laugardagur, 13. febrúar 2010

Hér er listi yfir óþægilegustu atvik vikunnar:

3. Glimmer
Ég geymdi lyklakippu með mjög lélegri ásprautaðri silfuráferð í vasanum í vinnunni um daginn. Silfrið flagnaði af og örsmáar agnirnar fóru úr vasanum á hendurnar á mér og af höndunum framan í mig, án þess að ég tæki eftir neinu.

Fjórum tímum síðar sá ég spegilmynd mína og öskrandi eins hátt og gat (innan í mér). Andlitið á mér innihélt ágætis magn af "glimmeri". Ég er enn, þremur dögum síðar, að týna það úr andlitinu.

2. Súkkulaðiflóð
Ég fór, aldrei þessu vant, í Bónus verslun í morgun. Þar sá ég nýuppraðaðan Risahraunstafla og tók eitt stykki. Við það losnaði mikið magn af Risahraunum og upphófst barátta við að stoppa flóðið.

Eftir mínútu af talsvert neyðarlegri baráttu gafst ég upp og keypti sjö stykki eða þar til rennslið stoppaði að mestu og ég gat hlaupið í burtu.

1. Buxnavesen
Í byrjun vikunnar rölti ég úr mötuneyti vinnu minnar með fangið fullt af matvælum að skrifborðinu mínu. Skrifborðið mitt er við enda hæðarinnar, svo ég þarf að ganga í gegnum nánast allar söludeildirnar áður en ég kem að því.

Á miðri leiðinni fann ég að buxurnar voru að renna niðrum mig, enda með mjög straumlínulaga mjaðmir. Þar sem ég var með báðar hendur uppteknar við annað fann ég ekkert ráð nema að stoppa (þar sem hreyfing hafði neikvæð áhrif á framvinduna) og svitna (eftir á að hyggja skil ég ekki til hvers).

Eftir 5 sekúndna hugsun lagði ég aftur af stað með talsvert breyttu göngulagi og komst þannig á leiðarenda án þess að sýna nema helming nærbuxna minna og uppskera talsvert lítið af hlátrasköllum.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.