sunnudagur, 31. ágúst 2003

Ég hef hannað minn fyrsta auglýsingaborða fyrir þessa síðu. Hugmyndin kviknaði þegar ég uppgötvaði að nafnið finnur.tk væri ágætis nafn á leitarvél. Svona lítur þá auglýsingin út




Hafið samband ef þið viljið hafa hann á ykkar síðu.
Ég gleymdi alveg að minnast á heimsókn Bylgju um daginn á Tunguveginn en hún kom með skúffuköku hvorki meira né minna. Ekkert meira um það að segja svosem. Ég vona að þetta nægi svo Bylgja lemji mig ekki.

laugardagur, 30. ágúst 2003

Í dag laugardag, hef ég ekkert gert nema sofa, horfa á videospólur og borðað. Aldrei hef ég upplifað jafn fábrotinn laugardag og það fær mann til að hugsa heim til austurlandsins. Að hugsa til austurlandsins fær mig auðvitað til að sakna þess og spá í veru mína hérna. Það leiðir af sér frekar mikla sorg og sorgina má tjá með lagi einu sem ég ætla að bjóða ykkur upp á hér. Lagið er með Moby.

Nú hyggst ég eyða restinni af helginni í lærdóm.

föstudagur, 29. ágúst 2003

Það sjást ekki oft hasarfréttir frá skákheiminum en hér er ein, tekin af alþjóðlegri síðu tileinkuð þessum piltungi.
Í morgun ákvað ég að gera tvennt sem aldrei hafði verið gert áður. Ég ákvað að taka strætó í skólann, eitthvað sem mér persónulega hafði aldrei tekist áður (amk ekki að komast á réttan áfangastað) og eitthvað sem enginn nemandi í Háskóla Reykjavíkur hafði áður gert (þeas að taka strætó). Ferðin gekk vel fyrir utan krókaleið sem bílstjórinn ákvað að taka til þess eins að láta mig svitna meira en góðu hófi gegnir.

fimmtudagur, 28. ágúst 2003

Ég var að bæta heimsmetið í ósamstæðum sokkum eftir einn þvott. 10 stykki! Geri aðrir betur.
Nú hafa verið tefldar 2 skákir á Tunguveginum, í bæði skiptin tefldi ég við Víði Vakstjóra og sigraði eftir bland af heppni, þrjósku og útsjónarsemi. Niðurstöður voru skráðar á þar til gert blað og í lok árs munu úrslit vera talin saman og sigurvegari krýndur. Fáklæddir kvenmannsgestaskákmenn eru alltaf velkomnir.
Enn eina ferðina er ég staddur í ævintýraháskóla Reykjavíkur og enn einu sinni lenti ég í ævintýrum, fyrir hádegi nánar tiltekið. Í þetta sinn var ég staddur í mötuneytinu í frímínútum þegar ég lagði fimlega 140 krónur í sjálfsala fyrir drykkjargosi því ég var þyrstur og við það að sofna. Að sjálfsögðu gleypti vélin peninginn en skilaði engu í staðinn svo ég ældi úr reiði innra með mér og hugðist kvarta en sá svo biðröðina í afgreiðsluna og hætti snarlega við. Til baka fór ég því hnugginn og sagði Óla frá sem hló að óförum mínum. Í síðari frímínútunum fór ég aftur og ætlaði að gera aðra tilraun en í það skiptið á öðrum sjálfsala. Viti menn, ekki nóg með að ég greiddi aðeins 100 krónur þar heldur fékk ég ókeypis fanta flösku með litlu gos dollunni sem ég hugðist kaupa. Svona getur lífið sífellt komið manni á óvart og jafnað sig út, eins og ég hef hamrað á hingað til.

miðvikudagur, 27. ágúst 2003

Í dag lauk ég mínum þriðja degi í Háskóla Reykjavíkur. Á þessum tíma hef ég verið mjög athugull og fylgst með atferli samnemenda minna sem og kennara sem ég hef hitt. Af þeim kynnum get ég dregið eina sáraeinfalda ályktun; það er enginn með eins hárgreiðslu og ég. Frá því má svo draga aðra ályktun; ég er tímaskekktur Egilsstaðabúi í Reykjavík.
Á mánudagskvöldið hélt ég í víking á myndina 'Pirates of the Caribbean: the curse of the black pearl' í fríðu föruneyti Jökuls, Tedda, Garðari og Eygló. Myndin var spiluð í sambíóum einhversstaðar í Reykjavík (rata ekkert og veit ekki hvar ég var staddur). Í henni leika Johnny Depp, Orlando Bloom, Geoffrey Rush og fleiri góðir. Myndin er afbragðsskemmtun í alla staði. Sagan er góð, tæknibrellur magnaðar og leikurinn frábær, þó sérstaklega hjá Johnny Depp sem fer á kostum í hlutverki Keith Richards, eða sambærilegum karakter. Ofan á skemmtilega mynd bætist við skemmtileg bæjarferð í góðum félagsskap svo myndin fær þrjár og hálfa stjörnu af fjórum. Fleiri svona myndir í bíó.
Ég var rétt í þessu að koma frá samkomu í laugardalshöll þar sem sögumaðurinn og þjóðlagaskáldið Dave Grohl hélt uppi stemningu ásamt fyrirmyndarsveit vaskra sveina sem bera nafnið Foo Fighters. Dave sagði frá því m.a. þegar hann fór á Stokkseyri í gær til að hella sig og sína fulla af brennivíni undir stjörnubjörtum himni þegar þeir heyrðu í ungri sveit spila þungt rokk. Þeir ákváðu í ölæði sínu að fara til þeirra og viti menn, þeir máttu spila smá með þeim. Þessari hljómsveit var síðan lofað að taka 1 lag kvöldið eftir á tónleikunum (í kvöld) og þeir þáðu það og gerðu, 14 ára piltarnir. Svona getur fræga fólkið verið gott.
Inn á milli spiluðu félagarnir í Foo fighters rólyndis ballöður og dönsuðu gömlu dansana með Dave Grohl í 'Íslenskt Brennivín' bol. Hann lauk svo sögustund með því að segja Ísland vera flottasta landið af öllum sem hann hefði komið til, meira að segja flottara en Írland og Ástralía.

Í dag er ég 70% heyrnarlaus en það var þess virði.

þriðjudagur, 26. ágúst 2003

Ég er staddur í Háskóla Reykjavíkur þegar þetta er ritað. Merkileg tæknin í dag.