Nýjustu fréttir
1. Nýtt barn í ættinni
Nýlega fæddi Kolla systir sér og manni sínum son, þremur vikum fyrir tímann. Móður og barni heilsast vel. Þetta stækkar ættina umtalsvert og eiga nú foreldrar mínir sex barnabörn. Ekki amalegt.
Uppfært ættartré:
2. Veikindi
Fyrir um mánuði fékk ég einhverskonar flensu. Þegar henni lauk tók líkaminn minn upp á því að fá aðra flensu, sem ég er staddur í núna. Ég á bara eftir að snýta úr mér bláum lit til að vera kominn með allt litrófið. Ég geri ráð fyrir að þá láti hún sig hverfa.
3. Minnst spennandi
Ég er ekki sá eini í minni fjölskyldu sem er veikur. Bíllinn minn greindist nýlega með ónýtan rafgeymi. Það olli því að ég lét út úr mér minnst spennandi setningu allra tíma við vinkonu mína: „Ég ætla að skjótast í Hafnarfjörð að skoða rafgeyma“, sem ég gerði og greiddi litlar 20.000 krónur fyrir. Í dag er Peugeot-inn minn einn besti bíll landsins.
4. Tíu ára afmæli
Þetta blogg átti víst tíu ára afmæli í byrjun október. Þegar ég hóf skrif á þessari síðu vann ég annað hvort á Skattstofu Austurlands eða á Heilsugæslunni á Egilsstöðum, var einhleypur og barnlaus og átti bíl sem var drasl.
Núna vinn ég hjá 365, er einhleypur og barnlaus og á bíl sem er drasl. Annað hefur ekki breyst.
Þar með lýkur 10 ára afmælishátíð síðunnar.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.