þriðjudagur, 16. mars 2010

Allskonargagnrýni!

1. [Bíó] Luftslottet som sprängdes (Ísl.: Loftkastalinn sem sprakk)
Ég fór nýlega á þessa mynd í bíó með Sibba. Þetta er þriðja myndin í Millenium þríleiknum sem fjallar um stelpu sem leikur sér að eldinum þegar hún reynir að hefna sín á mönnum sem hata konur.

Myndin er líklega verst af þrennunni þar sem hér er um frekar einfalt lögfræðidrama að ræða á meðan hinar tvær eru meiri spennumyndir. Hún er engu að síður góð. Mæli með henni fyrir alla sem hafa gaman af því að sjá Goth í hlutverki hetjunnar og þá sem geta sofið amk þriðjung myndarinnar (eða heita Sibbi).

3,5 stjörnur af 4.


2. [Bók] Heavier than heaven (Ísl.: Ævisaga Kurt Cobain)
Ég kláraði þessa bók í gær eftir aðeins 2ja mánaða lestur. Bókina hef ég átt í 5 ár en fann hana aftur í flutningum í ágúst síðastliðnum við mikinn fögnuð.

Bókin fjallar um uppáhaldstónlistarmann minn þegar ég var yngri, Kurt Cobain og grátlega ævi hans. Hún er mjög ítarleg og nær að sýna vel hversu skemmdur hann var á undarlegri æsku í bland við snarvitlausa dópneyslu (og enn geðveikari eiginkonu). Bókin staðfestir ennfremur þann grun minn að Kurt Cobain var einlægur holdgervingur rokksins, ólíkt öllu sem er í gangi í dag.

Þessi annars fína bók er eyðilögð með hræðilegum endi, sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir með smá skáldaleyfi.

3 stjörnur af 4.


3. [Jógúrt] Deluxa Soyage Strawberry, gluten and dairy free (Ísl.: Ofursoja jarðarberja jógúrt)
Ákvað að flippa í Hagkaup í kvöld og kaupa mér sojajógúrt með jarðarberjabragði í eftirmat.

Lykt: Ég hef sjaldan fundið jafn góða jógúrtlykt. Nammilykt.
Áferð: Eins og jógúrt þynnt með vatni og blandað í hnerr.
Bragð: Eins og mikið þynntur sorbet ís hrærður saman við helling af vatni. Gott eftirbragð. Sæmilegt fyrirbragð.
Verð: 150 krónur fyrir 145 gramma dollu er fáránlega hátt verð.
Annað: Fer vel í maga og er næstum próteinríkt.

Ef verðið væri lægra myndi ég kaupa þennan viðbjóð oftar. 3 stjörnur af 4.


4. [Þjónusta] Vodafone (Ísl: Vódafón)
Fyrir 14 dögum fór ég með símann minn í viðgerð hjá Vodafone en þar keypti ég hann fyrir 716 dögum (og með honum fylgdi 730 daga ábyrgð).

Afgreiðslufólkið var fljótt að spotta mig og koma til aðstoðar. Ég fékk lánsíma í staðinn, sem er með þeim frumstæðari í bransanum, hleðslutæki og kvittun.

Enn hefur Vodafone ekki gert við símann. 14 dagar ættu að nægja til að gera við hluti í geimstöð NASA, en ekki síma með pínulítla bilun, að því er virðist. Ég bíð áfram, símanúmeralaus (sem fylgja símanum) og með tár á hvarma.

1,5 stjarna af 4.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.