Hversdagslegar smásögur úr lífi mínu:
1. Frí
Á þessum tíma árs fæ ég alltaf póst frá yfirmanni mínum þar sem mér er tilkynnt að ég eigi inni sumarfrí frá í fyrra og að ég þurfi að eyða því fyrir 1. maí, ellegar ég tapi því að eilífu.
Ég tók því frí í dag. Vaknaði kl 15:00. Þvoði þvott. Gott frí.
Við þvottinn tók ég eftir að ég á 18 pör af sokkum, 18 hágæða nærbuxur, 17 hlýraboli og 1 venjulegan bol. Alveg óvart.
2. Síðasti leikurinn
Í gærkvöldi spilaði UMFÁ síðasta heimaleikinn sinn í vetur þegar það vann KKF Þóri í kynferðislega æsispennandi leik, 93-80.
UMFÁ hefur þá unnið tólf leiki, tapað tveimur og er mjög örugglega í fyrsta sæti B riðils 2. deildar. Einn útileikur er eftir ásamt úrslitakeppninni um sæti í 1. deild.
Það stefnir allt í að ég nái að klára heilt tímabil án þess að hvorki meiðast líkamlega né andlega. Ótrúlegur árangur. Svipað ótrúlegur og að kasta lafþunnu glasi af alefli í vegg án þess að það brotni, svo viðkvæmur er ég.
3. Mústassmars
Ég ákvað að safna yfirvaraskeggi í mars til vera ekki öðruvísi. Ég stofnaði þó ekki áheitasíðu, ennþá, þar sem ég veit ekki hversu lengi ég get verið með yfirvaraskegg án þess að tryllast (úr hamingju. Og raka það af í kjölfarið).
Ég hlakka til að ganga um götur Reykjavíkur með yfirvaraskeggið í lok mars og þykjast vera í Póllandi eða í Portúgal, þar sem allir eru alltaf með yfirvaraskegg.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.