Ég kom frá Borgarfirði Eystri í dag kl ca 13:00 eftir tvær nætur í tjaldi með Jóni nokkrum Bónda. Hér kemur ferðasagan:
Dagur 1
Lagði af stað á bílnum mínum sem ég kýs að kalla 'Vínrauði hlébarðinn' en með í för voru Bylgja, Sigga Fanney og ungfrú austurland ásamt ca 50 lítrum af áfengi. Á leiðinni var stoppað í sjoppunni hans Kidda sem gengur fyrir sólar- og vindorku. Skrifað var í gestabók, myndir teknar og mikil stemning hjá dömunum þremur. Þegar á Borgarfjörð var komið voru tjöld sett upp og beðið eftir fólki sem lét sjá sig seint og síðar meir. Þá tók við drykkja og talsvert góð stemning myndaðist. Flestir fóru svo á ball með konunni sem söng lagið 'á skíðum skemmti ég mér' (og ég man ekki hvað heitir) en ég ákvað að sleppa því enda kostaði kr. 2.000 inn. Farið var frekar snemma að sofa í skítakulda og vaknaði ég ca 5 sinnum um nóttina við að ég skalf meira en góðu hófi gegnir.
Dagur 2
Jökull vakti mig um kl 10 og við tókum göngutúr í Kaupfélagið (sem opnaði ekki fyrr en kl 11). Á tjaldstæðinu var myndað smá tjaldþorp, sem voru reyndar mistök eins og kemur fram seinna. Laugardeginum var annars öllum eytt í að horfa á fótboltamót sem var til kl 18 en það unnu Intrum menn (Höttur) í æsispennandi úrslitaleik við Reyðarfjörð. Um kvöldið settist fólk í hring, drakk og söng við gítarleik Óla Rúnars sem lék við hvurn sinn fingur. Eitthvað var um sjónvarpsmyndavélar við sönginn en ég veit ekki hvort þetta hafi komist alla leið í sjónvarpsfréttir. Ég neyddist til að drekka eitthvað það kvöldið sökum kulda en ég hafði áætlað að fara heim fyrr um kvöldið. Þegar flestir voru svo farnir mætti Bergvin galvaskur og tók mig með á rúntinn. Gríðarleg biðröð var á ball og eftir talsverðan tíma komst ég inn, bara til að fara aftur út eftir 2 mínútur og selja miðann minn á hálfvirði fyrir utan. Þá fór ég heim og reyndi að festa svefn. Kl. 6 um morguninn voru allir á tjaldsvæðinu vaktir af þremur bráðþroska hryðjuverkamönnum sem vildu m.a. fá húfuna sína, leika við hvorn annan og sennilega fá athygli kvenna við slæmar undirtektir sofandi fólks. Að sjálfsögðu kom lögreglan (Eiríkur Stefán) og skakkaði leikinn eftir að eitt tjald var ónýtt og annað langt á veg komið eða eftir ca tvo tíma af öskrum og leiðindum.
Dagur 3
Ég vaknaði á hádegi, hljóp út úr tjaldinu, pakkaði saman og fór heim.
Ca 4-5 stafrænar myndavélar voru á svæðinu þannig að það er hægt að búast við nokkrum myndum frá þessu. Sjálfur tók ég 90 myndir sem eru vel flestar mjög slæmar.
Eftirtaldir fá þakkir:
Jón fyrir að hýsa mig í tjaldinu.
Bylgja og Sigga fyrir að reyna sitt besta til að gleðja mig.
Gunnar Borgþórs fyrir góðan húmor.
Óli fyrir að vera síkátur og kunna að kassagítarast.
Bergvin fyrir rúnt.
Gemsinn minn fyrir að leyfa mér að sigra sig í Batumi 5 sinnum í röð í erfiðasta styrkleikastigi þegar á hryðjuverkaárásum stóð.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.