Ég veit ekki hvað heimsmetið í því að vera utan við sig er, en það er hugsanlegt að ég hafi bætt það í dag.
Ég passaði Valeríu Dögg, 15 mánaða frænku mína í dag. Eftir pössunina fór ég í bílinn og var að leggja af stað heim þegar ég fattaði að ég gleymdi að skila barnabílstólnum. Svo ég snéri til baka og skilaði honum.
Þegar ég var svo hálfnaður á leiðinni heim furðaði ég mig á því að ég sæi ekki neitt, sama hvað ég skóf rúðuna. Þá tók ég eftir að ég var ekki með gleraugun á nefinu, þar sem ég hafði gleymt þeim í pössuninni. Svo ég snéri við og sótti þau.
Þegar ég kom heim skipti ég um föt, þar sem Valería Dögg hafði borðað skyr og þurrkað sér fimlega í fötin mín, áður en ég fór í vinnuna að klára nokkrar skýrslur.
Þegar ég var hálfnaður í vinnuna fattaði ég að ég hafði gleymt aðgangskortinu að vinnunni. Svo ég snéri við og sótti það.
Þegar ég var svo kominn í vinnuna fattaði ég að ég hafði gleymt að borða þennan daginn þegar ég fékk einn þungasta hungurhausverk sem ég hef fengið lengi. Svo ég kláraði vinnuna, borðaði og fór heim að leggja mig.
Heima gleymdi ég svo að stilla vekjarann, svo ég svaf yfir mig í ræktina.
Ef ég væri ekki svona utan við mig væri ég sennilega á öðrum stað í lífinu.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.