miðvikudagur, 22. október 2008

Upphaflegur tilgangur þessarar síðu var að skrifa eingöngu færslur um aðsókn á síðuna. Því miður fóru þá hlutir í að gerast í lífi mínu sem ollu því að þannig færslur urðu undir og nánast hurfu.

Til að bæta upp fyrir þetta klúður er hér færsla um aðsóknina á þetta blogg síðustu þrjú og hálft ár.

Fyrst fáum við tvær myndir:

Mynd 1

Mynd 2

Á mynd 1 má sjá að aðsóknin á þessa síðu var upp á sitt best í ágúst 2005, eða um 140 gestir á dag. Þá hófst eitthvað vanskapað hamingjutímabil sem olli því að aðsóknin hrundi niður í 65 gesti á dag í janúar 2006.

Þá tók ég upp á þeirri snilldar stefnu að taka athugasemdir út, sem olli áframhaldandi hruni. Þær voru svo settar aftur inn í október 2006 og því fylgdi lítilsháttar uppsveifla. Í júní 2007 var botninum svo náð þegar síðunni var lokað í nokkrar vikur og stefna síðunnar endurskoðuð.

Eftir það hefur síðan verið á uppleið ef litið er til daglegra gesta. Ef litið er á 12 mánaða meðaltalið má svo sjá stefnu aðsóknarinnar. Hún vísar upp.

Á mynd 2 má svo sjá meðaltal daglegra gesta á mánuði tvö síðustu ár, borið saman við meðaltal daglegra gesta á mánuði það sem af er ári 2008. Það lítur út fyrir að við séum yfir meðaltalinu, sem er gott.

Þetta ætti að róa hluthafa veftímaritsins, sem hafa hringt í mig látlaust síðan bankarnir hrundu. Veftímaritið Við Rætur Hugans stendur sterkt og er á uppleið. Ég hugsa að ég splæsi á mig 200 milljóna snekkju af því tilefni. Stafrænni, auðvitað.

þriðjudagur, 21. október 2008

Í ljósi skugga kreppu get ég illa sofið nema ég opni nýtt horn á þessu bloggi, hið svokallaða Sparnaðarráð Finns hornið. Ég byrja á tveimur sparnaðarráðum:

* Slökkvið á öllum ofnum í húsinu.
Það verður kannski kalt í íbúðinni, sérstaklega í vetur, en með þessu þarf enga klaka út í kókglasið til að halda kókinu köldu. Það fer talsvert af orku í að frysta svona klaka í frystinum.

* Ráð fyrir tattoo elskendur.
Ef þú ætlar að fá þér tattoo á næstunni er hér eitt sparnaðarráð. Fylgið eftirfarandi skrefum:

1. Grenntu þig niður í skinn og bein.
2. Fáðu þér agnarsmátt tattoo og borgaðu mjög lítið fyrir.
3. Fitaðu þig eins og þú mögulega getur.
4. Voilá! Tattooið er orðið risastórt fyrir smápeninga.

Þá er þessum fyrsta þætti af Sparnaðarráðum Finns lokið. Fylgist með spennandi ráðum í framtíðinni, ókeypis, hér á síðunni!

mánudagur, 20. október 2008

Ég hef uppfært listann yfir það sem ég get gert með tölunni 100:

* Keyrt á 100 km hraða.
* Talið upp í 100.
* Hlaupið 100 metra án þess að stoppa.
* Borðað 100 sneiðar af skúffuköku (frá Myllunni) án þess að æla mjög mikið.
* Skrifað 100 atriði um hluti sem ég get gert með tölunni 100.
* *Nýtt* Lyft 100 kílóum í bekkpressu.

Nú er stefnan tekin á 110 kíló. Í þetta sinn án þess að það blæði úr öllum götum líkamans við áreynsluna og með hljóðlátari öskrum.

sunnudagur, 19. október 2008



Út er komin ný ljóðabók. Ekki aðeins er hún vel samin, skemmtileg, fyndin og með flottri kápu heldur er hún líka samin af bróðir mínum, Björgvini Gunnarssyni, einnig þekktur sem Lubbi Klettaskáld. Bókin ber nafnið Kvæðahver.

Þetta er ekki fyrsta bók Björgvins og ekki önnur. Ekki heldur sú tólfta, heldur sú fjórða í röðinni. Hér er útgáfulisti hans:

1998 - Kvæða hver?
2000 - Skrafl (með Þorbirni frá Klöpp)
2003 - Svart á hvítu
2008 - Kvæðahver

Allavega, nýja bókin kostar kr. 2.000 og er hægt að nálgast hjá Björgvini bróðir í netfangið bjg8@hi.is eða í síma 866 2066.

Mæli mjög með þessari bók. Svo mjög að ég er tilbúinn að setja myndband við lagið Det snurrar i min skalle (Ísl.: Það snýst í huga mínum) með Familjen hér fyrir neðan, sem tákn um gríðarlega ákefð meðmæla minna.

laugardagur, 18. október 2008

Aðsóknin á þessa síðu jókst um rúm 8% milli vikna 40 og 41. Ef fer fram sem horfir með þessa viku (nr 42) mun aðsóknin aukast um 5% frá viku 41.

Til að fagna þessum fréttum hef ég ákveðið að verðlauna sjálfan mig með því að deila tónlist með lesendum. Þannig næ ég að troða skoðunum mínum í kokið á öðrum um leið og ég sleppi við frumlega hugsun.



1. Vitalic - Trahison: Angurvært lag sem kemur hressasta fólki í betra skap.
2. Familjen - Det snurrar i min skalle: Flottasta sænska lag sem ég hef heyrt. Abba meðtalin.
3. E.T.A. - Casual Sub: Einkennileg útgáfa af þessu lagi. Samt með flottari lögum síðustu ára.

fimmtudagur, 16. október 2008

Úr albúminu UMFÁ vs Leiknir R

Myndir.

Þetta er stysta bloggfærsla sem ég hef skrifað, hugsa ég. Þori þó ekki alveg að fara með það.

Mig minnir að ég hafi einu sinni skrifað styttri færslu sem innihélt bara spurningamerki og hlekk á það, sem vísaði í eitthvað merkilegt.

Viðbót: Eftir að hafa skoðað þetta nánar hef ég komist að því að þetta er ekki stysta færsla sem skrifuð hefur verið af mér. Ég biðst afsökunnar á að eyða tíma ykkar í ekkert.

miðvikudagur, 15. október 2008

Svona varð gærdagurinn og hluti dagsins í dag:

09:00 Vakna of seint. Fer í vinnuna.
12:30 Hádegismatur.
13:00 Excel námskeið.
16:00 Vinna.
19:30 Vinna búin. Borða.
20:00 Vinn í Arthúr.
23:30 Vinn við tölfræði UMFÁ.
01:30 Fer í sturtu.
01:50 Fer að sofa.
02:00 Dreymi Excelvinnslu.
05:00 Dreymi augnskugga.
05:15 Dreymi meiri Excelvinnslu.
09:00 Vakna of seint. Fer í vinnuna úrvinda eftir erfiða Excel vinnunótt.

Dagurinn í dag er ca nákvæmlega eins, nema ekkert Excelnámskeið, meira af bíóferðum og smá dagdraumar um Excel.

Og til að hafa það á hreinu þá lítur Excel svona út í (dag)draumum mínum, nema með fleiri föllum.
Örstutt: Tölfræði leiks UMFÁ gegn Leikni R á mánudaginn er að finna hér.
Jæja það er komið að hittingi hjá Reyklausa liðinu. Síðasti hittingur gekk mjög vel og var myndavél á staðnum. Myndbandið er hér að neðan.



Að þessu sinni ætlum við að hittast á Hlemmi klukkan 19:00 í kvöld (miðvikudaginn 15. október 2008) og valhoppa niður Laugarveginn í Henson samfestunum okkar og með hárböndin. Kannski við getum sannfært einhvern reykingamanninn í ræsinu til að hætta þessum ósið. Koma svo! Hoppfæv!

þriðjudagur, 14. október 2008

Í kvöld fór fram fyrsti leikur UMFÁ á tímabilinu í körfubolta. Leikurinn var gegn Leikni R og á heimavelli UMFÁ (sem er mitt lið!).

Löng saga stutt:

UMFÁ 103
Leiknir 93


Maður leiksins: Daði með 31 stig.

Magnaður leikur, körfubolti. Meira um það síðar.

Nú tekur við 5 daga frí frá hreyfingu fyrir mig sem er skipun frá þjálfara UMFÁ, til að losa mig við meiðsli. Ef einhver sem les þetta vinnur í Húsasmiðjunni, ekki selja mér reipi í lok vikunnar, sérstaklega ekki ef ég er grátandi.

mánudagur, 13. október 2008

Til er ein gerð af fólki sem fer ótrúlega í taugarnar á mér. Það er fólk sem les blogg þegar það á að vera að vinna. Ekki bara er það ótillitssamt og ógeðslegt heldur er það einnig yfirleitt heimskt og feitt.



Sjá nánar hér.

Þið hafið hérmeð tekið þátt í staf- og listrænum gjörningi. Hann endurspeglar hvorki skoðanir mínar né ritstjórnarinnar.

laugardagur, 11. október 2008

Í kvöld var mér boðið á djammið. Ég neitaði. Þess í stað varð mitt laugardagskvöld svona:


Á myndinni má sjá:

[X] 2 lítrar af mjólk.
[_] Tónlist.
[X] Erótísk spennubók með Excel ívafi.
[X] Banani.

Hollustan og heilbrigður lífsstíll í fyrirrúmi, þar sem fyrsti leikur körfuboltatímabilsins er á mánudaginn (kl 19:15 í íþróttahúsi Álftaness).