1. Áfengissýki
Í morgun lauk ég við mína fyrstu flösku af dönskum brjóstdropum, sem ég keypti fyrir sex vikum og hef drukkið eins og stjórnlaus alkóhólisti kvölds og morgna til að losna við, að því er virðist, krónískt kvef. Ekki nóg með að þetta áfengisævintýri mitt hafi rústað á mér bragðlaukunum svo illa að ég borðaði Risa Hraun með hálfum hug í morgun (og í hádeginu og kvöldmat), heldur fékk ég áfengistremma og verk í lifrina þegar ég fékk ekki skammtinn minn af dropunum í kvöld. Á móti kemur að ég hef náð að minnka horrennsli um 3%. Vel þess virði.
2. Nafn á nýjan frænda
Kolla systir og Árni Már, spúsi hennar, skírðu son sinn í dag og varð nafnið Valmundur Pétur fyrir valinu, sem gerir barnið að alnafna afa síns. Ég mætti ekki í skírnina, sem fram fór á Akureyri, vegna ólæknandi kvefs (sjá að ofan) og vegna fregna um að ekkert Risa hraun yrði á boðstólnum í veislunni. Ég lofa að taka mér frí einhverntíman fljótlega og bæta þeim þetta upp.
3. Samtal við Valeríu Dögg
Nýlega passaði ég Valeríu Dögg, rúmlega 2ja ára bróðurdóttir mína þegar við heyrðum í flugeldum. Þar sem hún er mikill aðdáandi flugelda hoppuðum við út í glugga, þar sem við hvorki sáum né heyrðum í flugeldum:
Ég: Eigum við að prófa að kalla á flugeldana? Athuga hvort þeir komi ekki?
Valería: Já!
Ég: Flugeldar! Hvar eruði?
Valería með mjög skrækri röddu, að þykjast vera flugeldur: Við erum hérna.
Ég: Ætliði ekki að koma að springa?
Valería: Jú, við erum alveg að koma.
Ég: Hvað eruði að gera?
Valería: Bara... að vaska upp.
Ég held ég hafi aldrei hlegið jafn mikið að einhverju sem barn hefur sagt, hvað þá rúmlega 2ja ára gamalt barn.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.