fimmtudagur, 29. september 2011

Lífsgæðaaukning

Ég hef ekki verið nógu duglegur í lífsgæðakapphlaupinu hingað til. Ég á t.d. enga íbúð, engin flott föt, Peugeot og hef notað sömu gleraugu í næstum sjö ár, þrátt fyrir að þau hafi farið úr tísku fyrir tæpum sex árum.

Línuritið yfir lífsgæði mín var því frekar slétt og óspennandi, þar til ég hóf að leigja þá íbúð sem ég bý í núna. Með henni fylgdu afnot af uppþvottavél. Og þvílíkur munur. Sjáið bara sjálf:




Smellið á mynd fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

þriðjudagur, 27. september 2011

Líf mitt í Excel töflu

Oftar en ekki er ég spurðu hvernig ég lifi lífi mínu (þeas ég er oftar spurður að því en ég er ekki spurður). Ég er með svar við því. Hér eru föstu liðirnir í mínu lífi, settir upp í Excel töflu:



Ég sef frameftir um helgar, vinn á daginn og fer í rækt á kvöldin. Ennfremur legg ég mig fyrir rækt og fer seint að sofa.

Glöggir lesendur sjá að myndin líkist frekar hommalegum svörtum manni með bleikan hálsklút.

Ég svara því spurningunni hvernig ég lifi lífi mínu með „Eins og frekar hommalegur svartur maður með bleikan hálsklút“, til að spara tíma.

mánudagur, 26. september 2011

Sykurfíknin

Rétt fyrir miðnætti í gær tók ég þá ákvörðun að snúa við blaðinu í mataræði mínu. „Ég borða of mikið af nammi og það er kominn tími til að horfast í augu við það“ sagði ég við sjálfan mig í gær, dökkbrúnn í framan af súkkulaðiáti.

Í dag fór ég svo í Bónus og keypti ávexti og hollan mat fyrir mörg þúsund krónur. Eftir ræktina borðaði ég svo hollan kvöldmat og fékk ávöxt í eftirmat. Svo sat ég og hugsaði minn gang. Og lét sem puttarnir á mér væru trommukjuðar og borðið trommur. Svo hugsaði ég aðeins meira um minn gang.

Rétt fyrir miðnætti keypti ég mér nammi og át þangað til ég þurfti að kasta upp. Þegar þetta er ritað er ég að berjast við að halda namminu niðri með öllum tiltækum ráðum (m.a. að hugsa ekki um Lady Gaga).

Ég sef á nóttunni því ég hugga mig við að þetta sé ekki heróín. Þeas þegar ég hætti að öskra úr sykurofskammti.

þriðjudagur, 20. september 2011

Söguleg klipping?

Á föstudaginn síðasta fór ég í klippingu í fyrsta sinn í meira en sex mánuði. Klippingin var því hálf söguleg, eða hvað? Ég á erfitt með að greina áhrif hennar öðruvísi en að notast við súlurit.





Ef ég yrði að lýsa áhrifunum með einu orðin þá væri það sennilega „engin“. Klippingin var þá kannski ekkert söguleg. Og þessi bloggfærsla óþarfi.

laugardagur, 17. september 2011

Hrós vikunnar

Í vikunni fékk ég hrós fyrir eftirfarandi:

* Að vera skemmtilegur frá Önnu Maríu, 2ja ára frænku minni. Sennilega í kaldhæðni.
* Að vera með þykkt (og smá grátt) hár, frá hárgreiðslumeistara.
* Að standa beinn í baki frá eldri manni á göngu.
* Að vera með fjörugt ímyndunarafl frá samstarfsmanni, sem sagði það ekki berum orðum en gaf það í skyn með augnaráði sínu.

Í vikunni gaf ég svo eftirfarandi hrós:

* Önnu Maríu frænku fyrir að vera skemmtileg og fyndin. Ekki í kaldhæðni.
* Næstum öllum í umferðinni fyrir að vera frábærir bílstjórar.

Ég og umheimurinn erum því jafnir þegar kemur að hrósum, því ég öskraði öll bílastjórahrósin, sem gefur því meira vægi.

föstudagur, 16. september 2011

Hitt og þetta

Ég útbjó nýlega í Excel innsláttarskjöl fyrir tímabilið í Iceland Express deildunum í körfubolta sem hefjast eftir tæpan mánuð og setti á hina síðuna mína (sem ég rek með öðrum), eða hér.

Í öðrum fréttum:

Kolla systir, Árni Már mágur og 2ja ára frænka mín, Anna María voru í heimsókn í vikunni. Tveimur matarboðum með þeim síðar og talsverðum tíma í búðarleik við Önnu Maríu og þau eru farin til síns heima, mér til armæðu (sem er slæmt, skilst mér).

Ég fór nýlega í bíó á myndina 30 minutes or less (Ísl.: Allt í háaloft). Myndin er eins og kúskús: fyllir í tómið á milli stærri mynda/fæðutegunda en er ekki saðsöm.

Ég gef myndinni 0,0241 stjörnur á hverja mínútu hennar (83 mínútur) eða 2 stjörnur af fjórum.

þriðjudagur, 13. september 2011

Að láta sér líða illa

Þegar ég hef gert eitthvað stórkostlegt (eins og að fara í ræktina eða að skrifa ógleymanlega bloggfærslu (man ekki eftir neinni slíkri í augnablikinu)) sem lætur mér líða mjög vel andlega og/eða líkamlega, á ég það til að gera eitthvað svo ótrúlega heimskulegt að nettó líðan er hræðileg það sem eftir lifir kvölds og jafnvel næstu daga.

Hér eru nokkur dæmi:

1. Að borða skúffuköku
Ein sneið er nóg til að ég sofni innan tíu mínútna og vakni í flogakasti úr sykurtremma.

2. Að hlusta á U2 lag
Stundum ligg ég stjarfur úr þreytu í bílnum, keyrandi þegar U2 lag byrjar og ég hugsa „Meh, hvað er það versta sem gæti gerst við að hlusta á eitt U2 lag?“
Svar: Að heyra lagið.

3. Að senda stelpu SMS
Fá ekkert svar. Nokkurntíman.

4. Að fara í Snooker eftir að hafa spilað pool með góðum árangri.
Haldirðu að þú getir eitthvað í ballskákíþróttum eftir góðan leik í pool þá skaltu reyna snooker og halda kjafti. Þetta gerði ég með vini mínum Ara um helgina.

Við mættum kampakátir á staðinn og fórum stjarfir út eftir 150 mínútur og tvo leiki. Leikirnir fóru 18-17 og 19-7. Ef allur mínusinn hefði lagst ofan á stig andstæðingsins þá hefðum við skorað vel yfir þúsund stig í hvorum leiknum.

Aldrei hefur verið sparkað jafn fast í andlega punginn á mér.


Ari reynir að hitta hvítu kúluna.

laugardagur, 10. september 2011

Ó undirmeðvitund

Eftir að hafa séð nakta spegilmynd mína eftir sturtu nýlega og í kjölfarið öskrað á hana að hún sé feit og ógeðsleg, ákvað undirmeðvitund mín að grípa til sinna ráða.

Hún lét mig týna lyklunum að íbúðinni sem ég bý í svo ég þurfti að klifra upp á svalirnar, með hjálp frá Björgvini bróðir og troða mér inn um einn mjóasta glugga sem fyrirfinnst á norðurlöndunum.

Nú er ég ekki lengur feitur og ógeðslegur heldur grannur, spengilegur, þokkafullur, limafagur, úrráðagóður og ógeðslegur.

Takk undirmeðvitund!

miðvikudagur, 7. september 2011

Langlífum aulabrandara lokið

Árið 2005 sagði ég vini mínum að það gæti verið fyndið að kaupa lénið rassgat.org, af því það hljómar svo fyndilega eða eitthvað. Skömmu síðar keypti ég það. Brandarinn hætti að vera fyndinn eftir ca fjórar mínútur, ef hann var það einhverntíman.

Í gær, 2.200 dögum síðar, hætti ég áskrift að þessu urli og ætla að láta sem það hafi aldrei verið í minni eigu.

Nýja urlið, sem ég rek með kunningja mínum Davíð, er mun betra og lýsandi: prumputyppi.is excel.is.

þriðjudagur, 6. september 2011

Hversdagslegar smásögur IV

Hér eru tvær smásögur úr gærdegi lífs míns:

1. Eldamennska
Í gærkvöldi átti ég tvær brauðsneiðar, tvö egg og ost og ákvað því að steikja mér eggjasamloku*. Ég var frekar ragur við það en hugsaði svo „Hvað er það versta sem gæti gerst?“ Ég er alltaf til í að auka visku mína og svara þeim spurningum sem ég er spurður.

Ég brenndi bæði brauðin um leið og eggið var algjörlega hrátt. Osturinn flæktist í pönnunni og öll íbúðin lyktar af skaðbrunnu brauði og osti. Ennfremur lykta ég, 12 tímum síðar eins og stromphreinsir. Ég átti ekkert annað að borða.

Það var það versta sem gat gerst.

*Eggjasamloka = Gat skorið í miðju brauðs og sett á pönnu. Egg sett í gatið. Þegar steikt að fullu, bæta osti ofan á og annari hæð af brauði og eggi. Öllu snúið við, steikt og snætt.


2. Draumfarir
Í nótt dreymdi mig að ég hefði, einhverra hluta vegna verið skikkaður til að fara til sálfræðings. Sálfræðingurinn reyndist vera gullfalleg kona og viðtalið fullt af hlátri, skemmtun og mögulegu daðri. Að tímanum loknum brosti hún fallega til mín, sagðist vilja hitta mig sem fyrst aftur og bókaði mig á fimm daga fresti út árið.

Ég var í fyrstu ánægður, haldandi að hún væri óð í mig en fattaði svo að ég var snargeðveikur. Í draumnum!

Og svo dreymdi mig Trékyllisvík það sem eftir lifði nætur, morguns og dags, eins og venjulega.

mánudagur, 5. september 2011

Mitt sorglegasta met hingað til

Í nýliðnum ágústmánuði bætti ég nýtt met þegar ég skrifaði aðeins tólf færslur eða 0,39 á dag. Aldrei hef ég skrifað jafn fáar bloggfærslur, ef undan eru talin þau ár sem ég bloggaði ekki (1978-2002) og mánaðarfrí frá bloggi í febrúar 2006.

Þegar ég var upp á mitt besta, á árunum 2003-2006, skrifaði ég tvær færslur á dag og vanalega um 60 á mánuði. Hvað fór úrskeiðis?

Hér eru nokkrar kenningar:

1. Frægð mín veldur því að ég get illa skrifað undir nafni án þess að valda ursla. Svo ég skrifa sjaldnar.
Mínir bestu vinir vita ekki hvað ég heiti, hvað þá aðrir, Spaghettiskrímslinu sé lof.

2. Kvenhylli heldur mér frá blogginu.
Það er ekki hægt að smíða setningu sem getur verið meira röng en þessi að ofan.

3. Ég hef klárað allar mögulegar samsetningar af stöfum og orðum.
Það er möguleiki. Ég þarf að taka saman samsetningar allra bloggfærslna hér og bera saman við allar mögulegar samsetningar. Læt vita síðar.

4. Leti og áhugaleysi.
Meh.

5. Ég kann ekki að lesa og skrifa.
Hvernig skrifaði ég þá hinar færslurnar, fíflið þitt?

6. Ég er of önnum kafinn til að skrifa.
Ef ég hef tíma til að borða og sofa þá hef ég tíma til að blogga. Lífsmottó mitt.



 

Niðurstaða: Ég veit það ekki. Ég skal gera mitt besta að bæta mig.

föstudagur, 2. september 2011

Fótboltahermun

Þegar ég var lítill og það var ekki nógu gott veður til að hlaupa um öskrandi, þá settist ég í eldhúsið heima og hermdi eftir fótboltaleikjum með spilabunka.

Þetta blæti mitt varð alltaf stærra og stærra. Þegar hæst stóð var ég kominn með deild af liðum sem spiluðu öll hvort við annað og töflu yfir stöðuna eftir hverja umferð. Ég veit ekki hversu mörg tímabil voru spiluð en ég á einhversstaðar tugi stærðfræðibóka, fullar af deildum og töflum.

En það var þá. Nú er ég kominn með Excel.

Nýlega gerði ég smá skjal í Excel sem hermir eftir 12 liða fótboltadeild. Úrslitin ráðast af styrkleika hvers liðs í vörn, á miðju og í sókn ásamt smá líkindalíkani og auðvitað tilviljun. Lítið mál er að breyta nafni liða og styrkleika.

Hér er hægt að nálgast skjalið.

Smá leiðbeiningar:

  • Skjalið er svokallað Macro skjal, sem krefst þess að Macro-ar séu virkjaðir eftir að það er opnað. Annars er kemur það tilbúið til notkunar.
  • Smellt er á hakið við þá umferð sem spila skal, svo hún verði hermuð.
  • Taflan yfir stöðuna uppfærist eftir hverja umferð.
  • Hægra megin við töfluna er styrkleiki hvers liðs eins og stillt er í 'Grunnstillingar' sheetinu.
  • Í 'Grunnstillingar' sheetinu er hægt að láta tölvuna raða handahófskennt í styrkleika með því að smella á „Handahófskenndur styrkleiki“.
  • Það koma alltaf sömu úrslit á leikjum eða þangað til smellt er á „Núllstilla mót“ eða styrkleikar liðs breytast. Ekki er mælt með því að breyta styrkleika liðs eftir að mót hefst.
Látið vita í athugasemdum excel.is ef eitthvað er óskýrt eða má betur fara.