Við lestur á síðasta blaði tók ég eftir að þar var ekkert viðtal við mig, eins og næstum alltaf. Ég held því áfram að svara spurningum blaða, án þess að vera spurður, hér á síðunni.
Svona myndi ég svara spurningunum:
Mögulega fallegasta hönnun sögunnar: Subaru Justy. |
Ég væri til í að vinna við rannsóknir og greiningu á öllu mögulegu. Gera kannanir og greina þær niður í frumeindir, rannsaka fylgni milli allskonar atriða og skila af mér skýrslum til kaupenda, sem myndu alltaf hrópa uppyfir sig af ánægju. Það, eða að vinna sem sérstakur Excel aðstoðarmaður Scarlett Johansson.
Hvað er versta starf sem þú hefur unnið?
Ég vann einu sinni fyrir löngu við þurrkun á þorskhausum en það felur m.a. í sér að brjóta hausana aftur og leggja á bretti. Það hefði verið fínt ef ég hefði ekki stungið mig reglulega á oddhvössum fiskbeinum og stundum fengið sýkingu í puttana í kjölfarið. Svo þekkti ég engan á vinnustaðnum og fór í gegnum heilu dagana án þess að segja orð, sem var án efa þægilegt fyrir samstarfsfólkið mitt.
Hver er draumabíllinn?
Mamma átti Subaru Justy þegar ég var í Menntaskólanum á Egilsstöðum og ég fékk að nota hann. Hann var lítill, sparsamur, fjórhjóladrifinn og gullfallega hannaður. Eins og hugur manns. Ég væri til í að eiga þann bíl, hvar sem hann er núna.
Hvaða hluti vantar þig á heimilið?
1. Gestir kvarta alltaf yfir skóhornsleysi þegar þeir fara frá mér, sem fyllir mig samviskubiti, svo ég væri til í nýjustu týpuna af skóhorni.
2. Ég væri líka til í nýja ryksugu, þar sem sú gamla sprakk fyrir nokkrum vikum, ósælla minninga.
3. Svo veit ég ekki hvað ég á að gera við alla peningana mína. Ég þarf einhvern skáp undir þá, til dæmis peningaskáp. Þeir kosta bara svo mikið að hann stæði tómur ef ég keypti hann.
Hvaða hluti langar þig í sérstaklega?
1. Mér er yfirleitt kalt á tánum og hvergi annarsstaðar, svo ég væri til í inniskó. Ég hef flogið of oft á hausinn í ullarsokkunum.
2. Peugeot-inn minn er detta í sundur, bókstaflega. Væri til í ófranskan bíl.
3. Brauðgerðarvél myndi spara mér tugi þúsunda á mánuði. Þá vantaði mig bara smjör- og áleggsgerðarvélar og ég yrði á grænni grein.
Hver er þinn eftirlætisstaður á heimilinu?
Stofusófinn. Ég sofna alltaf þegar ég sest í hann.
Svo léti ég þessa mynd af mér fylgja með:
Dæmigert föstudagskvöld hjá mér. |
Ég hélt alltaf að þú værir í forsvari fyrir þetta blað. Datt það strax í hug þegar það kom inn um lúguna hjá mér.
SvaraEyðaSkiljanlega, þar sem ég er bæði Finnur og internetið.
SvaraEyða