miðvikudagur, 27. mars 2013

Hálskirtlataka

Ég losaði mig nýlega við hálskirtlana með smá hjálp frá uppskurðarteymi á handlæknastöðinni. Nú get ég ekkert borðað nema það sé nánast í fljótandi formi og að ég hafi tekið nokkrar verkjatöflur áður.

Fyrsta morguninn eftir aðgerðina vaknaði ég sárkvalinn og sársvangur, svo ég fann verkjatöflurnar. Á þeim stendur, orðrétt "GLEYPIST! TAKIST MEÐ MAT".

1. Gleypist? En ekki hvað? Stendur eitthvað í læknaskýrslunni minni um að ég noti töflur öðruvísi?
2. Ég get ekki borðað nema ég taki verkjatöflur áður. En ég má ekki taka verkjatöflur nema ég hafi borðað áður.
3. Ég verð því að beita öðrum aðferðum til að koma þessum verkjatöflum í líkamann.

Annars gekk aðgerðin vel og ég er allur að koma til. Til að auðvelda fólki, sem á eftir að fara í svona aðgerð, að finna eitthvað um þetta ferli þá er hér lýsing mín:

1. Fasta frá miðnætti þar til aðgerðin fer fram. Ekki einu sinni drekka vatn. Í mínu tilviki fór hún fram kl 8:45 á Handlæknastöðinni í Glæsibæ.
2. Tilkynna komu og fá sér sæti. Fara úr úlpu og skóm við afgreiðslu og taka öll verðmæti með sér.
3. Fara inn með hjúkrunarfræðingi í lítið herbergi. Svara nokkrum spurningum um heilsuna og lyfjatöku.
4. Afklæðast í einrúmi og fá slopp, sokka og buxur til að fara í ásamt hárneti. Í mínu tilviki fékk ég bara slopp, sem varð svo að mini pilsi, þar sem buxurnar pössuðu ekki.
5. Taka tvær sterkar verkjatöflur með eins litlu vatni og hægt er.
6. Ganga inn með hjúkrunarfræðingi í aðgerðarstofuna. Leggjast á bekkinn.
7. Ræða við svæfingalæknirinn um heilsu og annað sem getur skipt máli í aðgerð.
8. Nál stungið í hendina og verkjalyfjum dælt í æð.
9. Háls-, nef- og eyrnalæknirinn kemur inn og heilsar.
10. Ég er spurður hvort ekki sé allt í lagi. Herbergið hringsnýst vegna verkjalyfja.
11. Svæfingalæknirinn segist nú ætla að dæla svefnlyfinu í æð. Ég steinsofna áður en hann nær að klára setninguna.
12. Vakna á stofu tveimur tímum síðar. Mjög dasaður. Ekki ósvipað þessari senu. Ca 10 rúm saman í herbergi aðskilin af tjöldum einhverskonar. Ég finn fyrir sársauka í hálsi og að tungan sé mjög aum.
13. Hjúkrunarfræðingur kemur og spyrt hvort ekki sé allt í lagi. Býður mér svo vatn.
14. Tveir eða þrír hjúkrunarfræðingar kíkja á mig og spyrja hvort ekki sé allt í lagi. Einn býður mér ísklaka og lætur mig fá smá bækling um hálskirtatöku og við hverju megi búast næstu daga.
15. Ég spyr út í tunguna og hún segir að við aðgerina þarf að troða allskonar dóti í munninn, svo það sé skiljanlegt ef tungan sé aum.
16. Ca klukkutíma síðar fæ ég fötin mín og verðmæti og mér sagt að mér sé óhætt að hringja og láta sækja mig, sem ég geri.
17. Ég klæði mig og borða ís og hlusta á táning í næsta rúmi láta eins og 5 ára krakkafífl, nýkominn úr sömu aðgerð og ég.
18. Hálftíma síðar rölti ég fram með aðstoð hjúkrunarfræðings til vinar míns og út í bíl. Þaðan fer ég í verslun og svo heim, þar sem ég sofna.

Nú, nokkrum dögum síðar, er sársaukinn enn talsverður en hefur þó minnkað eitthvað. Eftir viku verð ég svo vonandi farinn að spranga um bæinn, hálskirtlalaus eins og fína fólkið.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.