þriðjudagur, 18. desember 2012

Lykillinn að hamingju

Ég var að sjá að einhver Googlaði "Lykillinn að hamingju" og komst á þessa síðu.

Aldrei nokkurntíman hefur neinn verið á jafn röngum stað á internetinu og þessi aðili.

Ég vona að hann hafi ekki tekið neitt alvarlega sem er skrifað á þessa síðu. Og ef hann gerði það, að hann hafi ekki farið sér að voða.

þriðjudagur, 11. desember 2012

Danskir brjóstdropar

Mér finnst alltaf jafn ótrúlegt til þess að hugsa að enn sé ekki til almennileg og fljótvirk lækning við kvefi eða flensu. Það er þó ekkert miðað við undrun mína þegar örvænting greip um sig í gærkvöldi og ég keypti, og drakk, danska brjóstdropa í fyrsta sinn.

Hvernig í ósköpunum tókst vísindamönnunum sem gerðu þetta að búa til svona vont bragð? Ef ég ætti að lýsa því myndi ég segja að þeir bragðist eins og illska og möglega lakkrís með keim af samviskubiti í eftirbragð.

Nú þarf ég bara að skoða hvort það sé betra að blanda þá í kók eða í appelsínusafa og ég mun ná heilsu aftur, eða amk hætta að hósta í hvert sinn sem ég tala upphátt (ca þrisvar á dag).

Viðbót: Var að komast að því að það minnkar eftirbragðið talsvert að rífa nögl af fingri annarar handar, þó ekki nema í nokkrar sekúndur á meðan öskrað er úr sársauka. Vel þess virði.

sunnudagur, 9. desember 2012

Flensutölfræði

Í dag er runninn upp flensudagur minn númer tólf. Á þeim tíma hef ég misst af eða tapað:

  • Fimm körfuboltaæfingum.
  • Sex ræktarferðum.
  • Fjórum bíóferðum.
  • Tveimur matarboðum.
  • Þremur fullum vinnudögum.
  • Fimm vinnudögum á fullum afköstum.
  • Fjórtán rúllum af snýtipappír.
Og nú þessum sunnudegi, þar sem ég var að vakna um klukkan 18 eftir að hafa hóstað alla nóttina.

En ég hef líka grætt á þessari flensu:
  • Tvö kíló af fitu.
  • 75 kg af andlegri fitu.
  • Hálfan tank af bensíni sem annars hefði verið notaður í að gera eitthvað.
Svo ég kem út á sléttu eftir þessa flensu, þeas ef hún endar einhverntíman.

miðvikudagur, 5. desember 2012

10 ára afmæli

Nýjustu fréttir

1. Nýtt barn í ættinni
Nýlega fæddi Kolla systir sér og manni sínum son, þremur vikum fyrir tímann. Móður og barni heilsast vel. Þetta stækkar ættina umtalsvert og eiga nú foreldrar mínir sex barnabörn. Ekki amalegt.

Uppfært ættartré:

2. Veikindi
Fyrir um mánuði fékk ég einhverskonar flensu. Þegar henni lauk tók líkaminn minn upp á því að fá aðra flensu, sem ég er staddur í núna. Ég á bara eftir að snýta úr mér bláum lit til að vera kominn með allt litrófið. Ég geri ráð fyrir að þá láti hún sig hverfa.

3. Minnst spennandi
Ég er ekki sá eini í minni fjölskyldu sem er veikur. Bíllinn minn greindist nýlega með ónýtan rafgeymi. Það olli því að ég lét út úr mér minnst spennandi setningu allra tíma við vinkonu mína: „Ég ætla að skjótast í Hafnarfjörð að skoða rafgeyma“, sem ég gerði og greiddi litlar 20.000 krónur fyrir. Í dag er Peugeot-inn minn einn besti bíll landsins.

4. Tíu ára afmæli
Þetta blogg átti víst tíu ára afmæli í byrjun október. Þegar ég hóf skrif á þessari síðu vann ég annað hvort á Skattstofu Austurlands eða á Heilsugæslunni á Egilsstöðum, var einhleypur og barnlaus og átti bíl sem var drasl.

Núna vinn ég hjá 365, er einhleypur og barnlaus og á bíl sem er drasl. Annað hefur ekki breyst.

Þar með lýkur 10 ára afmælishátíð síðunnar.