sunnudagur, 17. ágúst 2008

Í nótt rændi ég fyrirtækið sem ég vinn fyrir (365) með 4-5 öðrum starfsmönnum söludeildar 365. Þegar því var lokið rændum við strætó og keyrðum honum út í sveit, þar sem haldið var sveitapartý við gríðarlega ánægju yfir vel heppnuðu ráni.

Þegar leið á partýið og skákin sem ég var að tefla í partýinu var að tapast, runnu á mig tvær grímur. Ég hugsaði að með þessu ráni hafi ég verið að eyðileggja tölfræðiferil minn. Og ég byrjaði að panikka. Ég hélt þó áfram að tefla og gleymdi mér stundum í vangaveltum yfir skákinni, en alltaf kom ég niður á þennan ömurlega punkt; ég var búinn að eyðileggja tölfræðiferil minn.

Þegar svo kom í ljós að framundan væri andlegt svartnætti yfir þessu stundarbrjálæði og engin leið út fór ég að velta fyrir mér þeim möguleika að þetta væri draumur. Ég fór að öskra á mig að opna augun, við litla hrifningu mótherjans í skákinni.

Allavega, ég vaknaði og hef aldrei verið jafn ánægður á ævi minni. Það eina sem hefði getað gert þennan draum ömurlegri væri ef einhver hefði verið að segja mér hvað hann dreymdi nóttina áður. Þá hefði ég líklega drepið mig.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.