Það sem af er ári hef ég þrisvar farið í bíó eða 1,2 sinnum á viku. Það gera tæplega 61 bíóferð yfir árið ef fer fram sem horfir. Segjum svo að miðaverðið haldist í 1.150 krónum og að ég fari ekki á eina einustu 3D sýningu (sem ég stefni á) eða í VIP sal, þá munu bíóferðir kosta mig rétt um 70.000 krónur á árinu.
Það er mjög vel sloppið, ef litið er til þess að þetta er eina fíknin mín (ef Risahraun og heróín eru ekki talin með).
Allavega, hér að neðan eru dómar mínir um umræddar myndir:
1. The Next Three Days
Maður missir konu sína í fangelsi og upp hefst barátta fyrir frelsi hennar með sprenghlægilegum afleiðingum, ca.
Sá þessa mynd tækilega séð (og raunverulega) á síðasta ári, en mér er sama. Myndin er virkilega góð. Hún er vel leikin, sagan er góð og hún inniheldur mörg mjög góð og grípandi atriði. Mæli mjög með þessari.
3,5 stjörnur af fjórum.
2. Klovn the movie
Frank vill sanna fyrir kærustu sinni að hann geti höndlað föðurhlutverkið með því að ræna ungum frænda sínum og fara með honum í kajakferð með Casper með sprenghlægilegum afleiðingum.
Ég hef sjaldan hlegið jafn hátt og digurbarkalega í bíói. Myndin fer langt yfir strikið, sem mér finnst gott þar sem ég afnam öll strik í gríni skömmu eftir ég ákvað að gerast siðblindur. Frábær mynd.
3,5 stjörnur af fjórum.
3. Hereafter
Nokkrar sögur:
1. Miðill á erfitt með að tengjast fólki af því hann getur talað við drauga með sprenghlægilegum afleiðingum.
2. Kona deyr næstum og verður skrítin með sprenghlægilegum afleiðingum.
3. Krakkaógeð missir tvíburabróður sinn og væflast um á ósannfærandi hátt með sprenghlægilegum afleiðingum.
Ekki aðeins er söguþráðurinn drepleiðinlegur, hægur og fáránlegur heldur leikur krakkafíflið svo leiðinlega að ég átti erfitt með að hemja mig. Virkilega ömurleg mynd.
Hálf stjarna af fjórum.
4. The Tourist
Einhver kona sem fylgst er með reynir að dreifa athygli eltenda sinna með því að fara í sleik við túrista, sem lítur út eins og Johnny Depp, með sprenghlægilegum afleiðingum.
Ágætis afþreying í besta falli. Mér var sama um aðalhetjurnar, sem segir sennilega meira um mig og mína afbrýðisemi út í fallegt fólk en myndina.
Tvær stjörnur af fjórum.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.