fimmtudagur, 25. apríl 2013

Kvikmyndaæði

Gripið hefur um sig kvikmyndaæði hjá undirrituðum. Ég hef nú farið í bíó fimm sinnum síðustu níu daga og það lítur út fyrir að ég sé að verða uppiskroppa með bíómyndir. Hér eru þær myndir sem ég hef séð undanfarið og smá umsögn um hverja og eina.

Side effects (Ísl.: Aukaverkanir)
Dramaspennumynd um stúlku sem hittir geðlækni vegna þunglyndis og fær nýja gerð af geðlyfi sem hefur aukaverkanir eins og ógleði, svefndrunga, morð og þurra húð.

Mjög vel gerð og mynd, enda er leikstjórinn Steven Soderbergh, sem er yfirleitt góður. Söguþráðurinn er þó pínu ótrúverðugur. En hverjum er ekki sama um það?

2,5 stjörnur af 4.

The Incredible Burt Wonderstone (Ísl.: Hinn ótrúverðugi Böðvar Undraeitthvað)
Gamanmynd um töframann í Las Vegas sem hættir skyndilega að verða vinsæll þegar meira hipp og kúl töframenn brjótast fram á sviðið (ekki bókstaflega).

Sæmilegasta skemmtun. Skilur ekkert eftir sig, skiljanlega. Jim Carrey bjargar því sem bjargað verður. Nokkrar senur sem fengu mig til að hlæja upphátt, sem gerist alltof sjaldan alla jafna (sem er reyndar ekki myndinni að kenna, aldrei þessu vant).

1,5 stjörnur af 4.

Oblivion (Ísl.: Gleymskunnar dá)
Tom Cruise leikur mann sem vaktar svæði á jörðinni eftir að mannkynið hefur ákveðið að yfirgefa hana fyrir Titan, eitt tungla Satúrnusar. Hann vaktar vélar sem eru að gleypa í sig höf jarðarinnar fyrir orku, eða eitthvað.

Myndin er tekin upp á Íslandi og er afskaplega vel útlítandi. Söguþráðurinn er skemmtilegur og myndin vel leikin. Ég hef eiginlega ekkert við hana að athuga, fyrir utan kannski örlítið of mikla væmni á köflum.

3,5 stjörnur af 4.

Olympus has fallen (Ísl.: 'Murica über alles)
Vondir kallar ráðast á Hvíta Húsið af því þeir vilja ekki að Bandaríkin haldi áfram frelsa alla jörðina. Forsetinn er tekinn til fanga og aðeins einn maður, sem átti ekki að vera á staðnum, getur bjargað málunum.

Þetta hefði verið fín lokamynd í Die Hard veldinu, þar sem ekki er hægt að bjarga miklu meiru en öllum Bandaríkjunum. Myndin er skemmtileg framan af, vel gerð og troðfull af grófu ofbeldi. En fyrir hvert ofbeldi er þremur ættjarðarástum Bandaríkjamanna troðið inn, sem keyrir um þverbak undir lokin.

2 stjörnur af 4.

Hypnotisören (Ísl.: Sprellarinn)
Maður, kona og dóttir þeirra finnast myrt en sonurinn kemst af. Dáleiðari er fenginn á svæðið til að sjá hvað pilturinn hefur séð. Allt verður vitlaust.

Ég fattaði eftir fimm mínútur að ég hafði lesið bókina fyrir ári síðan. Myndin er gloppótt og á köflum afskaplega langdregin um leið og skautað er yfir of mikið efni í einu. Allskonar atriði úr bókinni eru skorin alveg út sem skilur eftir miklar holur í sögunni. En myndin er samt ágætis afþreying. Ef kona dáleiðarans hefði verið skorin út hefði myndin verið mun betri.

1,5 stjörnur af 4.

Þá á ég bara eftir að sjá Bubbi Byggir 17 í 3D klukkan 13:00 á morgun á leikskólanum Vallarseli. Ég næ vonandi fremsta sætinu.

þriðjudagur, 9. apríl 2013

Tónlistargubb

Ég hef verið svo upptekinn við vinnu, svefn og meiri vinnu að ég hef ekki haft tíma til að láta eitthvað gerast sem er vert að skrifa um, hvað þá að skrifa um það litla sem hefur gerst á milli þess sem ég vinn og kem mér heim til að sofa.

Hér eru því nokkur lög sem ég hef hef verið að hlusta á síðustu vikur við svefn og vöku:

1. Danger Mouse & Daniele Luppi - Black


Ég heyrði þetta lag í lokasenu lokaþáttar af fjórðu seríu af Breaking Bad (Ísl.: Brjótandi vondur) og ég greip andköf. Frábært lag.

2. The Strokes - One Way Trigger


Af nýja diski Strokes, sem ég hef aldrei haft sérstaklega gaman af. En þessi nýi diskur þeirra, Comedown Machine (Ísl.: Komdu niður kveður amma), er meistaraverk. Mæli með honum.

3. Beastie Boys - Root Down (Free Zone Mix)


Með þessu lagi hef ég verið að tralla í ræktinni. Ég fer bráðum að vera búinn að læra textann utan að. Þá má fólk fara að passa sig.

4. Boys Noize - Ich R U


Í leit minni að svipaðri tónlist og Daft Punk gefa út fann ég Boys Noise (Ísl.: Strákar Nief) og þetta lag þeirra af plötunni Out of the Black (Ísl.: Át off ðe blakk), sem er drullu djöfull mögnuð. Tilvalið í ræktina eða við eldamennskuna, að því gefnu að rétturinn sé eldaður í örbylgjuofni.