Hér eru nokkrar örsmásögur úr mínu lífi.
1. Fjölskyldan stækkar
Laugardaginn 12. febrúar síðastliðinn eignaðist ég mitt fyrsta Excel 2010. Forriti og tölvu heilsast vel. Ég set inn myndir af prinsessunni á barnaland seinna, þegar ég hef jafnað mig á mesta sjokkinu. Það er rétt það sem fólk segir; þetta er besta tilfinning í heimi, þó að ég sofi ekki mikið næstu vikurnar og mánuðina.
2. Black Deliah
Í ræktinni í kvöld sá ég brot úr myndinni The Black Dahlia (Ísl.: Grámosinn Glóir). Á þeim 20 mínútum sem ég entist sá ég að myndin fjallar um keðjureykingar og ólíkar aðferðir við þær. Ennfremur er lítillega fjallað um eitthvað andlát, sennilega úr óbeinum reykingum. Svo er Scarlett Johansson þarna. Mæli með henni. Ekki myndinni.
3. Mont
Ég fór til tannlæknis um daginn og fékk að vita að ég er með óskemmdar tennur. Það eitt og sér finnst mér ástæða til að monta mig, en staðreyndin er sú að ég borða þyngd mína í nammi vikulega, sem gerir þetta enn merkilegra.
Það borgar sig semsagt að tannbursta sig nokkrum sinnum á dag og hafa notað tannþráð hvert einasta kvöld frá 10 ára aldri, þó það fæli frá maka, elskhuga, viðhöld og aðra sem láta tannþráðs ískrið fara í taugarnar á sér.
4. Þroski
Ég áttaði mig á því hversu þroskaður ég er orðinn, 32ja ára gamall, þegar ég gat ómögulega sofið lengur en til klukkan 16 í gærmorgunn. Ef svefnvenjur endurspegla þroska þá er ég enn á leikskólaaldri andlega.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.