miðvikudagur, 27. júní 2007

Ég stökk út um gluggann þegar ég fékk VISA reikninginn í dag vegna þess hversu þykkt umslagið var. Eftir að ég skreið til baka opnaði ég reikninginn: kr. 5.200 og þrjár blaðsíður af auglýsingum. Ég íhuga að fara í mál við kreditkortafyrirtækið.

þriðjudagur, 26. júní 2007

Hér er listi listi yfir það sem ég ætlaði mér að gera í sumarfríinu fyrir austan:

1. Fara austur á bílnum, svo ég hafi bíl til umráða í þessa rúmu viku.
2. Fara víða á meðan fólk vinnur á daginn.
3. Hafa engar áhyggjur af peningamálum.
4. Þrífa bílinn og njóta þess að vera til.
5. Lesa bók.
6. Heimsækja fjölskylduna mína talsvert (bjó hjá kærustunni).
7. Fara í sund annað slagið.

Hér er listi yfir það sem ég gerði fyrir austan:

1. Fór austur á bílnum.
2. Bíllinn bilaði (vatnskassinn eyðilagðist).
3. Las bók.
4. Sólbrann í sundi.

Bíllinn hefur þá bilað fjórum sinnum alvarlega síðan ég keypti hann fyrir 16 mánuðum. Ég er hættur að kvarta yfir hversu mikið drasl hann er og ætla hér eftir að kvarta yfir því hversu heimskur ég er að vera ekki búinn að selja hann fyrir garðhrífu og 100 ml af remúlaði.

mánudagur, 25. júní 2007

Ég hef snúið aftur í Reykjavíkina eftir ca 10 daga sumarfrí frá vinnu og internetinu. Fríinu var eytt á Egilsstöðum. Slík var sólin að ég brann á bakinu, eftir sundferð númer 75.

Ekki nóg með það heldur fékk ég sólarexem á handleggina (sem er ekki jafn aðlaðandi og það hljómar). Mjög mikil óheppni hjá mér, sérstaklega þar sem það vantar bara tvo stafi í að sólarexem er sólarExcel.

Allavega, ég er kominn aftur í borgina og leiðist. Ef einhver vill gera eitthvað, einhverntíman, hringið þá eitthvað (helst í mig).

föstudagur, 15. júní 2007

Ég er farinn í mitt fyrsta launaða sumarfrí. Ég tek þriðjung þess út núna, farandi austur á Egilsstaði í faðm fjölskyldanna.
Í gærkvöldi fann ég, með því að fálma í töskuhólf, rakvél sem ég hélt að væri týnd.

Í dag er ég ekki með fingrafar á vísifingri vinstri handar.

Í kvöld ætla ég að reyna að fremja glæp bara með vísifingri vinstri handar og komast upp með það.

miðvikudagur, 13. júní 2007

Margir geðsjúklingar hafa séð Jesú nokkurn Guðsson í brauðsneiðum og öðrum matvælum. Nú hefur enn einn geðsjúklingurinn bæst í þennan ófríða og vitlausa hóp; enginn annar en ég sjálfur.

Myndin hér að neðan var tekin fyrir skömmu þegar ég ætlaði að steikja mér eitthvað í olíu og viti menn; birtist ekki Jesú sjálfur, blindfullur að því er virðist og nýbúinn að raka sig í framan:

Stuðkallinn Jesú mættur á pönnuna mína. Hann lét sig hverfa nokkrum sekúndum síðar.

þriðjudagur, 12. júní 2007

Hvað eiga þessir náungar fyrir neðan sameiginlegt:

FREAK!
Jason Stryker (vinstra megin), letihaugurinn úr X-men 2


WTF!
Victor, letihaugurinn úr Seven [reyndar mynd af mér liggjandi andvaka í gærkvöldi, en lítum fram hjá því]


Ha?

Rangt!

Svar: Þetta er sami leikarinn; Michael Reid MacKay. Mér fannst ég kannast við hann, þegar ég sá X-men 2.

Afsakið annars ógeðfelda mynd. Hjólastólafólk er samt fólk eins og við, fordómafullu vitleysingarnir ykkar.

laugardagur, 9. júní 2007

Í nótt dreymdi mig að ég væri að blogga um hvað mig dreymdi. Nú er bara að bíða og sjá hvort draumurinn rætist.

föstudagur, 8. júní 2007

Ég rakst nýlega aftur á kappann Antony úr Antony and the Johnsons og fór að hlusta á tónlist hans. Þvílík eymd. Þvílík snilld. Ég er hársbreidd frá því að gerast emogoth eftir að hafa hlustað á hann en slapp eiginlega alveg. Ég geng bara með augnskugga núna.

Allavega, hér er lag með honum. Man ekki hvort ég hef sýnt það áður.

Það vita það ekki allir en tiltölulega nálægt jörðinni er risavaxinn hnöttur sem flokkast undir þriðja kynslóð stjarna. Hún er talin hafa myndast eftir höggbylgju frá nærliggjandi sprengistjörnu.

Allavega, það sást til þessarar stjörnu í morgun í Reykjavík en það gerist mjög sjaldan. Ég tók klárlega eftir henni þar sem það var óvenju bjart og talsverður hiti.

Þið sem viljið sjá hana; leitið eftir glóandi hnetti. Það á að vera auðvelt að sjá hann ef það er ekki skýjað. Hérna er hægt að lesa nánar um þennan áhugaverða hnött.

miðvikudagur, 6. júní 2007

Í gær bilaði minn fyrsti og eini utanáliggjandi harður diskur (flakkari) en á honum hafði ég sett allt mitt stafræna efni til öryggis. Í dag fékk ég símtal frá viðgerðarstofunni sem seldi mér hann fyrir tveimur mánuðum síðan: hann er ónýtur og allt efnið sem á honum var glatað að eilífu.

Ég hef þá tapað öllum ljósmyndunum sem ég hef tekið (mörg þúsund), öllum skólagögnum frá háskólagöngu minni og öllu öðru sem ég hugsaði að væri öruggt á þessum flakkara.

Ég örvænti þó ekki.

Væri allt fólk sem ég hef umgengist síðustu ca 5 árin til í að hafa samband og að hitta mig til að setja allar glötuðu myndirnar upp á svið aftur? Ég man uppsetningarnar á þeim öllum meira eða minna.

Um helgina byrja ég svo á heimadæmunum fyrir 1. ár HR.

þriðjudagur, 5. júní 2007


Getraun dagsins er krossapróf:

Þessi mynd er tekin:

a) Að vetri til á Egilsstöðum.
b) Að sumri til í Reykjavík.
c) Í hausnum á mér.

1 stig fæst fyrir rétt svar. Mínus eitt fyrir rangt svar. Fyrir óútfyllt próf (ekkert komment) fást mínus 50 stig.
Komin er ný vara á markaðinn, eins og lesa má í þessari frétt. Varan veldur því, sé henni úðað yfir sig, að flass endurspeglast af þeim áúðaða og fyrir vikið sést ekkert af viðkomandi. Getur komið sér vel fyrir fræga fólkið sem verður fyrir aðkasti.

Soffía kom með snilldarhugmynd fyrir þessa vöru sem getur valdið því að ég verði milljónamæringur í framtíðinni. Núna get ég loksins setið nakinn fyrir hjá Playgirl eða hvað sem þessi konuklámrit heita. Ef ég bara úða þessu á mig áður sést ekkert af mér og ég veð í peningum í framhaldinu.

Klámbrasi, hér kem ég!

mánudagur, 4. júní 2007

Í dag mæli ég með eftirfarandi:

* Fréttasíðunni Austurlandid.is en Björgvin Gunnarsson, bróðir minn, var nýlega ráðinn ristjóri síðunnar. Glæsilegur árangur!

* Fjandinn.com síðu Jónasar en hann heldur opnaði nýlega þessa almennu grínsíðu sem fer stækkandi.

* Rauðhausar.com sem Esther rauðhærða gerði nýlega til að vekja athygli á sérstöðu rauðhærðra.

* Þessu lagi. Sérstaklega löngu útgáfunni af laginu. Sérstaklega í ræktinni eða á dansiböllum. Sérstaklega að öskra með, einn heima.. grátandi.

* Þessari tækni án þess að hafa prófað hana.

* Að smella á hlekkina hér að ofan.

laugardagur, 2. júní 2007

Í fréttum er/verður þetta helst:

* Ég hef náð að losa tölvuna mína við Vundo vírus/spyware (sami skítur) eftir ca mánaðar baráttu. Ef einhver hver gerði Vundo vírusinn þá má sá sami láta mig vita. Ég þarf að spjalla við hann yfir tebolla.

* Ef þið sjáið naut ráma um borgina á Peugeot 208 (Lalla Ljóni) seint í sumar þá ekki örvænta; það er bara ég eftir að hafa lyft í sumar. Ef ég endist.

* Ef einhver veit um starf á austurlandi sem borgar vel og felur ekki í sér sölu á sálu minni, látið mig vita (e-mailið er finnurtg@gmail.com).

* Þessi síða er að deyja smámsaman. Gestir, sem áður voru um 150 á dag, eru komnir niður í 30 á dag. Ástæðan er talin offramleiðsla á bloggi í heiminum. Of lítil eftirspurn eftir þessu bloggi gæti líka verið ástæðan.

* Soffía kemur úr 2ja vikna utanlandsferð á mánudaginn. Þá verð ég hamingjusamur aftur. Hún fer svo á þriðjudagsmorgunn austur á land að vinna. Þá verð ég óhamingjusamur aftur.

* Ef einhver hefur not fyrir ca 3ja ára fartölvu af gerðinni Medion með ónýta rafhlöðu og þarf að láta formatta, hafið samband. Hún fæst ódýr og taska fylgir.