Í gær lærði ég hvar stærsta gata Reykjavíkur, Miklabrautin, er staðsett. Þá hef ég lært átta götunöfn í Reykjavík og nágrenni, frá því ég flutti hingað 2003, eða um eitt götunafn á ári að meðaltali.
Hér eru götunöfnin sem ég þekki, í þeirri röð sem ég lærði þau:
Túngata (18)
Bjó þar í eitt ár með fjórum piltum, sem drukku ótæpilega og voru glaðir, á meðan við vorum allir í námi.
Skipholt
Bjó þar á stúdentagörðum í tvo vetur í agnarsmáum herbergjum.
Kringlumýrarbraut
Valhoppaði þessa götu í skólann, úr Skipholtinu, oftar en ekki trallandi lítinn lagstúf.
Kristnibraut
Bjó þar í stúdentaíbúð með spúsu. Staðsett einhversstaðar uppi í fjalli, fjarri allri siðmenningu.
Skaftahlíð (24)
Fékk vinnu þar eftir útskrift. Ef ég ynni ekki þar enn þá væri ég löngu búinn að gleyma þessu götuheiti.
Laugarvegur
Hélt alltaf að hann væri hjá Ingólfstorgi niðri í bæ. En það er víst önnur gata, sem ég man ekki hvað heitir.
Sæbraut
Hef ekki hugmynd af hverju ég veit hvar þessi gata er. Kannski af því sær kemur fram í nafninu og hún liggur við sjóinn, held ég.
Miklabraut
Sá nafnið á skilti þegar ég ók í vinnuna í gær og hugsaði "ah, þarna er þá þessi andskotans Miklabraut". Verð mögulega búinn að gleyma því seinna í dag.
Götunöfn sem ég stefni á að læra á næstunni:
Gatan sem pabbi býr í
Ég get ekki munað hvað hún heitir, þó það séu fjögur ár síðan hann flutti þangað.
Gatan sem ég bý í
...og hef búið í síðasta árið. Hefur boðið upp á býsna vandræðalegar stundir í afgreiðslum þegar ég þarf að gefa upp heimilisfang.
Ég verð svo búinn að læra öll götuheitin á höfuðborgarsvæðinu eftir um 1.200 ár, að því gefnu að ég lifi svo lengi og engar götur bætist við.
0 athugasemdir:
Skrifa ummæli
ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.