mánudagur, 27. maí 2013

Undarlegir atburðir

Hér eru nokkrir óútskýranlegir hlutir sem ég hef upplifað síðustu rúmu vikuna:

SMS sending
Á laugardaginn síðasta læsti ég símanum og setti í vasann áður en ég hóf för mína á Álftanes, þar sem ég spila körfubolta. Þegar þangað var komið hafði eftirfarandi gerst í vasanum á buxunum mínum:

  1. Síminn aflæstist.
  2. Ég hafði opnað SMS sendingar, sem ég geri nánast aldrei þar sem ég hata að skrifa sms.
  3. Ég hafði opnað skilaboð frá vini mínum Ara.
  4. Ég hafði skrifað skilaboðin "Evu" og sent.

Ég hef orðið fyrir vasahringingum, þar sem fólk hringir í mig óvart með því að reka sig í takka í buxnavasanum en að ná að senda sms er full mikið. Í bónus þá hafði ég opnað uppsetninguna á lyklaborðinu og breytt því í eitthvað allt annað, sem ég náði að laga eftir ca hálftíma fikt.

Snapp
Á æfingunni eftir þessa SMS tók ég mig til og ýtti manni eftir að ég taldi að brotið hafði verið á mér. Ekki aðeins var ekki brotið á mér heldur er náunginn sem ég ýtti við einn sjá ljúfasti í bransanum og átti þetta ekki skilið. Þetta er ennfremur í fyrsta skiptið sem ég snappa svona illilega af engri sjáanlegri ástæðu. Bið ég sveitarfélagið Álftanes og þá sem urðu vitni að þessum ósköpum, afsökunnar á þessum persónuleikabrestum og vil ég gjarnan halda því fram að þetta muni ekki koma fyrir aftur.

Eurovision keppni
Á laugardaginn síðasta fór ég til Björgvins bróðir og ætlaði að horfa á úrslit Eurovision með þeim hjónum og vini mínum. Þegar þangað var komið mundi ég að ég er mamma, prins og íþróttaálfurinn á víxl hjá Valeríu Dögg, rúmlega tveggja og hálfs ára frænku minni, svo ég var of upptekinn til að horfa.  Ég heyrði alls um þrjú lög þetta kvöld en spáði samt fyrir um topp tíu sætin, ásamt botnsætið og endanlega stöðu Íslands.

Ég stóð svo uppi sem sigurvegari, öllum að óvörum. Ég held að þetta sé eins nálægt og hægt verður komist því að vera kallaður sjáandi. Nema ég svindla ekki á syrgjandi fólki. Bara Eurovision áhorfendum. Nánast sami hluturinn.

föstudagur, 17. maí 2013

Dagadrif

Hér eru nokkrar smásögur um það sem hefur á daga mína drifið undanfarið.

1. Jarðskjálftafögnuður
Í gær steinsofnaði ég í sófanum heima eftir vinnu. Einhverntíman á milli þess sem ég sofnaði og vaknaðiendanlega rumskaði ég við mikinn dink, öskur og læti í næstu íbúðum. Ég hélt að þetta væri bara stórkostlegur jarðskjálfti og hélt áfram að sofa. Það var ekki fyrr en ég vaknaði að ég áttaði mig á því að Ísland hafi komist áfram í Eurovision sem var í gangi fyrr um kvöldið.

Þetta er þá í annað skiptið sem ég lofa að éta af mér hendurnar ef Ísland fær eitt stig í Eurovision. Fyrra skiptið var þegar Jóhanna Guðrún varð í öðru sæti með Is it true.

2. Flutningur
Þessa dagana og vikurnar (og árin) standa yfir flutningar í vinnunni hjá mér. Þetta er í sjöunda sinn sem ég er fluttur um set á þeim sjö árum sem ég hef unnið hjá fyrirtækinu. Hér eftir ætla ég að prófa að ganga með rótsterkt ilmvatn og ögn meira af svitalyktaeyði og sjá hvort flutningunum fækki. Einnig ætla ég að hætta að brosa. Það ætti að minnka óhuggulegheitin.

3. Gafflahvarf
Síðustliðið ár hafa tveir af sex göflum mínum horfið sporlaust. Þetta hefur víðtækar afleiðingar. Þar á meðal að ég þarf að vaska upp mun oftar en áður, sem myndi snarlækka lífsgæði mín ef ég væri ekki með afnot af uppþvottavél.

Það sem er verra er að ég get nú með engu móti boðið fjórburum á stefnumót í heimahúsi, þar sem slík stefumót fela yfirleitt í sér neyslu á mat. Ég gæti reyndar boðið þeim í súpu þar sem ég á sex skeiðar, en að bjóða heim í súpu gæti hljómað frekar drullusokkalegt af mér. Þess vegna er ég einhleypur.

mánudagur, 13. maí 2013

Klappstýra vikunnar

Vefsíða Sport Illustrated virðist halda að klappstýrur séu merkilegri en ég, þar sem þeir taka bara viðtöl við þær í liðnum sínum "Klappstýra vikunnar" (Ens.: Cheerleader of the week) sem ég rakst á á netinu fyrir... tilviljun.

Eins og svo oft áður hafa þeir rétt fyrir sér en ég ætla samt að svara þessum spurningum. Það má því segja að ég sé klappstýra vikunnar á minni eigin síðu. Spurningar eru þýddar af ritstjóra og elskhuga mínum, mér.

Heimabær
Ég bý í Kópavogi. Er upphaflega frá Fellabæ við Egilsstaði. Eða Trékyllisvík. Eða Hallormsstað. Eða Hafnarfirði. Eða Reykjavík.

Menntaskóli/Háskóli
Menntaskólinn á Egilsstöðum og Háskólinn í Reykjavík.

Námsbraut
Hagfræðibraut í Menntaskóla og Viðskiptafræði í Háskóla. Ekki að ástæðulausu að ég var kosinn mest spennandi karakterinn... aldrei.

Það kæmi vinum mínum á óvart að vita að ég...
...borðaði ekkert nammi í kvöld, fyrir utan nokkur súkkulaði og kók glas.

Ef þú sæir lista yfir mest spiluðu lög tónlistarspilara þíns, myndirðu sjá mikið af...
Daft Punk, Sirius Mo, Gylfa Ægis og Nirvana.

Ef ég yrði að horfa á eina kvikmynd eða einn sjónvarpsþátt aftur og aftur þá yrði það...
Líklega Seven ef það væri bíómynd og fyrsta serían af Dexter ef þáttur.

Svalasti eltihrellir minn á Twitter
Nói Siríus.

Vandræðalegasta upplifun mín á leik
Eitt sinn tók ég víti í körfuboltaleik og þegar boltinn skoppaði á hringnum öskraði ég að hann ætti að drullast ofan í körfuna og að hann væri helvítis tussa. Þegar ég snéri mér við sá ég að áhorfendabekkirnir voru smekkfullir af börnum á aldrinum 5-10 ára. Nokkur börnin voru grátandi (vona ég).

Mitt vesta stefnumót
Sá leiðinlegustu bíómynd allra tíma nokkuð nýlega í bíó, þó það hafi ekki bitnað á kvöldinu. Ég ætla amk ekki að nefna stefnumótið sem endaði með óstöðvandi niðurgangi.

Þrennt sem ég vil gera áður en ég dey?
Vera skuldlaus, prófa eiturlyf (í hárri elli) og segja nei við einhvern einhverntíman.

Uppáhaldsvefsíður og/eða blogg
Reddit er uppáhalds síðan. Ég á mér ekki uppáhalds blogg lengur. Flestir bloggarar sem ég hef nefnt mína uppáhalds hafa hætt störfum. Ef ég nefni blogg núna mun ég líklega valda dauða þess.

Uppáhaldsfólkið sem ég eltihrelli á Twitter
Enginn sérstakur. Ef mér yrði hótað barsmíðum ef ég veldi engan þá myndi ég líklega velja bara... Paul Rust?

Eftirlætis símasmáforrit mitt
Instagram, Sleepbot eða Whatsapp.

Sú fræga manneskja sem ég er hvað hrifnastur af
Hef alltaf verið pínu veikur fyrir Tinu Turner.

Þrjár manneskjur sem ég vil borða kvöldmat með (lifandi eða dauðar)
Ég hefði verið til í að kynnast afa mínum í föðurætt og ömmu í móðurætt, sem dóu áður en ég fæddist. Helst lifandi. Og svo auðvitað Tina Turner.

Minn versti ávani
Ég naga neglur. Sem betur fer bara mínar eigin. Ennþá.

Sá hæfileiki sem ég vildi mest að ég byggi yfir
Að elda mat. Eða gera við bíla. Eða gera við mat. Og borða mat.

Mitt uppáhalds atvinnu íþróttalið
Utah Jazz. Eina atvinnulið sem ég fylgist með.

Ein af mínum sakbitnu ánægjum (ens.: Guilty pleasure)
Að finna spurningalista á netinu og svara þeim sjálfur.

Ég myndi vilja að mín síðasta máltíð yrði...
LSD töflur.