þriðjudagur, 31. janúar 2006

Það er tímabært að ég fari að einbeita mér að mikilvægari hlutum en þessari síðu. Kannski byrja ég aftur síðar. Við sjáum til.

Verið sæl að sinni. Takk fyrir lesturinn í gegnum árin.

mánudagur, 30. janúar 2006

Síðustu daga hef ég verið á austurlandi að njóta lífsins. Ég keyrði svo grátlegu afsökuninni fyrir bifreið til Reykjavíkur með mjög slæmum árangri. Meira um það síðar. Minna af bloggi í bili.

fimmtudagur, 26. janúar 2006

Fyrir nokkrum dögum var ég klóraður í kinnbeinið af manni sem hefur unnið að því hörðum höndum að brjóta mig niður andlega í mörg ár. Þetta er ekki í frásögu færandi nema fyrir það að í gærkvöldi náði ég fram hefndum þegar ég klóraði hann til blóðs á hægri fæti um leið og ég kallaði hann öllum illum nöfnum.

Núna er ég semsagt með sár á kinnbeininu og hægri fæti og þessu er hvergi nærri lokið.

miðvikudagur, 25. janúar 2006

Ég var varla lentur á Egilsstöðum í dag þegar mér var tilkynnt að ég er orðinn atvinnunörd. Ég fékk um kr. 99.000 greiddar fyrir að fylla öll eftirtalin skilyrði:

* Vera á viðskiptabraut.
* Vera á 3ja ári í Háskóla Reykjavíkur.
* Eiga mér lítið líf utan námsins og spúsunnar.
* Vera með hæstu meðaleinkunnina á síðustu önn.
* Vera geðsjúkur nörd.

Mjög súrrealískt. Ég vakna sennilega bráðum af þessum fáránlega draumi.

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Þetta er að frétta:

* Við Jónas tókum nýlega tilboði um að gera Arthúr einnig á ensku. Sú síða mun opna innan tíðar.

* Ég fer austur á land á morgun, fyrst og fremst til að hitta Soffíu en einnig til að fara í smá ferðalag um landið með henni og koma bílhræinu mínu til Reykjavíkur. Ég býst við því að koma aftur á mánudaginn.

* Mér bauðst nýlega að taka að mér aukakennslu í Hagnýtri Tölfræði I Í HR. Þetta er mikill heiður fyrir mig, jafnvel mestur heiður (núvirt).

* Ég var talinn útlendingur um daginn í 10-11 af tveimur íslenskum ungmennum. Ástæðan er sennilega tignarlegur hýjungur sem var framan í mér. Ég kinkaði bara kolli við því sem þeir sögðu mér til að komast hjá vandræðalegri þögn.

* Ég drap mann um daginn. Með "drepa" á ég auðvitað við að "drekka" og með "mann" á ég auðvitað við "kók".
Margir hafa spurt mig; hversu mörgum myndum sem teknar eru á myndavélarnar þínar, af heildarfjölda mynda þinna, ertu að deila á netinu (í myndaalbúminu) með gestum og vafrandi?

Ég fagna þessari spurningu því þetta gefur mér ástæðu til að koma með smá tölfræði:




Niðurstaða: Ég deili nánast engu með ykkur og minnka myndirnar niður í ca 19% af heildarstærðinni. Sem þýðir í stuttu máli að það er ótrúlegt að þetta blogg sé yfir höfuð til.

mánudagur, 23. janúar 2006

Þá er komið að smá keppni hérna á síðunni. Keppnin felst í því að fara á þessa síðu og skrá sig. Sendið því næst tölvupóst á ph@expekt.com með "CP" í subject línunni. Í bréfinu takiði fram að þið viljið fá 500 króna innistæðu, sem fæst skömmu síðar.

Þá tekur við leikurinn. Veðjið fyrir þessar ókeypis 500 krónur á hvaða leiki sem er og á föstudaginn skrifa allir í athugasemd hvað þeir/þau/þær hafa grætt mikinn pening.

Ég mæli annars ekki með fjárhættuspilum. Þetta er meira skemmtun með "ókeypis peninga".

Góða skemmtun og passið að missa ekki stjórn á ykkur.

p.s. Það er maður með svo mikinn plömmer á næsta borði við mig að mér er óglatt. En það er önnur saga.
Ég má til með að deila fleiru fyndnu með ykkur. Þetta video er með því fyndnara sem finnst á netinu. Það munaði engu að ég hefði fengið blóðnasir af hlátri yfir því. En næringarskorturinn varð á undan í að valda þeim.

sunnudagur, 22. janúar 2006

Olnbogi í öxlina, högg á vitlausa beinið, bolti í augað, misstig á báðum fótum, tognun á þumalputtanum og verkur í hnjánum.

En nóg um körfuboltaæfinguna í gær.
Top 3 lögin á XFM vinsældalistanum frá 18. janúar er eftirfarandi:

1. Richard Ashcroft - Break the night with color
2. Dikta - Breaking the waves
3. Turin Brakes - Breaking the girl

Ef þið viljið semja lag sem slær í gegn, látið eitthvað brotna í því.
Stundum langar mann ekki að gera neitt nema gráta. Stundum langar mann ekki heldur að gera neitt nema hlæja. Ég er í þannig skapi núna.

Kíkið á þetta. Ég öskraði úr hlátri.

laugardagur, 21. janúar 2006

Í dag bjargaði náttúran mér frá bráðum dauða. Planið var að fara í fyrsta sinn á snjóbretti í dag upp í Bláfjöll með Óla og Önnu hans. Þar sem ekki hefur hætt að rigna síðasta sólarhringinn ákváðum við að fresta dauða mínum um ca viku.