þriðjudagur, 8. desember 2009

Í dag bryddaði ég upp á nýjungum í smá félagslegri tilraun:

1. Kaffimaðurinn
Ég fékk mér kaffi í fyrsta sinn í vinnunni, eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Súkkulaðisykurmjólkurlattékaffi útþynnt með vatni og extra mjólk, nánar tiltekið. Svo gekk ég í burtu, raulandi "Ég drekk kaffi, eins og þið fullorðna fólkið" (við lagið Killing in the name of með Rage against the machine).

2. Kaffimaðurinn spjallar um fótbolta
Með kaffibolann að vopni réðist ég að manni á vinnustaðnum, hver var nálægt sjónvarpi sem sýndi enska boltann. Samtalið:

Ég: "Er þetta beint?"
Hann: "Nei, frá sunnudeginum."
Ég: "Ah, áhugavert."
Hann: "Skoraði Hermann ekki í þessum leik."
Ég: "Jú. Og fiskaði vítaspyrnu las ég."
Hann: "Jahá. Það er vel gert."
Ég: "Já. Er ekki fótur á þennan? Má sparka svona í boltann?"
Hann: *labbar rólega í burtu, aftur á bak*

Þið lásuð rétt. Ég náði að halda uppi samtali um fótbolta í meira en 10 sekúndur um leið og ég drakk kaffi.

Að gera þetta tvennt samtímis er eins og fyrir venjulega manneskju að hjóla á kaðli í 20 metra hæð á meðan drukkin er blásýra.

Næsta markmið: Ná að klára 1/4 úr bjórdós án þess að kasta upp blóði.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.