í útrýmingarhættu, viljandi ókúl homo sapiens (ég), eldaði hamborgara í hlýrabol og adidas buxum. Myndatökumaður var í startholunum þegar eldamennskan var plönuð en varð slimesoccer að bráð og var því engin mynd tekin. Ég hef þar af leiðandi enga sönnun fyrir þessum atburði þannig að þið verðið bara að taka mig trúanlegan. Heimilislíf og myndatökur fjölskyldunnar á tunguvegi heyra sögunni til fyrir tilstilli helvítis slime leikjanna.
Fjandinn hafi skjá einn og fimmtudagana hjá þeim. Í kvöld ætlaði ég mér mjög margt, m.a. að horfa horfa á videospólu og jafnvel læra smá en það er ekki hægt héðan af. Fimm gamanþættir í röð er of gott til að sleppa. Ég þarf að fara núna, CSI fer að byrja.
Í ljósi þess að engin heilastarfsemi virðist vera í gangi hjá mér þessa dagana hyggst ég fjalla um tvær myndir sem ég nýlega sá en hef ekki haft tíma til að skrá neitt um sökum Anna (fullt af stelpum sem heita Anna hafa haldið mér niðri).

Sú fyrri er gömul sem ég hafði ekki horft á í langan tíma og ber hún nafnið 'The Cutting Edge' eða 'Á hálum ís'. Þegar ég var á gelgjunni (frá 18-22 ára aldrinum, seinþroska) fannst mér þessi mynd vera dásamleg og ein sú besta sem ég hafði séð. Þegar það virkaði ekki á stelpurnar féll hún í gleymsku þar til núna. Myndin fjallar um skautadrottningu sem er leiðindartík. Hana vantar alltaf karlkyns skautara á móti sér þar sem þar sem hún er mjög leiðinleg. Þá kemur fram ægilegur pörupiltur sem tekur hana í gegn og svo framvegis. Myndin er hugljúf og nokkuð vel gerð. Hún er frá 1992 og það sést vel. Leikarar standa sig vel og sagan er fín þrátt fyrir væmni í lokin. Þrjár stjörnur af fjórum.

Seinni myndin er 'Bruce Almighty' með Jim Carrey í aðalhlutverki en hana niðurhlóð af hinu merka forriti DC++ nýverið. Myndin er vella út í gegn og þó að Jim Carrey standi sig vel er sagan bara of væmin og dæmigerð fyrir mig auk þess sem sum atriðin sem eiga að vera svakaleg eru einfaldlega ömurleg. Ein og hálf stjarna af fjórum.
Í nótt hófst NBA tímabilið fyrir alla Utah Jazz aðdáendur. Þeir tóku sig til, smöluðu Trailblazers saman og aflífuðu. Hér getið þið lesið um leikinn og hér séð alla tölfræðina. Ég missti stjórn á gleði minni og tók skemmtilegt footloose dansspor á bókasafninu bara til þess að fá vikubann.

miðvikudagur, 29. október 2003

Ég virðist vera algjörlega laus við að hafa eitthvað að segja í dag. Er að vinna á fullu í fyrirlestri sem haldinn verður eftir viku um innri markaðssetningu fyrirtæ...
...þetta ætti að nægja til að fæla ykkur í burtu.

Komið aftur á morgun.
Elsa Guðný hefur hafið dagbókarskrif á ný hér eftir misheppnaða hættun. Lesum og verum glöð.

þriðjudagur, 28. október 2003

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að fólk er ósammála mér varðandi Matrix reloaded og Kill Bill þannig að hér kemur smá könnun, ykkur til ánægju líklegast. Ég læt hana þó ekki í hliðarrammann hérna til hægri þar sem þetta er bara bráðabirgðakönnun.

Smelltu hér til að taka þátt.
Sunnudagurinn síðastliðni átti að fara í heljarinnar lærdóm með mínum stelpuvædda markaðsfræðihópi (er í 5 manna hópi í markaðsfræði, 4 af þeim eru stelpur og 3 af þeim heita Eva) en sökum veikinda hjá öðrum en mér hélt ég mig heima framan af.
Seinni parturinn var þó mun viðburðaríkari en þá hitti ég pabba, við fórum til ömmu í heimsókn og þaðan á vitabarinn þar sem við átum besta hamborgara bæjarins, að sögn Davíðs Þórs og fleiri vaskra manna. Þaðan lá leiðin í Regnbogann þar sem við horfðum á myndina Kill Bill eða Drepið reikning á Íslensku. Þær sem voru að grenja yfir því hve Matrix Reloaded er ruglingsleg ættuð ekki að fara á þessa. Það sem ég skildi var mjög óáhugavert. Myndin er bland af Matrix Reloaded (þeas bardagasenurnar) og Pókémon. Þar sem ég er talsmaður antikúlista þá gef ég ekki mikið fyrir Tarantino og kúlið hans. Hann virðist þrífst á því að vera kúl. Tónlistin í myndinni er þó afbragðsgóð.
Ein og hálf stjarna af fjórum sem gera hálfa stjörnu fyrir hverja milljón lítra af blóði sem flæddi í þessari mynd.
Laugardaginn 25. október síðastliðinn klukkan 14:23 að staðartíma hófst innrás meðleigenda minna á mitt pláss í ísskáp númer 1, Tunguvegi 18. Hingað til hef ég haft neðstu hillu norðurísskápsins í frið og ró en eftir að ég tók hliðarhillu í hurðinni á ísskápnum undir mjólk varð gremjan mikil og á laugardaginn sauð upp úr. Þeir byrjuðu á því að henda inn skyr.is í neðstu hilluna og bættu svo við tveimur undanrennufernum. Ég raðaði því skyrinu mínu upp á móti, bætti við vatninu sem ég geymi á brúsa og smjörinu sem reyndar er útrunnið en getur barist. Allt kom fyrir ekki því Óli kom þá askvaðandi úr Bónus og yfirtók neðstu hilluna með meira skyri og sardínum á tilboðsverði.
Eins og staðan er núna er ég króaður af í horninu en hyggst koma liðsforingjum andstæðinga minna á óvart með ferð í Bónus í dag.