miðvikudagur, 30. maí 2012

Óhrós

Nýlega fékk ég hrós sem var einlægt og ég gat ekki með nokkru móti mistúlkað sem gagnrýni. Það er óþolandi sjaldgæfur viðburður.

Hér er listi yfir þrjú óuppáhaldshrós sem ég hef fengið í gegnum tíðina:

3. Flottur bíll!
Sagt af Björgvini bróðir þegar ég sýndi honum Peugeot bifreið mína nýkeypta. Það var ekki fyrr en sex árum og milljón krónum í viðgerðir síðar að ég áttaði mig á að hann var að beita síðbúinni kaldhæðni.

2. Snillingur!
Samstarfskona mín sagði mig snilling eftir að ég vann fyrir hana mjög flókið Excel skjal. Nokkrum mínútum síðar kallaði hún annan samstarfsfélaga sinn snilling fyrir að rétta sér blað úr prentaranum. Sjaldan hefur orðið "snillingur" fallið jafn hratt í verði og þennan dag.

1. Flottur strákur.
Vinur: Af hverju ertu einhleypur, Finnur? Þú ert flottur strákur. Með stóran rass en samt flottur og skemmtilegur.
Ég: ...er ég með stóran rass?
Vinur: Flottur strákur.

Enn þann dag í dag er ég með sálarflækjur varðandi líkama minn eftir þetta samtal.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.