mánudagur, 5. apríl 2004



1967-1994


Í dag eru 10 ár síðan lík Kurt Cobain fannst eftir að eiginkona hans, Courtney Love, lét myrða hann. Hans er og verður sárt saknað.

sunnudagur, 4. apríl 2004

Nýlega varð mér alvarlega á í messunni. Ég bað ykkur auðmjúklega að taka könnun fyrir þessa síðu í nítján liðum, til þess að auka vitneskju mína varðandi heimsækendur síðunnar, auk þess sem ég ætlaði að nota niðurstöðurnar í efni á síðunnar. Reyndar gekk ég svo langt að lofa ykkur niðurstöðum. Síðan rann könnunin og réttur minn til að kíkja a niðurstöðurnar út, degi áður en ég ætlaði að verka niðurstöðurnar og kemst ég ekki í þær nema ég greiði himinháa upphæð til glæpamannana sem reka síðuna. Ég biðst afsökunnar á óframkvæmanlegu loforði.

Nú spyr ég; mynduð þið vilja taka þátt í annarri, mun betri (, lengri) og skemmtilegri könnun ef ég lofa upp á augu barnabarna minna (komandi) að ég birti niðurstöðurnar hérna?

Smellið hér til að svara þeirri spurningu.
Ég mæli með eftirfarandi lögum þessa dagana. Ef þið viljið að ég setji eitthvað af þeim hérna inn fyrir ykkur að hlusta á, látið mig vita:

Miss you - Blink 182
Vera mátt góður - Hinn Íslenski Þursaflokkur
Christina the astonishing - Nick Cave & the bad seeds
Pumping on your sterio - Supergrass
Danger (high voltage) - Electric six + Jack White
Blue Hour - Turin Breaks

Ef þið smellið á titilinn fáið þið texta viðkomandi lags, nema ef þið smellið á lagið vera mátt góður, þá fáið þið lagið sem er örstutt. Varið ykkur þó, mikið af pop-up gluggum fylgja sumum textunum.

laugardagur, 3. apríl 2004

Mig hefur aldrei langað jafnmikið að vera alvarlega rangeygður til vinstri en áðan þegar ein fegursta stúlka sem ég hef augum litið settist á ská við mig í mötuneytinu á meðan ég tefldi.

Fjandinn hafi þig Háskóli Reykjavíkur fyrir of fagurt kvenfólk, fjandinn hafi þig!
Það lítur út fyrir að Metallica sé að koma til landsins. Ég gríp inn í mbl.is þar sem segir að "Her starfsmanna komi með sveitinni og um 60 tonn af sviðsbúnaði." Auk þess var sagt í fréttablaðinu að aðilar hérlendis þurfi að kaupa reiðinnar býsn af hlutum til að koma til móts við kröfur hljómsveitarinnar.

Miðinn kostar aðeins 55.000 krónur.

föstudagur, 2. apríl 2004

Ég er hérmeð opinberlega kominn með nógu mikið hár til þess að villimenn og hálfvitar landsins geti byrjað að öskra "Farðu í klippingu!" þegar þeir sjá mig.
Það gleður mig að tilkynna að ég er kominn með vinnu og herbergi fyrir sumarið. Ég mun vinna á skattstofunni aftur þar sem ég mun vonandi slá inn tölur og slá garðinn á milli þess sem ég mun slá meðleigendur mína í rot en þeir verða Garðar, Bergvin og Gylfi. Þar að auki mun ég slá mér upp með hinum og þessum stúlkum eftir að hafa slegið þeim gullhamra og slegið um mig með fríðu föruneyti vina.
Það þýðir samt ekki að láta þessar fréttir slá sig út af laginu og slá próflestrinum á frest, ekki ef ég ætla að slá í gegn á prófunum því ef ég slæ slöku við verð ég sleginn út úr skólanum og þarf að öllum líkindum að slá um peninga í bankastofnunum landsins.
Pabbi, mamma, Björgvin bróðir, Helgi bróðir, Gylfi, Bergvin og Jökull eru að öllum líkindum að koma til Reykjavíkur í dag til að vera yfir helgina eða lengur. Fyrir venjulegan mann væri þetta frábært en ég þarf að læra fyrir lokapróf í þjóðhagfræði sem er á þriðjudaginn þannig að ég get lítið hitt mannskapinn. Dæmigert.
Ætli það sé ekki best að tilkynna aprílgabb gærdagsins sem snérist um að ég væri ekki með bólu á nefinu. Þeir hundruðir sem hlupu apríl í skólanum urðu mjög vandræðalegir þegar ég tilkynnti þeim að þetta hafi bara verið aprílgabb, eftir að þau litu á nefið á mér sem var alls ekki bólulaust.

fimmtudagur, 1. apríl 2004



Fyrir fíflin sem halda þessu alltaf fram.


Þýðing: Mundu alltaf að þú ert einstakur. Alveg eins og allir aðrir.
Það er óskráð regla hérna í skólanum að halda hurð opinni fyrir næstu manneskju sem kemur á eftir eða á móti en hurðirnar lokast sjálfkrafa eins og frægt er orðið og það þarf aðgangskort til að opna þær.
Ég ætlaði heldur betur að slá í gegn í gær þegar ég sá föngulega stelpu koma skokkandi úr talsverðri fjarlægð til að ná hurðinni þar sem ég gekk í gegnum dyr á fjórðu hæð. Hugðist ég ýta hurðinni talsvert opinni svo allt í senn gæti ég gengið áfram, opnað fyrir hana hurðina (og þarmeð fengið nokkur stig í kladdanum hennar) og verið frekar svalur í fyrsta skipti. Það gekk vægast sagt illa. Ég ýtti við hurðinni en þar sem hún var frekar stíf og ég frekar léttur ýtti ég sjálfum mér frá hurðinni. Til að bjarga andliti gekk ég bara áfram og heyrði hana andvarpa um leið og hún þurfti að opna hurðina sjálf. Frekar vandræðalegt.
Í dag er ég ekki með bólu á nefinu. Allir sem vilja sjá mig ekki með bólu á nefinu, kíkið á mig í dag.