Síðan ég fór til Reykjavíkur í nám hef ég klárlega orðið var við breytta hagi Egilsstaðabúa og nágrennis(búa) þegar ég sný aftur í ýmist sumarfrí eða jólafrí.
Í fyrsta jólafríinu tók ég eftir því að allir voru komnir á BMW bifreið en það eru, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, býsna dýr farartæki.
Í síðasta sumarfríi var búið að byggja nýja verslunarmiðstöð, risablokk og talsvert af nýjum hverfum.
Í þessu jólafríi hefur verið byggt íþróttahús í Fellabæ, en það er jafnframt fyrsta eyðsla í íþróttir í Fellabæ frá 1995 ca. Ennfremur hef ég tekið eftir því að ca 70% allra bíla á Egilsstöðum eru býsna dýrir og fyrirferðamiklir jeppar.
Hér kemur svo spáin mín fyrir næstu jóla- og sumarfrí:
Næsta sumarfrí: Nesið milli Fellabæjar og Egilsstaða tvöfaldað. Umferðaljós komin víðsvegar á Egilsstöðum og Fellabæ. Fyrsti glæpamaðurinn á Egilsstöðum lítur dagsins ljós.
Næsta jólafrí: Fólk búið að selja jeppana sína og hefur keypt sér svifnökkva og þotur. Einnig umtalsvert um skútur á fljótinu. Þeir fáu sem notast við bifreiðar byrja að nota flautuna, rétt eins og í Reykjavík. Fyrsta "gettó" Egilsstaða komið vegna lausaleiksbarna túristakörfuknattleiksmanna Hattar.
Þarnæsta sumarfrí: Fyrsti 120 hæða skýjakljúfur landsins byggður við hliðina á Kaupfélagi Héraðsbúa. Alþjóðlegur flugvöllur byggður við Vínland, Fellabæ. Olís í Fellabæ kaupir upp Svarthvítu Hetjuna og stefnir á heimsyfirráð. Ég flyt í eitthvað smærra samfélag.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.