sunnudagur, 17. febrúar 2013

Hversdagsleg ævintýri

Nokkur ævintýri úr hversdagslegu lífi mínu:

1. Teygja um úlnlið
Ég geng með teygju um hægri úlnlið af gömlum vana og til að hafa eitthvað í mínu munúðarfulla og alltof óklippta hári þegar ég hleyp í ræktinni eða spila körfubolta. Einn morgunn í vikunni hafði teygjan færst yfir á vinstri úlnlið og kona í vinnunni, sem við skulum kalla Hróðný, tók eftir því.

Hróðný: Ertu hættur að ganga með teyju um úlnliðinn eftir samtal okkar um daginn?
Ég: Nei alls ekki. Ég er meira að segja farinn að búa þær til heima eftir Kínverskri aðferð.
Hróðný: Hahahahaha, góður.

Það er skemmst að segja að mér sárnaði að hún héldi að ég væri ekki nógu handlaginn til að gera það og ákvað að gefa henni ljótasta nafn sem ég gæti hugsað í bloggfærslu.

2. Nýtt rúm
Ég keypti mér nýtt rúm í nýliðinni viku. Þetta er annað rúmið sem ég kaupi fyrir meira en 100.000 krónur á sex árum. Ástæðan er þríþætt.

Í fyrsta lagi er mjög erfitt að gera mér til geðs þegar kemur að rúmum. Og það er erfitt að skila rúmum ef mér líst illa á þau eftir ákveðinn tíma. Svo ég gef það og kaupi mér nýtt.

Í öðru lagi er mér frekar illa við peninga og vil helst ekki hafa þá tengda við nafn mitt.

Og í þriðja lagi þarf ég að viðhalda orðspori viðskiptafræðingsins sem ég er og læt því sjá mig reglulega í rúmverslunum svo fólk geti sagt sín á milli "Aha, þarna er Finnur Viðskiptafræðingur. Ég sé að hann hefur það nógu gott til að vera að leita sér að nýju rúmi, enda viðskiptafræðingur."

3. Kína
Fyrir rúmri viku sá kona í vinnunni, sem við skulum kalla Hróðný, að ég geng með teygju um úlnliðinn og spurði hvort hún mætti fá hana lánaða. Ég samþykkti það. Þegar hún skilaði henni svo síðar sagði hún mér að hárteygjur væru yfirleitt gerðar í Kína úr notuðum smokkum. Við hlógum að þessum fróðleiksmola, þó undir niðri væri að vakna hjá mér viðskiptahugmynd.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.