þriðjudagur, 23. júlí 2013

Bros

Á sunnudaginn gerði ég mér lítið fyrir og fór út að labba í Laugardalnum, þrátt fyrir að það hafi nánast verið maður við mann túristaástand þar.

Í upphafi göngutúrsins mætti ég stelpu á hjóli sem í fyrstu var alvarleg á svipinn en þegar hún leit til mín brosti hún eyrnanna á milli. Það er ekkert eðlilegt við það, svo ég fór að velta fyrir mér mögulegum ástæðum.

Ég hélt í fyrstu að ég væri með mjólkurskegg (eða kók- og/eða súkkulaðiskegg) og hóf að þrífa mig í framan, án þess að vera með spegil á mér. Þegar því var lokið læddist sá grunur að mér að hárið á mér væri eins og á Charles Manson á slæmum degi.

Þegar ég hafði greitt það með fingrum annarar handar ítrekað, kaldsvitnaði ég því ég var viss um að ég væri með opna buxnaklauf. Það reyndist ekki vera. Þá hélt ég að ég væri með eitthvað óhreint/ósmekklegt á peysunni sem ég var íklæddur. Það reyndist ekki vera.

Ég reyndi að spotta viðbrögð annarra sem ég gekk framhjá og sjá hvert þau horfðu þegar þau mættu mér. Ekkert kom úr þeirri rannsókn, nema að fólk er frekar hrætt við örvæntingarfullar augngotur.

Þegar hingað var komið við sögu var göngutúrnum nánast lokið og ég farinn að örvænta. Ég gekk því nokkuð hratt restina af leiðinni, í bílinn, beint heim og í sturtu áður en ég lagði mig, enn í nagandi óvissu.

Ef þú lest þetta, hjólastelpa: takk fyrir að eyðileggja göngutúrinn daginn fyrir mér, tillitslausa fíflið þitt.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.