föstudagur, 17. maí 2013

Dagadrif

Hér eru nokkrar smásögur um það sem hefur á daga mína drifið undanfarið.

1. Jarðskjálftafögnuður
Í gær steinsofnaði ég í sófanum heima eftir vinnu. Einhverntíman á milli þess sem ég sofnaði og vaknaðiendanlega rumskaði ég við mikinn dink, öskur og læti í næstu íbúðum. Ég hélt að þetta væri bara stórkostlegur jarðskjálfti og hélt áfram að sofa. Það var ekki fyrr en ég vaknaði að ég áttaði mig á því að Ísland hafi komist áfram í Eurovision sem var í gangi fyrr um kvöldið.

Þetta er þá í annað skiptið sem ég lofa að éta af mér hendurnar ef Ísland fær eitt stig í Eurovision. Fyrra skiptið var þegar Jóhanna Guðrún varð í öðru sæti með Is it true.

2. Flutningur
Þessa dagana og vikurnar (og árin) standa yfir flutningar í vinnunni hjá mér. Þetta er í sjöunda sinn sem ég er fluttur um set á þeim sjö árum sem ég hef unnið hjá fyrirtækinu. Hér eftir ætla ég að prófa að ganga með rótsterkt ilmvatn og ögn meira af svitalyktaeyði og sjá hvort flutningunum fækki. Einnig ætla ég að hætta að brosa. Það ætti að minnka óhuggulegheitin.

3. Gafflahvarf
Síðustliðið ár hafa tveir af sex göflum mínum horfið sporlaust. Þetta hefur víðtækar afleiðingar. Þar á meðal að ég þarf að vaska upp mun oftar en áður, sem myndi snarlækka lífsgæði mín ef ég væri ekki með afnot af uppþvottavél.

Það sem er verra er að ég get nú með engu móti boðið fjórburum á stefnumót í heimahúsi, þar sem slík stefumót fela yfirleitt í sér neyslu á mat. Ég gæti reyndar boðið þeim í súpu þar sem ég á sex skeiðar, en að bjóða heim í súpu gæti hljómað frekar drullusokkalegt af mér. Þess vegna er ég einhleypur.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.