laugardagur, 25. ágúst 2012

Yumyum


Í gærkvöldi prófaði ég núðluréttinn YumYum með kjötbragði. Aldrei á ævinni hef ég komist í tæri við jafn hræðilegt gervibragð og af viðbjóðskjöthlaupinu sem fylgdi með. En ég kláraði það samt, þar sem ég átti ekkert annað að borða.

Um leið og ég hafði lokið við réttinn fór ég á klósetið og reyndi að kasta honum upp, slík var ógleðin. Það tókst ekki þar sem ég er orðinn ryðgaður í búlemíuleiknum.

Eftir að hafa tannburstað mig í korter til að losna við óbragðið reyndi ég að sofna. Það gekk erfiðlega þar sem líkami minn virtist vera að neita þessari máltíð. Þegar ég svo loksins sofnaði dreymdi mig stökkbreyttar hrossaflugur að ráðast á mig.

Í morgun vaknaði ég of seinn í vinnuna og með hárið í allar áttir, þökk sé núðlunum. Í vinnunni náði ég ekki að klára frekar stórt skjal, þar sem ég þurfti að koma við í apóteki áður en ég færi heim. Takk núðlur.

Í apótekinu sá sæta afgreiðslustelpan mig ekki, þrátt fyrir að ég stæði uppréttur í ca 10 metra fjarlægð og hugsaði mjög fallega til hennar, þökk sé núðlunum.

Nú, sólarhringi síðar er ég enn að sjá afleiðingar núðluátsins, þar sem ég rak tánna í kommóðu áðan. Það var ekki svo vont. En samt.

Ég kvíði mikið fyrir næstu körfuboltaæfingu á mánudaginn. Ef ég stend mig illa þá eru áhrif núðlanna enn í líkama mínum. Ég er allavega löglega afsakaður.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.