þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Ég var að hugsa um árin mín þrjú í Háskóla Reykjavíkur um daginn. Þá rifjuðust upp m.a. eftirfarandi atriði:

Fyrirlestrar
Eitt af því sem ég kveið hvað mest við að fara í háskóla var að halda fyrirlestra, af því ég er ekki mikið fyrir að fá flogaköst úr stressi.

Sem betur fer náði ég samningi við hvern einasta hóp um að vinna tvöfalt á við aðra í hópnum gegn því að þurfa ekki að halda fyrirlesturinn. Ég slapp í gegnum öll árin án þess að halda fyrirlestur og yfirleitt við að vinna tvöfalt á við aðra.

Páskar í skólanum
Öll þrjú árin mín í skólanum eyddi ég páskunum einn í skólanum, lærandi fyrir próf, drekkandi kók, borðandi risahraun og farandi í bíó. Hljómar illa en var stórkostlegt stökk fyrir einhverfuna í mér.

Næturnar
Á hverri önn tók ég að meðaltali 6-7 all-nighters (vaka heila nótt) fyrir próf, verkefnavinnu og/eða ritgerðasmíð. Það gera um 39 nætur vaktaðar í skólanum, yfirleitt einn.

Þessar nætur gáfu mér frelsi til að prófa mig áfram í ganga um nakinn, sem ég gerði auðvitað ekki. Amk ekki svo sannað hafi verið með óyggjandi hætti.

Félagslífið
Fór í eina vísindaferð og enga útskriftarferð. Þar með er það upptalið.

Mataræðið
Ég skiptist á að grennast hægt og grennast hratt á meðan skólanum stóð. Sennilega af því ég borðaði ekkert nema nammi, lyfti ekki lóðum og fór út að hlaupa reglulega, ásamt körfuboltaspili.

Eftir þessa upprifjun ákvað ég að þegar færi gefst mun ég án nokkurs vafa taka meira nám í HR, þá líklega tölvunarfræði. En þó ekki fyrr en ég líftryggi mig.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.