Margt skemmtilegt hefur átt sér stað síðasta sólarhringinn í samtölum mínum við fólk.
1. Che Guevara
Í gærkvöldi fór ég í bíó með vini mínum, Ara. En áður en ég fór í bíó kíkti ég í heimsókn til Björgvins, bróður míns. Þegar tími bíósins var að renna upp sagði ég hátt og snjallt „Jæja, ég ætla að Che Guevara/tékk'á Ara“. Það er skemmst frá því að segja að við bræðurnir veltumst um af hlátri, svo lengi að ég varð næstum of seinn í bíó.
2. Þriðjudagur
Þegar kom að mér í bíóröðinni átti eftirfarandi samtal sér stað.
Ég: Einn miða á Safe House.
A(fgreiðsludama): Það verða 800 krónur?
Ég: 800 krónur? Búið að lækka verðið? *rétti kortið*
A: *rennir kortinu í gegn* Nei, það er ódýrara á þriðjudögum.
Ég: Er þriðju... JESÚS KRISTUR! HVAÐ HEF ÉG GERT!
A: Gjörðu svo vel. *réttir mér kortið og miðann*
Ég: TAKK! *Geng í burtu, sótsvartur í framan af viðbjóði*.
Á þriðjudögum er ódýrara í bíó sem þýðir að fólk sem alla jafna fer ekki í bíó gerir sér ferð. Fólk sem fer sjaldan í bíó er í flestum tilvikum óuppaldir villimenn sem vita ekki hvernig á að haga sér í bíó, t.d. með því að senda sms skilaboð allan tímann eða tala saman eins og þeir séu á kaffihúsi á meðan á mynd stendur. Ég hét því fyrir nokkrum árum að fara aldrei í bíó á þriðjudögum.
Sem betur fer var harðhausamyndin Svartur á leik sýnd á sama tíma, svo það var fámennt á Safe House, sem var nokkuð góð þrátt fyrir Denzel 'Alltaf-sami-karakter' Washington. 2,5 stjörnur af 4.
3. Hjá lækni
Þau undur og stórmerki áttu sér stað að ég fékk tíma samdægurs hjá heimilislækni í dag vegna þess að ég hafði grátið stanslaust síðasta sólarhringinn með vinstra auganu. Þar lét ég þessa setningu falla: „Ég er með mjög þröng táragöng. Það segja það allir“, áður en læknirinn stakk risavaxinni nál í umrædd táragöng mér til martreðslu.
Til lengri tíma litið á það að stoppa grátinn.
Á þessum tímapunkti finnst mér rétt að viðurkenna að þetta eru ekki áhugaverðustu samtöl mín við annað fólk í dag, heldur ca helmingur þeirra, valin af handahófi.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.