þriðjudagur, 31. mars 2009

Fyrir rúmri viku fékk ég gefins vikuaðgang í baðstofu Lauga í gegnum vinnuna hjá 365. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er baðstofan fínni og dýrari aðgangur að Laugum en almenningum má venjast. Svona eins og VIP í bíó.

Allavega, nú er þessari viku lokið og ég þarf að klæða mig í og úr fötunum með sótsvörtum og ógeðslegum almúganum aftur. Hér er listi yfir muninn á skiptiklefunum:

* Skáparnir eru ca 50% stærri í Baðstofunni.
* 50% fleiri krókar eru í skápunum í Baðstofunni.
* Starfsfólkið gengur ekki um og skellir opnum skápahurðum í Baðstofunni.
* Starfsfólkið ryksugar ekki á milli lappanna á manni þegar maður er að klæða sig í Baðstofunni.
* Maður þarf ekki að burðast með handklæði í Baðstofuna, þar sem þau bíða manns við sturtuna.
* Skilrúm er í sturtunni, svo maður þarf ekki að fara í sturtu með fólki í Baðstofunni.
* Fríir eyrnapinnar eru í Baðstofunni.
* Róandi tónlist spilast í Baðstofunni, ólíkt öskrunum, látunum og slagsmálunum hinum megin.
* 250.000.000% fleiri eru í almenna aðganginum en Baðstofunni.
* Drykkjarvatnið er 30% volgara í Baðstofunni.

Ég legg mikla áherslu á að fá kalt vatn þegar ég afklæðist, svo ég er nokkuð feginn því að þessi vika sé búin.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.