mánudagur, 2. ágúst 2010

Kenning Einstein næstum sönnuð

Einstein í góðum gír.
Einstein kom með sína djörfustu kenningu rétt fyrir andlát sitt árið 1955. Kenningin hefur þó aldrei verið sönnuð með óyggjandi hætti.

Þau undur og stórmerki áttu sér svo stað í gær að ég varð vitni að einhverju sem hefði getað sannað þessa umræddu kenningu, ef ég hefði verið með myndavél á mér.

Ég var keyrandi á Nýbýlavegi þegar atvikið átti sér stað. Svo undrandi varð ég að ég stoppaði bílinn, fór út og benti öskrandi. Skömmu síðar stoppuðu aðrir bílar og bílstjórar stigu út, gapandi í forundran. Hið ómögulega hafði gerst.

Eftir nokkrar mínútur af faðmlögum og óendanlegri hamingju yfir þessari vísbendingu um að mannkynið sé ekki dauðadæmt, settumst við, vitnin, í bílana og ókum af stað með hamingjutárin í augunum.

Kenning Einstein, ef ég man rétt, var eitthvað á þessa leið:

„Jeppabílstjórar geta og munu einn daginn gefa stefnuljós í hringtorgum eins og venjulegt fólk.“

Jeppinn sem gaf stefnuljós í hringtorgi á Nýbýlaveginum er beðinn um að hafa samband við Alþjóðleg samtök vísindamanna í Sviss.

2 ummæli:

  1. Heyrðu ég var að tala við frænda minn í símann áðan. Hann var víst að keyra þennan jeppa. Þetta var óvart hann rak hendina í stöngina þegar hann var að beyja á jeppanum. Því miður.

    SvaraEyða
  2. Svo virðist sem að þeir hafi þá líkamlega burði til að gefa stefnuljós. Það er breakthrough.

    SvaraEyða

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.